Atvinnuveganefnd

Atvinnulíf — undirstaða öflugs samfélags

Stjórnvöld eiga að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðar. Atvinnustefna er fjölskyldustefna.

Við stöðugleika, hóflega skattheimtu og hagkvæma nýtingu auðlinda landsins felast tækifæri til uppbyggingar og velferðar. Hið opinbera á að skapa umgjörð þar sem fyrirtæki og fjárfestar geta horft til framtíðar við áætlanagerð. Fjármagn leitar þá í arðbær verkefni og samkeppni ríkir milli fyrirtækja.

Stjórnvöld eiga að stuðla að stöðugleika og skýrri umgjörð fyrir atvinnulífið

Allar atvinnugreinar þurfa skýra umgjörð og stöðugleika til langs tíma. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og stuðla að fjárfestingum og eðlilegri samkeppni. Jafnræðis skal gætt í hvers kyns gjaldtöku sem snýr að atvinnutækjum eða atvinnugreinum. Mikilvægt er að einfalda opinbert eftirlit og tryggja að það hamli ekki nýsköpun og framþróun. Jafnframt þarf að einfalda og auka skilvirkni við opinberar leyfisveitingar. Afar brýnt er að auka framleiðni og styðja við alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja. Það er ekki hlutverk ríkisins að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og koma í veg fyrir hagræðingu heldur að tryggja jafnræði og vinna gegn lögbrotum. Afnumin verði lög um opinber hlutafélög (ohf). Fyrirtæki í eigu hins opinbera eiga að starfa undir sömu hlutafélagalögum og fyrirtæki í eigu einkaaðila. Ríkið skal setja sér skýra eigendastefnu fyrir fyrirtæki í eigu ríkisins. Hið opinbera á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila.

Víðtæk sátt þarf að ríkja um nýtingu náttúruauðlinda

Mikilvægt er að standa vörð um náttúruna og að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti þjóðinni allri til hagsbóta, bættra lífsgæða og velferðar.

Þeir sem eiga nýtingarrétt á náttúruauðlindum greiði fyrir það sanngjarnt gjald. Slík gjaldtaka á að taka mið af hagsmunum þjóðarinnar til langs tíma litið. Nauðsynlegt er að gjaldtakan dragi ekki úr fjárfestingu og framþróun innan atvinnugreina enda er fjárfesting og nýsköpun forsenda almennrar framþróunar og velmegunar þjóðarinnar.

Örva þarf nýsköpun og tækniþróun

Lykillinn að bættum lífskjörum og fleiri tækifærum er að er hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi nýsköpunar hér á landi hafa leitt af sér frjósamt umhverfi fyrir frumkvöðla. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi áfram umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins.

Fyrir íslenskt atvinnulíf er mannauður lykilatriði. Hátt menntunarstig styrkir framleiðni íslenskt atvinnulífs og eykur lífsgæði. Fjárfesting samfélagsins í menntun er fjárfesting í framtíðinni. Jákvæðir hvatar eru mikilvægir m.a. svo hægt sé að fjölga nemendum í svokölluðum STEAM greinum (raunvísindi og listgreinar) og auka framboð á námsgreinum í fjarnámi.

Vísindi og rannsóknir eru hryggjarstykki þekkingarsköpunar. Það er mikilvægt að afrakstur í vísinda og rannsóknarstarfi skili sér í auknum mæli inn í atvinnulífið beint eða óbeint. Grunnvísindi eru mikilvæg en við eigum ekki síður að leggja áherslu á að úr vísindum verði til verðmæti í formi atvinnusköpunar.

Á næstu fimm árum mun okkur vanta þúsundir sérfræðinga í hugverkaiðnaði ef að vöxtur greinarinnar á að ganga eftir. Mikil samkeppni er um færustu sérfræðingana á hverju sviði og við eigum í samkeppni við heiminn um besta fólkið. Efla þarf hvata og gera það einfalt og eftirsóknarvert að búa og starfa á Íslandi.

Einfalt og skiljanlegt regluverk er hvetjandi fyrir erlenda fjárfesta. Með fjármagni frá erlendum fjárfestum stuðlum við að frekari framförum og auknum lífsgæðum.

Matvælaframleiðslulandið Ísland

Heilnæmi íslenskrar matvælaframleiðslu og hreinleiki náttúrunnar eru eftirsótt gæði í heimi sívaxandi eftirspurnar eftir matvælum og vatni. Nýta þarf þessa sérstöðu Íslands og leggja frekari grunn að sókn íslenskrar matvælaframleiðslu í landbúnaði og sjávarútvegi.. Í þeirri sókn þarf að nýta að fullu kosti og þekkingu íslenskra tæknifyrirtækja og sveigjanlegar lausnir fyrir matvælaframleiðendur. Tryggja þarf að opinbert fjármagn nýtist markvisst til nýsköpunar um allt land. Huga þarf sérstaklega að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun s.s. sölu afurða beint frá býli og framleiðslu fiskafurða beint á neytendamarkað. Ferðaþjónusta, orkuiðnaður og matvælaframleiðsla eiga mikla sameiginlega vaxtarmöguleika.

Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegri samkeppni

Íslenskur sjávarútvegur, sem er burðarás í atvinnulífi um land allt, er leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Íslenskur sjávarútvegur er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimtu í sjávarútvegi sé stillt í hóf, hún dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Tryggja þarf stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs sem byggir á núgildandi aflamarkskerfi svo að greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskistofna. Í ljósi minnkandi fyrirsjáanleika í heimsmálum er mikilvægt að sjávarútvegurinn hafi sveigjanleika í tilhögun veiða .

Með öflugum sjávarútvegi vex nýsköpun og vöruþróun. Grundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Góðar samgöngur innanlands og milli landa eru forsenda þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi sjávarafurða.

Mikilvægt er að öryggi sjómanna sé ávallt haft að leiðarljósi. Skoða þarf sérstaklega starfsumhverfi smábáta á strandveiðum.

Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs sem felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar bæði í sjókvía-  og landeldi. Mikilvægt er að  uppbygging  greinarinnar byggi á bestu vísindum og viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi og tillit tekið til umhverfis-, rekstrar- og samfélagslegra þátta. Leggja ber áherslu á góða umgengni, og öflugar smitvarnir svo að álag á vistkerfi sé lágmarkað og réttur komandi kynslóða tryggður. Fyrirsjáanleiki og samkeppnishæfni rekstrar verði sem best tryggður. Jafnframt er mikilvægt að fiskeldið myndi byggðafestu og að margfeldisáhrif greinarinnar skili sér sem mest inn í íslenskt hagkerfi.

Íslenskur landbúnaður

Hverri þjóð er mikilvægt að vera sjálfbær um matvöru eftir því sem kostur er. Landbúnaður á Íslandi er burðarás í atvinnulífi hinna dreifðu byggða og byggðafestu í landinu. Öflugur landbúnaður er hornsteinn góðs þjónustustigs um allt land. Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og neytenda. Tryggja verður matvælaöryggi og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Gæta þarf þess að reglugerðir innleiddar í gegnum EES séu aðlagaðar að íslenskum aðstæðum. Íslenskur landbúnaður er í daglegri samkeppni við erlendan landbúnað. Atvinnugreinin þarf að hafa frelsi til að takast á við sveiflur og vinna að langtímahagsmunum neytenda og bænda. Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum ný tækifæri innanlands og erlendis.

Tækifæri eru til eflingar skógræktar sem atvinnuvegar á viðskiptalegum forsendum. Skógrækt og landgræðsla hafa jákvæð áhrif við bindingu kolefnis. Endurskipuleggja þarf starfsumhverfi gróðurverndarmála.

Ferðaþjónustan er einn af máttarstólpum íslensks atvinnulífs

Ferðaþjónustan er  einn af máttarstólpum íslenskrar atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Langtímastefnumótun í samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar hefur reynst farsæl og á því samstarfi þarf að byggja áfram. Tryggja þarf öryggi ferðamanna og bæta upplýsingagjöf. Nauðsynlegt er að uppbygging innviða sé í samræmi við þarfir og þróun greinarinnar. Ríkið ætti að bjóða út þjónustu á þeim ferðamannastöðum sem eru í eigu þess.

Í uppbyggingu ferðaþjónustu felast mikil sóknarfæri samfélagsins til lengri tíma til aukinnar hagsældar og jákvæðrar byggðaþróunar.

Regluverk skal vera sem einfaldast og ekki takmarka nýtingarrétt einstaklinga á eignum sínum.

Skapandi greinar eru ört vaxandi hluti atvinnulífsins

Sjálfstæðisflokkurinn leggur höfuðáherslu á að tryggja að á Íslandi sé til staðar frjór jarðvegur fyrir hvers kyns frumkvöðlastarfsemi, nýsköpun og verðmætasköpun sem byggist á hugviti. Þetta á við um skapandi greinar, menningu, listir og tæknigreinar, þar sem veruleg verðmæti geta orðið til ef réttar aðstæður eru fyrir hendi. Hugvitsdrifið atvinnulíf skapar verðmæti án þess að ganga á auðlindir náttúrunnar og býður upp á óþrjótandi tækifæri til áhugaverðra starfa sem standast alþjóðlega samkeppni. Ljóst er að Ísland býr að mörgum eiginleikum sem geta gert okkur mögulegt að vera góður vettvangur fyrir hvers kyns starfsemi sem byggist á hugviti. Samfélag þar sem fer saman menningarlegur auður, listræn gerjun, tæknileg þekking og hvetjandi umgjörð atvinnulífs býður upp á margvísleg tækifæri til þess að skapa alþjóðlega samkeppnishæf verðmæti og störf. Tryggja þarf að Ísland sé samkeppnishæft þegar kemur að fjármögnun hugvitsdrifinnar nýsköpunar. Stuðla þarf að því að í samfélaginu ríki jákvætt hugarfar gagnvart þeirri nauðsynlegu áhættutöku sem er forsenda kraftmikils nýsköpunarumhverfis. Þá þarf að tryggja að skapandi greinar og hugvitsdrifin nýsköpun á Íslandi eigi greiðan aðgang að alþjóðlegum markaði, meðal annars í því skyni að laða til landsins þann mannauð sem þörf er á til þess að tryggja samkeppnishæfni íslenskrar nýsköpunar í alþjóðlegri samkeppni. Sjálfstæðisflokkurinn minnir á að hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta verðmætasköpunar í samfélaginu. Þess vegna er það eitt meginverkefni stjórnvalda að tryggja að umgjörð og jarðvegur fyrir skapandi starfsemi sé eins og best er á kosið.

Verslun og þjónusta

Verslun og þjónusta þarf eins og aðrar atvinnugreinar að búa við samkeppnishæft umhverfi.

Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði. Löngu tímabært er að afnema samkeppnisrekstur ríkisins í smásölu og gefa verslun með áfengi frjálsa.

Orka og iðnaður

Ísland er ríkt af náttúruauðlindum sem fela í sér tækifæri til framleiðslu grænnar orku.

Sjálfbær nýting auðlinda er og á að vera grundvallaratriði í öllum ákvörðunum. Íslensk orkufyrirtæki eru í fararbroddi á sínu sviði og sú þekking sem Íslendingar hafa skapað á umliðnum áratugum er orðin að mikilvægri og gjaldeyrisskapandi útflutningsvöru. Íslenskt atvinnulíf hefur færi á að sækja enn frekar fram á alþjóðavettvangi á þessum sterka grunni og efla útflutning þekkingar.

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagmálum og til þess að þau náist þarf  m.a. að leggja áherslu á orkuskipti í lofti, láði og legi. Í þágu orkuskipta og í ljósi niðurstöðu grænbókar um orkumál er nauðsynlegt að afla nýrrar grænnar orku, bæta nýtingu núverandi raforkukerfis og framleiða grænt raf- og lífeldsneyti. Hagsmunum Íslands er best borgið með því að byggja upp grænan iðnað í tengslum við orkuskipti hér á landi og flytja ekki græna orku úr landi með sæstreng. Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands á grunni hagkvæmrar nýtingar orkuauðlinda. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að hlúa enn frekar að uppbyggingu grænna iðngarða enda styðja þeir  við sjálfbærni með því að innleiða félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið í skipulagningu, stýringu og framkvæmd.

Íslensk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots sem felst í notkun á grænni íslenskri orku.

Nauðsynlegt er að ríkið setji skýra eigendastefnu gagnvart orkufyrirtækjum og raforkuflutningsfyrirtækjum í eigu ríkisins sem tryggi m.a. að þau styðji stjórnvöld í að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfa að skilgreina ábyrgð á því að tryggja fullnægjandi framboð raforku til heimila og annarra almennra notenda.

Byggingariðnaður

Einfalda þarf regluverk um byggingariðnað og gera það skilvirkara. Draga þarf úr skriffinnsku og flækjustigi og flýta fyrir uppbyggingu nýs húsnæðis. Í þessu skyni er brýnt að endurskoða og einfalda byggingarreglugerðina og auðvelda uppbyggingu á minni og ódýrari húsnæðiskosti. Við þessar breytingar ber að hafa í huga öryggis-, mannvirkja- og heilsufarssjónarmið. Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn samkeppnishömlum í útboðum hins opinbera, sérstaklega reglum sem hefta frelsi einstaklinga og fyrirtækja, stuðla að fákeppni og hafa leitt til hærri kostnaðar útboðsverka.

Ályktun atvinnuveganefndar samþykkt á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.