Sigríður Anna ræðir stjórnmálaferilinn – fyrsti umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins

Sigríður Anna Þórðardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra er gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Sjálfstæðisflokksins sem tileinkaður er 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Í þáttaröðinni er rætt við fyrrum forystufólk í flokknum, ráðherra, fólk sem gegnt hefur ýmsum trúnaðarstörfum í félögum, ráðum og nefndum flokksins, ráðherra, þingmenn, fræðimenn og sveitarstjórnarfólk. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan og hlusta á hann hér.

Í þættinum ræðir Ingvar P. Guðbjörnsson upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins við Sigríði Önnu um hennar stjórnmálaferil sem hófst í Grundarfirði á áttunda áratugnum þar sem hún sat í sveitarstjórn í 12 ár og svo 16 ára þingferil á árunum 1991-2007 þar sem hún gegndi m.a. umbættum umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, fyrst kvenna, var formaður menntamálanefndar Alþingis í 11 ár og einnig um tíma formaður utanríkismálanefndar Alþingis, einnig fyrst kvenna í sögu Alþingis.

„Ég hef verið sjálfstæðismaður alla tíð, alveg frá unga aldri“, segir Sigríður Anna.

Hún rekur meðal annars hvernig það kom til að hún gaf kost á sér til sveitarstjórnar árið 1978 í Grundarfirði, hvar hún gegndi starfi oddvita sveitarstjórnar í tvígang á þeim 12 árum sem hún sat í sveitarstjórninni.

„Það var svo rosalega mikið af uppbyggingarmálum. Til að nefna eitthvað, skóla- og íþróttamál, byggja sundlaug, íþróttahús, bæta við grunnskólann, gatnagerð og hafnarferð. Það voru gríðarleg hafnarmannvirki byggð á þessum tíma. Óteljandi spennandi verkefni sem lágu fyrir,“ segir hún m.a. um árin í sveitarstjórn í Grundarfirði.

Spurð að því hvað varð til þess að hún fór út í landsmálapólitíkina segir hún: „Það var þannig að mig langaði til þess að vera áfram í stjórnmálum. Við hjónin tókum þá ákvörðun um að flytja frá Grundarfirði 1990. Ég hafði verið í framboði í 5. sæti á Vesturlandi. Það var ekki þingsæti, en ég hafði tekið þátt í kosningabaráttunni. Ég velti fyrir mér að þetta gæti verið mjög skemmtilegt, áhugavert og mikilvægt. Ég var ekki alveg viss hvort ég ætti að reyna fyrir mér áfram á Vesturlandi eða í kjördæminu þar sem maðurinn minn var að taka við sem prestur. Það endaði þannig að ég endaði á að taka þátt í framboði í Reykjaneskjördæmi.“

Hún fer síðan í prófkjör fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjaneskjördæmi.

„Ég henti mér af alefli í prófkjör. Ég varð í 5. sæti í prófkjörinu. Við unnum stórsigur í kosningunum og ég fór á þing. Átti aldrei von á því í raun og veru,“ segir hún.

Kom að tilfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga

„Mér eru mjög minnisstæð menntamálin. Ég var formaður menntamálanefndar í 11 ár sem er auðvitað mjög langur tími. Það voru mjög stór mál til umræðu á fyrsta kjörtímabilinu. Það var ný löggjöf um grunnskóla og framhaldsskóla. Ég hafði verið skipuð í nefnd til þess að leiða starf í endurskoðun á bæði grunn- og framhaldsskólalögunum. Það innifól meðal annars í sér að færa grunnskólann frá ríki til sveitarfélaganna. Það var verkefni sem mér var mjög umhugað. Fyrsta stóra verkefnið sem ég hafði tækifæri til að hafa áhrif á,“ segir Sigríður Anna spurð um stór mál af þingferlinum. En einnig nefnir hún heilbrigðismál, orkumál, auðlindanýtingu og rammaáætlun.

Um rammaáætlun segir hún að það hafi verið mikilvægt mál. Það hafi verið miklar deilur og að það hafi þurft að koma málum í þannig farveg að ákveðið væri hvar ætti að virkja og hvar ekki. Hún segir miður hversu illa hafi gengið á síðustu árum að fara eftir þessu fyrirkomulagi og því sem sé ákveðið.

„Svo voru umhverfismálin mjög spennandi og auðlindamálin,“ segir hún en stærstan hluta síns þingferils sat hún í þremur þingnefndum samtímis.

„Allan þennan tíma þá vorum við í stjórn og þá þurftu þingmenn að taka miklu meira á sig því það voru auðvitað margir ráðherrar sem voru ekki í fótgönguliðahópnum.

Spurð að því hvort hún muni eftir einhverjum átakamálum í þinginu nefnir hún EES-samninginn.

„EES-samningurinn var á fyrsta kjörtímabilinu. Það var mjög mikið átakamál. Það voru þung orð látin falla í þinginu út af því, um föðurlandssvik og ýmislegt fleira. Það var auðvitað mjög spennandi mál og hefur gagnast okkur gríðarlega vel. Þó við hefðum stundum mátt stíga aðeins fastar í ístaðið og á bremsurnar,“ segir hún.

Verður umhverfisráðherra árið 2004

Árið 2004 er Sigríður Anna skipuð umhverfisráðherra. Þá voru uppi raddir þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að fara með það ráðuneyti. Spurð út í það hvort það hafi verið erfitt að að koma inn í ráðuneytið segir hún: „Nei mér fannst það alveg stórkostlegt tækifæri. Mér fannst þessi umræða alveg gersamlega út í hött vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði alltaf sinnt þessum málaflokki mjög vel. Við áttum fólk í Sjálfstæðisflokknum sem hélt sérstaklega fram náttúruvernd og umvherfismálum.“

Nú nefnir meðal annars Elínu Pálmadóttur blaðamann sem var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sat í Náttúruverndarráði um árabil, en Elín fjallaði mikið um umhverfismál. Þá nefnir hún einnig Birgi Kjaran, Ragnheiði Helgadóttur og Gunnar Thoroddsen.

„Í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar árið 1975 var tekið frumkvæði að því að skipa umhverfismálunum sess í stjórnskipan landsins. Það tók nokkur ár að koma því máli áfram. Sjálfstæðisflokkurinn hélt því alltaf vakandi, flutti frumvörp og talaði fyrir málunum í þinginu. Það er svo ekki fyrr en verið er að mynda ríkistjórn árið 1990 sem loksins er gengið í það að stofna sérstakt ráðuneyti. Það má segja að það hafi verið fyrst og fremst það sem orksakaði á þeim tímapunkti að það varð til,“ segir hún og tekur undir að ástæðan hafi verið sú það vantaði ráðherrastóla fyrir þingmenn Borgaraflokksins sem þá gekk til liðs við brothætta ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þar sem fyrir voru Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið.

Lagði til að nota umhverfisvænni ráðherrabíla

Um störfin í ráðuneytinu segir hún: „Náttúruverndarmálin voru mjög áberandi því það var verið að vinna að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Það var gríðarlega stórt verkefni og umdeilt. Það var mikilvægt að ná meðal bænda og sveitarstjórnarmanna bæði sunnan og norðan þjóðgarðsins. Ég átt mjög marga fundi með sveitarstjórnarmönnum og bændum á Suðurlandi og Norðurlandi. Það var sérstaklega skemmtilegt verkefni. Ég veit að það hefur reynst mjög góð ráðstöfun og verið til góðs fyrir allt umhverfið í kringum Vatnajökulsþjóðgarð og tel að það hafi sannað sig og verið rétt ákvörðun,“ segir hún en nefnir fleiri mál eins og mengun vatns og sjávar og orkumálin sem eru órjúfanlega tengd náttúruvernd.

„Þar að auki líka voru mál eins og bílar sem ekki notuðu jarðorku. Það var aðeins komið inn í umræðuna. Ég man að hafa rætt það á ríkisstjórnarfundi að það gæti verið skynsamlegt fyrir Stjórnarráðið að beita sér fyrir því að ráðherrabílar yrðu allir umhverfisvænir. Það varð ekki af því þá en þetta var komið í umræðuna,“ segir hún.

Þurfum að nýta gæði landsins af ábyrgð

Spurð út í gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn í umhverfismálum segir Sigríður Anna: „Þetta er ekki svo flókið. Við eigum land sem er einstakt í verlöldinni hvað varðar auðlindir bæði í sjó og á landi. Það þarf ekkert að segja þjóð eins og Íslendingum hvort það eigi að nota þau tækifæri sem við eigum í þessu eða ekki. Auðvitað hljótum við að gera það. En við þurfum að nýta náttúruna og gæði hennar af ábyrgð og nota þá sjálfbærni eins og forferður okkar hafa alltaf gert í þessu landi. Þú nýtir landið og miðin af skynsemi en eyðuleggur ekki það sem þú þarft að skila til komandi kynslóða í góðu ástandi. Þetta er algjörlega í samræmi við sjálfstæðisstefnuna – þessi grunngildi.“

Eins ræðir hún hitaveituvæðinguna og mikilvægi þess að gert sé átak í þeim efnum í dag. Norðurlandasamstarfið kom til umræðu en Sigríður Anna var bæði samstarfsráðherra Norðurlanda og forseti Norðurlandaráðs á sínum stjórnmálaferli. Segir hún samstarf Norðurlandanna einstakt í heiminum.

Finnur til stolts

Sigríður Anna átti stóran hlut í jafnréttissögu Sjálfstæðisflokksins líkt og fjölmargar aðrar konur. Hún var fyrst kvenna formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, fyrst kvenna formaður utanríkismálanefndar Alþingis, fimmti kvenráðherra Sjálfstæðisflokksins og fyrsti umhverfisráðherrann úr röðum sjálfstæðismanna. Spurð að því hvernig henni líði með að eiga svo stóran þátt í þessari sögu og hvernig hafi verið að starfa í þingflokknum sem kona á sínum þingferli segir hún:

„Mér líður afskaplega vel með það og er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að taka svona mikinn þátt í að efla flokkinn okkar. Ég get ekki neitað því að ég finn til stolts líka. Mér leið alltaf rosalega vel í þingflokknum og fann aldrei annað en að konurnar stæðu til jafns körlunum. Enda sérðu það ef þú skoðar feril okkar kvenna í þingflokknum þá höfum við alla tíð gegnt mjög miklum trúnaðarstorfum og forystustörfum.“

Þáttinn má einnig finna á Spotify hér.