Lausatök í Laugardal

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Undanfarinn áratug hefur nemendum í Laugardal fjölgað svo mjög að það er  þrengt að grunnskólastarfi í hverfinu með margvíslegum hætti. Lengi hefur verið ljóst að taka þurfi húsnæðismál grunnskóla í hverfinu föstum tökum. Árum saman hafa borgaryfirvöld hins vegar orðið uppvís að seinagangi og ómarkvissum vinnubrögðum í málinu.

Starf grunnskóla í Laugardal hvílir á traustum grunni þriggja skóla: Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla. Núverandi húsnæði skólanna þriggja dugir ekki til og því þarf að byggja og hýsa skólastarfið þannig sómasamlega til framtíðar. Það hjálpar ekki til að viðhald skólanna hefur verið vanrækt og það leitt til vandræða.

Vandann má m.a. rekja til ofuráherslu vinstri meirihlutans á þéttingu byggðar. Mikil áhersla er lögð á byggingu íbúðarhúsnæðis á dýrum þéttingarreitum en uppbygging skólahúsnæðis og annarra innviða situr á hakanum. Síðan er reynt að redda þeim hlutum eftir á eins og ástandið ber vitni um.

Samkomulag um sviðsmynd

Í október 2022 samþykkti skóla og frístundaráð Reykjavíkur að fylgja svokallaðri sviðsmynd 1 úr mikilli skýrslu starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnesi og Langholtshverfi. Sú sviðsmynd felur í sér að skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta orðinni og fyrirsjáanlegri fjölgun nemenda í skólahverfunum. Góð sátt náðist um þessa samþykkt.

Þegar samþykktin var gerð gumaði meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar mjög af farsælum málalokum. Bókaði meirihlutinn að hann legði áherslu á að sátt ríkti um þá ákvörðun, sem tekin hefði verið eftir þverpólitískt samráð við hagaðila, stjórnendur, starfsmenn, foreldra og börn. Sagði í bókuninni að sviðsmynd 1 væri best til þess fallin að halda áfram að byggja upp farsælt skólastarf í hverfinu.

Sviðsmynd 1 naut víðtæks stuðnings meðal foreldra, sem höfðu lengi gagnrýnt ákvarðanafælni og ráðaleysi borgaryfirvalda varðandi skólamál í Laugardal. Voru foreldrarnir fullvissaðir um að eftir margra ára óvissu og tafir, yrðu verkin látin tala.

Undanfarin nítján mánuði hafa foreldrar í Laugardal því verið í góðri trú um að borgin ynni af heilindum að lausn húsnæðismála skólanna eftir samkomulaginu frá 2022. Framvindan hefur hins vegar verið lítið sem engin og er því skiljanlegt að þolinmæði sé á þrotum hjá foreldrum.

Kúvending meirihlutans

Nú kemur í ljós að vinstri meirihlutinn hyggst kúvenda í málinu. Hefur meirihlutinn lagt fram tillögu um að fallið verði frá fyrri ákvörðun um sviðsmynd 1 og þess í stað verði ráðist í sviðsmynd 4. Samkvæmt henni verður ekki byggt við skólana eins og áður hafði verið ákveðið og loforð gefin um. Hins vegar á að byggja nýjan unglingaskóla frá grunni fyrir Laugarneshverfi.

Umrædd tillaga var sett á dagskrá fundar skóla- og frístundaráðs 13. maí sl. og virðist hún byggjast að miklu leyti á skýrslu frá nóvember 2023. Svo virðist sem meirihlutinn hafi ákveðið að leggja tillöguna fram í lok skólaársins í því skyni að gera foreldrum erfitt fyrir við að skipuleggja andstöðu við hana.

Engu að síður hefur tillagan vakið mikil viðbrögð meðal foreldra, kennara og skólastjóra. Fjölmennir fundir foreldra hafa verið haldnir í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla þar sem vinnubrögðum borgaryfirvalda í málinu var harðlega mótmælt, sem og tillögu um allt aðra sviðsmynd en samið var um á sínum tíma. Mörgum foreldrum finnst að með því sé verið að snúa góðri hugmynd yfir í vonda.

Aukinn rekstrarkostnaður

Tillaga um að bæta við heilum grunnskóla í grónu hverfi vekur líka efasemdir vegna aukins rekstrarkostnaðar. Fastur kostnaður fylgir hverjum skóla í rekstri. Þykir því skynsamlegra að samnýta þennan kostnað eftir föngum og reka ekki fleiri skólastofnanir en þörf er á hverju sinni.

Vinnubrögð borgaryfirvalda í skólamálum í Laugardal eru til skammar. Foreldrafélögin hafa verið svikin og ljóst er að þau bera ekki traust til borgaryfirvalda eftir síðustu atburði. Borgin verður að byggja upp þetta traust að nýju með því að efna fyrri loforð um að byggja við skólana í Laugardal og láta verkin síðan tala sem fyrst.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2024