Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu skrifuðu í dag undir tvíhliðasamning landanna um öryggissamstarf og langtímastuðning.
Þetta gerðu þeir á norrænum leiðtogafundi í Stokkhólmi með forseta Úkraínu þar sem gestgjafi var Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar. Auk þeirra þriggja voru þátttakendur í fundinum; Alexander Stubb, forseti Finnlands, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
„Með þessum samningi erum við að ítreka áframhaldandi stuðning Íslands við Úkraínu. Við berjumst með Úkraínu fyrir frelsi, lýðræði, mannréttindum og réttlátum friði. Um leið tökum við okkur stöðu gegn harðstjórn, kúgun, ofbeldi og stríðsglæpum,“ segir Bjarni.
Í viðtali við mbl.is kemur fram eftir Bjarna að helstu tíðindin séu þau að norrænu ríkin séu öll, hvert með sínum hætti, að ljúka tvíhliða samningum við Úkraínu vegna stríðsins í kjölfar innrásar Rússa. Bjarni segir mjög ánægjulegt að þetta hafi verið gert beint í framhaldi af þverpólitískum stuðningi sem endurspeglast í nýlega samþykktri þingsályktunartillögu. Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarni fundar með Zelensky.
„Þannig að þetta var kærkomið tækifæri og minn fyrsti fundur beint með Selenskí. Það var gott að geta komið hingað til þess að staðfesta eindregin stuðning Alþingis við Úkraínu á þessum viðkvæmu og erfiðu tímum,“ segir Bjarni við mbl.is í dag.
Þar sagði hann jafnframt ótrúlegt að fylgjast með því æðruleysi og staðfestu sem hann hafi. Ekki sé að sjá nein þreytumerki á honum, þvert á móti horfi hann til framtíðar.
Bjarni sagði enn fremur að Ísland sé ekki í færum með að veita beinan hernaðarlegan stuðning, enda eina norðurlandaþjóðin sem er herlaus. En að íslensk stjórnvöld reyni að hlusta á það sem mestu máli skiptir fyrir Úkraínumenn og hafi nýlega stutt frumkvæði Tékka við að útvega það sem mestu máli s kiptir úkraínsku þjóðina og her þeirra.
„Aðalumræðuefnið á fundi eins og þessum [er að] þau þurfa að hafa tæki og tól til að verjast innrásinni,“ bætir Bjarni við að síðustu.
Í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins ítreka norrænu leiðtogarnir áframhaldandi órofa stuðning Norðurlandanna við Úkraínu. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins. Vísað er til þess að öll Norðurlöndin hafi nú undirritað samninga við Úkraínu um öryggissamstarf, sem sé vitnisburður um staðfastan stuðning og samstöðu með úkraínsku þjóðinni. Vísað er til áframhaldandi styrkingar hernaðargetu, þjálfunar og framlaga tækjabúnaðar, og mannúðaraðstoðar. Norðurlöndin munu áfram styðja við framgang friðaráætlunar Úkraínu, m.a. á komandi leiðtogafundi í Sviss um miðjan júní þar sem fjallað verður um réttlátan og varanlegan frið í Úkraínu.
Einnig lýstu norrænu leiðtogarnir yfir stuðningi við áform Úkraínu að fá aðild að Atlandshafsbandalaginu (NATO). Sögðust þeir vilja beita sér fyrir því að á leiðtogafundi NATO síðar í sumar verði teknar mikilvægar ákvarðanir varðandi þetta.
Bjarni átti í dag tvíhliðafund með Zelensky þar sem þeir ræddu um áframhaldandi stuðning Íslands við Úkraínu og fyrrnefndur samningur um öryggissamstarf og langtímastuðning var undirritaður.
Samningurinn rammar inn og formgerir þann stuðning sem Ísland hefur veitt Úkraínu og hyggst veita í samræmi við þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024-2028 sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl sl. Að auki tekur hann mið af sambærilegum samningum vina- og bandalagsþjóða sem þegar hafa verið undirritaðir eða eru á samningsstigi, að teknu tilliti til sérstöðu Íslands sem herlauss ríkis.