Fábreytileiki og tvöfalt heilbrigðiskerfi

Óli Björn Kárason, alþingismaður:

Þeir gefast ekki auðveldlega upp, sem leynt og ljóst vinna að því að ríkisvæða allt heilbrigðiskerfið. Einkarekstur er gerður tortryggilegur. Hið opinbera skal annast rekstur allra heilbrigðisstofnana. Skipulag þjónustunnar á að miðast við þarfir kerfisins en ekki íbúanna sem allir eru sjúkratryggðir. Valfrelsi þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda er virt að vettugi. Atvinnufrelsi vel menntaðs heilbrigðisstarfsfólks er aukaatriði. Lengri biðlistar eru illskárri en að einkaaðilar geti boðið þjónustu sína.

Alma Möller landlæknir var í ágætu viðtali við Heimildina í liðinni viku. Hægt er að taka undir ýmislegt sem landlæknir segir í viðtalinu, en ekki allt. Það er rétt sem Alma segir um útvistun verkefna í heilbrigðisþjónustu; ákvarðanir verða að vera á forsendum sjúklinga og almannaheilla. Hún varar hins vegar við því að veikja opinberar stofnanir og þá sérstaklega Landspítalann með útvistun.

Til hliðar við viðtalið er birt það sem Heimildin kallar tímaás aukinnar einkavæðingar heilbrigðis- og velferðarþjónustu á yfirstandandi kjörtímabili. Hér skal látið liggja á milli hluta að engin einkavæðing hefur átt sér stað í heilbrigðisþjónustunni. Útvistun ákveðinna verkefna og samningar við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn eru ekki dæmi um einkavæðingu, heldur árangursríka aðferð ríkisins (Sjúkratrygginga) til að auka þjónustuna, stytta biðlista og nýta fjármuni betur. Heimildin heldur því fram að skýr skil hafði orðið í meintri einkavæðingu „þegar Willum Þór Þórsson tók við heilbrigðisráðuneytinu af Svandísi Svavarsdóttur“.

Vinstri grænir, samstarfsfólk Willums Þórs í ríkisstjórn, eru greinilega ósáttir við breytta stefnu – skilin milli ráðherra. Flokksráðsfundur VG í byrjun mars „telur þá auknu áherslu sem verið hefur á einkarekna heilbrigðisþjónustu á sl. tveimur árum mjög alvarlega“.

Frískari vindar

Ekki verður á móti því mælt að Willum Þór hefur nálgast verkefni sitt með allt öðrum hætti en forverinn. Um leið og ráðherrann hefur staðið vörð um Landspítalann hefur hann leitað leiða til nýta betur fjármagn og mannauð heilbrigðiskerfisins, til að auka þjónustuna. Ég held því fram að með því sé Willum Þór að gera atlögu að því að leysa heilbrigðisþjónustuna úr sjálfheldu fábreytileika, aukinna útgjalda, verri þjónustu, biðlista og lakari starfsmöguleika heilbrigðisstétta.

Að þessu leyti hafa frískari vindar fengið að blása um heilbrigðiskerfið undanfarna mánuði en allt síðasta kjörtímabil.

Andstæðingar einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu skilja líklega seint að heilbrigðisvísindin eru þekkingariðnaður, sem nærist á fjölbreytileika, ekki síst í rekstrarformi, nýliðun, framsækinni hugsun og nýsköpun. Engu er líkara en að talsmenn ríkisrekstrar séu frekar tilbúnir til að lengja biðlista en að nýta kosti einkaframtaksins. Í nafni jöfnuðar er sagt, en afleiðingin er fremur aukið misrétti.

Ég hef ítrekað bent á í ræðu og riti að ef ekki er staðið við fyrirheit sem gefið hefur verið um að allir eigi aðgang að góðri þjónustu, óháð efnahag þegar á þarf að halda, verði hægt og bítandi til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Hinir efnameiri kaupa einfaldlega þjónustu beint hér á landi eða í öðrum löndum af einkaaðilum. Við hin – sem öll erum sjúkratryggð – þurfum að sætta okkur við að bíða mánuðum og misserum saman eftir nauðsynlegri þjónustu. Þetta þekkir ágætur félagi minn af eigin raun. Hann gengur sárþjáður til vinnu á hverjum degi. Hann er því miður ekki einn um að fá ekki aðra úrlausn sinna mála en að vera settur á biðlista.

Samkeppnishæfni

Fábreytileiki í rekstrarformi – aukin ríkisvæðing heilbrigðisþjónustunnar líkt og andstæðingar einkarekstrar vilja – gengur gegn valfrelsi allra sem eru sjúkratryggðir, gagnsæi kostnaðar verður lítið og „kostnaðaraðhald“ verður fyrst og síðast í formi biðlista. Ríkisvæðing hamlar nýsköpun og dregur úr samkeppnishæfni íslenska heilbrigðiskerfisins.

Íslenska heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum á komandi árum. Undan því verður ekki komist að útgjöld hækki enda erum við að eldast sem þjóð. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að tryggja skynsamlega nýtingu fjármuna og byggja undir baráttuna við lífsstílstengda sjúkdóma. Eitt stærsta og kannski erfiðasta verkefnið verður að tryggja að heilbrigðiskerfið hafi á að skipa hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki. Og þar erum við í alþjóðlegri samkeppni. Það er og verður aldrei sérstaklega aðlaðandi fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga eða aðra heilbrigðisstarfsmenn, ef það eina sem býðst er starf innan ríkisrekins kerfis.

Það er rétt hjá landlækni að útvistun – einkarekstur – verður að vera á forsendum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. En um leið verður að huga að atvinnumöguleikum heilbrigðisstarfsfólks – standa vörð um atvinnufrelsi þeirra og með því samkeppnishæfni landsins. Og þar fara hagsmunir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna saman. Um leið er barist gegn tvöföldu heilbrigðiskerfi sem er óskilgetið afkvæmi fábreytileika ríkisrekstrar. Í þessu hafa vindar blásið í rétta átt síðustu mánuði. En líklega þarf kerfið töluvert hvassari vind svo árangur náist.

Morgunblaðið, 22.maí.2024.