Þögninni fylgir ábyrgð

Óli Björn Kárason, alþingismaður:

Fyrir nokkrum vikum átti ég mjög skemmtilegan fund með samherjum mínum í Reykjanesbæ. Þeir höfðu í besta falli lítinn skilning á ástæðum þess að ég hef allt frá þingbyrjun í haust haldið mér mjög til hlés í opinberri umræðu, jafnt á þingi og í fjölmiðlum, fyrir utan vikuleg skrif í Morgunblaðið. Með sama hætti áttu þeir erfitt með að skilja af hverju við þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðum ekki verið duglegri en raun ber vitni að koma stefnumálum okkar á dagskrá – gera tilraun til að hrinda þeim í framkvæmd.

Sjálfstæðisfólk í Reykjanesbæ er ekki eitt um þessa skoðun. Þeim fjölgar efasemdaröddunum innan Sjálfstæðisflokksins um ágæti þess að halda samstarfi þriggja ólíkra stjórnmálaflokka mikið lengur áfram. Óttinn er sá að hægt og bítandi verði skilin milli stjórnarflokkanna óskýrari og að kjósendur eigi „æ örðugara með að finna forsendur fyrir stuðningi sínum við einn flokk öðrum fremur,“ svo vitnað sé til skrifa Ármanns heitins Sveinssonar í Morgunblaðinu 1968. Ármann hafði þá áhyggjur af þróun stjórnmála ekki aðeins á Íslandi heldur einnig annars staðar í Vestur-Evrópu. Og sagan hefur verið að endurtaka sig.

Ég hef varað við því hvernig hugsjónir hafa, á síðustu árum, orðið hornreka í þoku pólitísks rétttrúnaðar og slaufunar. Í pistli hér í Morgunblaðinu í júní 2014 hélt ég því fram að hugmyndabarátta væri fórnarlamb „praktískra lausna“, skemmtilegheita og samræðustjórnmála.

Málamiðlun og grunnstef hugsjóna

Þegar stjórnmálaflokkar taka höndum saman þvert yfir hið pólitíska litróf – flokkar með gjörólíka hugmyndafræði og lífssýn – neyðast þeir til að gera málamiðlanir. Þegar Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir lögðu af stað í ríkisstjórnarsamstarf árið 2017 skrifaði ég meðal annars: „Málamiðlun er forsenda þess að hægt sé að mynda ríkisstjórn tveggja eða fleiri flokka. Allir þurfa að gefa eitthvað eftir – sætta sig við að geta ekki uppfyllt öll loforð sem gefin hafa verið. Þeir flokkar sem taka höndum saman í ríkisstjórn þurfa að setja sitt mark á stefnuna og standa um leið vörð um grunnstef hugsjóna sinna, þrátt fyrir málamiðlanir … Sanngjarnar málamiðlanir eru forsenda þess að ólíkir stjórnmálaflokkar og pólitískir andstæðingar taki höndum saman, en það er til lítils að hefja samstarf ef trúnaður og traust er ekki fyrir hendi.“

Í aðdraganda kosninga 2021 tók ég það fram hér á síðum Morgunblaðsins að Sjálfstæðisflokkurinn geti því aðeins tekið þátt í ríkisstjórn að málefnasamningur og verkefni nýrrar ríkisstjórnar endurspegli skilning á samhengi skatta, ríkisútgjalda, hagvaxtar og velsældar. Að samkeppnishæfni þjóðar ráðist ekki síst af öflugum innviðum, hófsemd í opinberum álögum, greiðu aðgengi að erlendum mörkuðum, skilvirkni í stjórnkerfinu og hagkvæmum ríkisrekstri. Ég lagði áherslu á að ríkisstjórnin yrði að vinna að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Skilyrðið var og er að viðhorf til atvinnulífsins sé jákvætt.

Árangur og trúverðugleiki

Í mörgu hefur ríkisstjórn þessara þriggja flokka skilað góðum árangri. Skattar hafa svo sannanlega lækkað og tekist hefur að byggja upp kaupmátt launafólks, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður; covid, stríð í Evrópu og eldsumbrot á Reykjanesi. Það er töluvert afrek að tryggja að lífskjör alls almennings batni verulega þrátt fyrir efnahagsleg skakkaföll. Það eru ekki margar ríkisstjórnir sem ná þeim árangri.

En þrátt fyrir augljósan árangur verðum við sem skipum þingflokk Sjálfstæðisflokksins að viðurkenna að málamiðlanir við ríkisstjórnarborðið hafa gert okkur erfitt að halda trúverðugleika gagnvart kjósendum flokksins. Við höfum ekki náð að sannfæra þá um að þrátt fyrir málamiðlanir þokist baráttumálin áfram. Það er ekki nægjanlegt að vinna að breytingum á stjórnarmálum í nefndum þingsins – „lagfæra“ frumvörp og þingsályktanir og í einstaka tilfellum koma í veg fyrir framgang vondra mála.

Enn hefur ekki tekist að gera nauðsynlegar breytingar á útlendingalögunum og ná þar með tökum á málum hælisleitenda og stjórn á landamærunum, eins og við höfum lofað. Og enn er brotið á atvinnuréttindum sem sýnir einstaklega neikvætt viðhorf til atvinnulífsins af hálfu Vinstri grænna. Það hefur komið í ljós að stjórnarþingmenn, sem í einlægni vilja halda samstarfinu áfram, eru vopnlausir þegar ráðherra virðir ekki stjórnsýslureglur, meðalhóf og stjórnarskrá.

Því miður fjölgar þeim stjórnarmálum sem eru til afgreiðslu á þinginu, sem mér er ókleift að styðja. Þetta veit forysta flokksins sem og félagar mínir í þingflokknum. Þetta er meginástæða þess að ég hef lítið haft mig opinberlega í frammi innan þings og utan.

En þögninni fylgir ábyrgð, líkt og eldri Sjálfstæðismaður áminnti mig um þegar hann stoppaði mig úti á götu síðastliðinn mánudag. Hann rifjaði upp nýleg skrif mín um að ég hefði ekki afsalað mér réttinum til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum og jafnvel reyna að koma í veg fyrir framgang stjórnarmála, hvað þá að vinna að framgangi hugsjóna. Og þótt sanngjörn málamiðlun sé nauðsynleg í stjórnmálum, yrði ég að móta afstöðu mína til einstakra mála á grunni hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, eins og ég hefði gefið fyrirheit um. „Ég ætlast til þess að þú takir til máls. Þú vinnur ekki að framgangi stefnu okkar með þögninni.“

Þegar gamli maðurinn kvaddi mig með þéttu handabandi sagði hann: „Aldrei gleyma því að trúnaður þinn er fyrst og síðast við þig sjálfan og hugsjónir okkar Sjálfstæðismanna.“ Skilaboðin voru skýr: Þögnin er ekki lengur valkostur.

Morgunblaðið, 15. maí. 2024.