„Þegar friði er ógnað í Evrópu þá kemur það okkur við og þegar kemur að því að leggja fram okkar þátt í stuðningi við það sem gera það sem þarf þá eigum við ekki að spyrja fyrst hvað henti okkur sjálfum best, heldur hvort við getum lagt fram eitthvað af því sem brýnust þörf er á,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra sem í dag ávarpaði málþing í Háskóla Íslands í tilefni af 75 ára afmæli Atlandshafsbandalagsins.
Grunngildin sem Atlantshafsbandalaginu er ætlað að verja, tengsl friðar og varna auk framlags Íslands til Atlantshafsbandalagsins fyrr og nú voru meginstef í ávarpi ráðherra.
Auk utanríkisráðherra ávörpuðu Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Gabrielus Landsbergis, utanríkisráðherra Litáen, ráðstefnuna um fjarfundarbúnað.
Í ávarpi sínu fór Þórdís Kolbrún yfir sögu Íslands innan bandalagsins sem eitt af tólf stofnríkjum þess. Hún gerði að umtalsefni áherslu Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, sem undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd árið 1949, á að aðild Íslands snerist ekki einvörðungu um að tryggja okkar eigin varnir heldur um að leggja eitthvað af mörkum til sameiginlegra varna þeim gildum sem eru undirstaða okkar frjálsa samfélags.
„Bandalagið snýst nefnilega ekki bara um að telja skriðdreka og freygátur; og tilgangur þess er ekki aðeins að verja hvern einasta þumlung bandalagsríkja; Atlantshafsbandalagið er líka pólitískt bandalag lýðræðisríkja. Og það er eftirsóttur klúbbur sem setur viðmið fyrir umsóknarríki og hvetur samstarfsríki til umbóta. Þannig skapar bandalagið stöðugleika á pólitíska sviðinu og hefur þannig verið aflvaki lýðræðis og umbóta í Evrópu,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Hún áréttaði mikilvægi þess að samskipti þjóða einkennist af virðingu, jafnræði og sátt.
„Það eru bæði sögulegar og aðrar ástæður fyrir því að við erum eitt fárra þjóðríkja án hers en það er ekki af því að við séum meira friðelskandi en aðrir. Munurinn á okkur Íslendingum og því fólki sem hefur þurft að verjast innrásum annarra eða verið þvingað til að taka þátt í innrásum í önnur lönd er einfaldur. Við erum heppin,“ sagði utanríkisráðherra.
Hún sagði að við værum ekki hlutlaus og að við hefðum skyldum að gegna gagnvart þeim ríkjum sem hafi lofað að vernda okkur með vopnum og mannafla ef nauðsyn krefur.
Ávarp utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér.