Nauðsynlegar kerfisbreytingar á stjórnkerfinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra:

Ég heyrði því ein­hvern tím­ann fleygt að skri­fræði væri list­in að gera hið mögu­lega ómögu­legt. Það er dá­lítið til í því og þess vegna er stjórn­sýsl­an oft gagn­rýnd fyr­ir að þvæl­ast fyr­ir fólki og fyr­ir­tækj­um í stað þess að leysa mál­in. Kerfið geri til­ver­una flókn­ari en hún þurfi að vera. Sói tíma og pen­ing­um. Stjórn­mála­menn ná ekki til­ætluðum ár­angri og kerf­in virka ekki eins og best verður á kosið.

Fyr­ir rúm­lega tveim­ur árum fékk ég tæki­færi til að leiða ráðuneyti há­skóla, iðnaðar og ný­sköp­un­ar. Ég ákvað strax að mig langaði til að slíkt ráðuneyti væri í takti við tím­ann. Ábyrgðin er mik­il enda er það okk­ar að tengja sam­an mála­flokka sem skipta miklu máli fyr­ir framtíð Íslands. Tæki­fær­in í mennta­kerf­inu, rann­sókn­um, vís­ind­um, ný­sköp­un og tækni eru gríðarleg til að auka lífs­gæðin á Íslandi og mæta sam­fé­lags­leg­um áskor­un­um. Það er okk­ar að ýta und­ir ný störf, ný tæki­færi og gera bet­ur í gam­al­grón­um at­vinnu­grein­um og op­in­berri þjón­ustu. Við höf­um séð hvernig iðnaður sem bygg­ist á nýrri þekk­ingu hef­ur vaxið sem út­flutn­ings­grein og enn eru tæki­færi til að gera bet­ur. Þessi sýn er leiðarljósið í starf­inu okk­ar.

Á þess­um tíma höf­um við búið til nýtt og ann­ars kon­ar ráðuneyti. Á þeirri veg­ferð höf­um við lært margt af inn­lend­um og alþjóðleg­um fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um. Tekið brot af því besta héðan og þaðan. Við höf­um klárað mik­il­væg verk­efni, for­gangsraðað öðru­vísi svo verk­efni sem skipta máli og stjórn­mál­in kalla eft­ir að séu kláruð kafni ekki alltaf í hinu hvers­dags­lega amstri. Stjórn­mál­in og stjórn­sýsl­an starfa náið sam­an að þróun nýs verklags og starfs­fólk ráðuneyt­is­ins hef­ur unnið þrek­virki við að inn­leiða það. Við höf­um breytt kerf­inu, inn­leitt ný­sköp­un í stjórn­kerf­inu og náð ár­angri.

En hvers vegna eru kerf­is­breyt­ing­ar nauðsyn­leg­ar til að hægt sé að ná meiri ár­angri? Get­um við notað aðferðafræði ný­sköp­un­ar bet­ur í stjórn­kerf­inu? Hvernig vinn­um við hraðar, for­gangs­röðum, ger­um meira fyr­ir minna, klár­um mál­in, fækk­um verk­efn­um og hætt­um jafn­vel við ein­hver?

Ef þér finnst áhuga­vert að heyra svör­in við þess­um spurn­ing­um þá hvet ég þig til að kíkja á kynn­ingu sem ég verð með í Kola­port­inu í Ný­sköp­un­ar­vik­unni miðviku­dag­inn 15. maí kl. 16. Hægt er að skrá sig á hvin.is.

Það er hlut­verk okk­ar sem erum í stjórn­mál­um að hafa skýra sýn á það hvert við stefn­um. Þess vegna gaf ég út rit í upp­hafi kjör­tíma­bils­ins með sýn og aðgerðum sem þyrfti að ráðast í til að ná ár­angri fyr­ir Ísland. Að þeim höf­um við unnið hörðum hönd­um og ger­um áfram á grund­velli breyt­inga á stjórn­kerf­inu sem ég von­ast eft­ir að geti skilað meiri og betri ár­angri og minnkað skri­fræði, yf­ir­bygg­ingu og farið bet­ur með fé.

Ný­sköp­un­ar­vik­an í næstu viku er full af spenn­andi viðburðum þar sem við sjá­um hvernig ís­lenskt hug­vit leik­ur lyk­il­hlut­verk víða í sam­fé­lag­inu okk­ar. Líka í stjórn­kerf­inu. Hlakka til að sjá þig!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2024.