Tímamót í norrænu varnarmálasamstarfi

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, Troels Lund Poul­sen, Antti Häkkän­en, Bjørn Ar­ild Gram, Pål Jon­son, varnarmálaráðherrar Norðurlandanna:

Varn­ar­málaráðherr­ar Norður­land­anna und­ir­rituðu á þriðju­dag­inn nýja lang­tíma­stefnu fyr­ir nor­rænt varn­ar­mála­sam­starf til árs­ins 2030 og mörkuðu þar með tíma­mót í sögu sam­starfs­ins. Með þessu vilja Norður­lönd­in bregðast við þeim al­var­legu ör­ygg­is­áskor­un­um sem heims­byggðin stend­ur frammi fyr­ir með til­heyr­andi álagi á alþjóðakerfið. Norður­lönd­in hyggj­ast efla varn­ar­sam­starf þjóðanna með metnaðarfull­um og um­fangs­mikl­um verk­efn­um til að styrkja sam­eig­in­lega nor­ræna varn­ar­getu, banda­lags­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins til heilla.

Norður­lönd­in deila sömu grunn­gild­um og ör­ygg­is­hags­mun­um. Varn­ar­sam­starf okk­ar hef­ur þró­ast og eflst á liðnum árum og varð til stofn­un­ar NOR­D­EFCO-sam­starfs­ins árið 2009. Síðan þá höf­um við séð blik­ur á lofti varðandi okk­ar sam­eig­in­lega ör­yggi, nú síðast með ólög­legu inn­rás­ar­stríði Rúss­lands í Úkraínu. Nú eru rúm tvö ár frá alls­herj­ar­inn­rás Rúss­lands í Úkraínu og tíu ár frá ólög­legri inn­limun Krímskaga. Íbúar Úkraínu hafa sýnt óbilandi þraut­seigju, hug­rekki og mikla út­sjón­ar­semi frammi fyr­ir grimmd­ar­verk­um Rússa. Bar­átta þeirra er bar­átta okk­ar allra; fyr­ir frelsi, fyr­ir sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­in­um og lýðræðinu. Það er því skylda okk­ar að styðja áfram við varn­ar­bar­áttu Úkraínu; með her­gögn­um, þjálf­un, mannúðar- og fjár­hagsaðstoð, eins lengi og þörf kref­ur.

Það er sam­eig­in­legt mat Norður­land­anna að Rúss­land verði áfram stærsta ógn við ör­yggi okk­ar heims­hluta, sem og heims­ins alls, um fyr­ir­sjá­an­lega framtíð. Við erum jafn­framt sam­mála um mik­il­vægi þess að efla sam­eig­in­leg­ar aðgerðir okk­ar til að mæta þess­ari ógn. Í fyrsta sinn, með aðild Finn­lands og Svíþjóðar að Atlants­hafs­banda­lag­inu, hafa Norður­lönd­in ákveðið að standa sam­einuð þegar kem­ur að ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu þjóðanna.

Norður­lönd­in eru staðráðin í að efla fram­lög til sam­eig­in­legra varna Atlants­hafs­banda­lags­ins og, að Íslandi und­an­skildu, ætla að fjár­festa að lág­marki 2% af vergri lands­fram­leiðslu þeirra til herafla sinna. Við deil­um ein­stakri sérþekk­ingu á Norður-Atlants­haf­inu, norður­slóðum og Eystra­salt­inu og eig­um nærri 1.500 kíló­metra landa­mæri að Rússlandi. Sam­an­lagt búa Norður­lönd­in yfir 250 herþotum og 350 þúsund her­mönn­um á Norður­lönd­un­um. Sam­an höf­um við auk þess getu til að styðja við mót­töku, aðkomu og til­færslu liðsafla banda­lags­ríkja okk­ar. Sam­eig­in­leg reynsla okk­ar og þekk­ing, sam­hliða frek­ari efl­ingu heild­rænna varna (e. total defen­se) og nor­ræns há­tækniiðnaðar á sviði her­gagna, er mik­il­vægt fram­lag til að auka viðnámsþol og viðbragðsgetu. Sem banda­lags­ríki erum við reiðubú­in til að standa vörð um gjörv­allt svæði Norður­land­anna.

Flutn­inga­leiðin yfir Atlants­hafið þjón­ar lyk­il­hlut­verki fyr­ir ör­yggi Evr­ópu og Norður-Am­er­íku. Af þeim sök­um leggja tví­hliða varn­ar- og sam­starfs­samn­ing­ar Norður­land­anna við Banda­rík­in grunn að öfl­ugra sam­starfi ríkj­anna, sem eyk­ur um leið fram­lag okk­ar til sam­eig­in­legra ör­ygg­is- og varn­ar­mála.

Norður­lönd­in eru reiðubú­in til að tak­ast á við nú­ver­andi og kom­andi áskor­an­ir, sam­eig­in­lega og með öðrum banda­lags­ríkj­um, og nýta þannig nor­rænt varn­ar­sam­starf til að efla ör­yggi Atlants­hafs­banda­lags­ins. Við lít­um á norður­slóðir og Eystra­saltið sem sam­eig­in­legt aðgerðasvæði okk­ar og varn­ir þess eru horn­steinn sam­vinnu okk­ar.

Með of­an­greint og mark­mið okk­ar til árs­ins 2030 í huga, höf­um við ákveðið að styrkja nor­ræna varn­ar­sam­starfið í takt við lang­tíma­stefnu þess, sem er aðgengi­leg á vef ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Sam­eig­in­legt fram­lag okk­ar til fæl­ing­ar­mátt­ar og ör­ygg­is Atlants­hafs­banda­lags­ins, með hliðsjón af land­fræðilegri legu landa okk­ar, getu og herafla, er veru­legt. Það styður ekki ein­vörðungu við áætlana­gerð og vinnu Atlants­hafs­banda­lags­ins, held­ur styrk­ir nor­ræna sam­starfið sömu­leiðis stöðu banda­lags­ins í Norður-Evr­ópu. Þannig leggja Norður­lönd­in sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar til sam­eig­in­legra varna allra aðild­ar­ríkja banda­lags­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. maí 2024.