Ósjálfbær opinber fjármál

 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, vakti mikla athygli þegar hann viðurkenndi nýlega að ástandið í fjármálum hins opinbera væri algjörlega ósjálfbært þar vestra. Með gífurlegri skuldsetningu væri verið að taka lán hjá kynslóðum framtíðarinnar. Tímabært væri að stöðva slíka skuldasöfnun sem fyrst og gera opinber fjármál sjálfbær að nýju.

Á Íslandi hefur hið opinbera verið rekið með miklum halla undanfarin ár þrátt fyrir mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi. Stóraukinn vöxtur opinberra útgjalda er ein helsta skýringin á þessum hallarekstri.

Mikil skuldsetning hins opinbera er afar óæskileg. Hún stuðlar að vaxtahækkunum og leggur byrðar á kynslóðir framtíðarinnar. Síðast en ekki síst dregur hún úr getu hins opinberum til að mæta óvæntum áföllum.

Fjármálaáætlun 2025-2029

Ýmis góð markmið er að finna í tillögu að fjármálaáætlun 2025-2029, sem nýr fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í vikunni. Það veldur þó vonbrigðum hversu hægt á að draga úr skuldasöfnun ríkissjóðs. Áformað er að halda hallarekstri ríkisins áfram næstu þrjú árin og að jafnvægi í honum náist ekki fyrr en árið 2028 eða í lok næsta kjörtímabils.

Talið er að ríkissjóður verði rekinn með 49 milljarða króna halla á yfirstandandi ári. Jákvætt er að ekki er búist við að hallinn í ár aukist frá upphaflegri samþykkt þrátt fyrir mikil útgjöld í tengslum við kjarasamninga og náttúruhamfarir við Grindavík.

Jafnframt er jákvætt að draga eigi úr afkomuhalla ríkisins og stöðva hækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Draga á úr útgjöldum, m.a. með sameiningu stofnana og frestun framkvæmda við nýbyggingar fyrir stjórnarráðið og nýja björgunarmiðstöð. Betur má þó ef duga skal og t.d. mætti einnig hætta við ýmsar kostnaðarsamar en óarðbærar samgönguframkvæmdir, t.d. í tengslum við svokallaða borgarlínu.

Stóraukin opinber umsvif

Samkvæmt umræddri tillögu er ekki ætlunin að stöðva útgjaldavöxt hins opinbera heldur einungis að halda honum í skefjum. Áætlað er að heildartekjur hins opinbera muni nema 2009 milljörðum króna á næsta ári og að þær muni síðan hækka stöðugt á gildistíma áætlunarinnar.

Áformað er að ríkissjóður verði rekinn með 25 milljarða króna á árinu 2025 og síðan er ætlunin að minnka hallinn uns jafnvægi er náð árið 2028. Ná þyrfti jafnvægi í rekstri ríkissjóðs mun fyrr og helst ekki síðar en á næsta ári. Besta leiðin til þess væri auðvitað að draga myndarlega úr ríkisútgjöldum og selja eitthvað af ríkiseignum.

Sligandi vaxtagreiðslur

Á undanförnum árum hefur fjármagnskostnaður verið einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Háar vaxtagreiðslur hafa lamandi áhrif á íslenskt efnahagslíf og dregur úr getu ríkisins til að veita landsmönnum þjónustu eða lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Áætlað er að vaxtagjöld ríkisins nemi 105 milljörðum króna á næsta ári og að þau haldi áfram að hækka á gildistíima áætlunarinnar.

Með miklum og stöðugum hallarekstri hins opinbera er verið að taka lán hjá komandi kynslóðum með óábyrgum hætti. Brýnasta verkefni stjórnmálanna er að ná tökum á opinberum útgjöldum og koma rekstrinum í jafnvægi að nýju. Á það jafnt við um rekstur ríkis og sveitarfélaga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.