Guðmundur H. Garðarsson fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins lést á Hjúkunarheimilinu Sóltúni aðfaranótt 18. apríl, 95 ára að aldri. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Guðmundur fæddist í Hafnarfirði 17. október 1928. Foreldrar hans voru Garðar Svavar Gíslason kaupmaður og Matthildur Guðmundsdóttir húsmóðir.
Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1950 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1954. Hann stundaði framhaldsnám í hagfræði í Kiel í Þýskalandi 1954-1955. Var í námi í endurtryggingum hjá Lloyd’s í London árið 1955 og nam markaðsfræði hjá International Marketing Institute við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 1965.
Guðmundur var kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík árið 1974 og sat til 1978. Hann var aftur kjörinn á þing árið 1987 og sat á Alþingi til ársins 1991. Kom hann tvívegis eftir það inn á þing sem varaþingmaður í nóvember 1992 og í nóvember 1994, en en áður hafði hann margsinnis tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður árin 1967, 1970, 1978, 1979, 1983, 1983, 1985 og 1986.
Guðmundur var skrifstofustjóri hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands 1955-1961, fulltrúi og ritari stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna árin 1961-1987 og sinnti síðar ýmsum sérverkefnum fyrir sama fyrirtæki. Hann vann lengi að verkalýðsmálum, var formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1957-1979 og sat í miðstjórn ASÍ 1966-1976.
Hann átti lengi sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, bankaráði Verzlunarbanka Íslands og Íslandsbanka. Þá var hann í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna um árabil. Sat lengi í stjórn Fjárfestingarfélags Íslands, þar af formaður frá 1986 til 1992. Einnig var Guðmundur í stjórn Íslenskrar endurtryggingar, sat í tryggingaráði 1979-1983 og var fulltrúi í Þingmannasamtökum NATO. Þá var Guðmundur fyrsti formaður Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, við stofnun þess 1961. Hann var jafnframt formaður Varðar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík frá 1980-1985.
Í formannstíð Guðmundar í VR varð félagið að fjölmennasta og öflugasta launþegafélagi landsins. Hann var fyrsti hægrimaðurinn sem tók sæti í miðstjórn ASÍ en áður hafði hann ásamt öðrum lagt mikla baráttu í að VR yrði aðili að sambandinu. Guðmundur átti einnig ríkan þátt í uppbygginu lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi og lagð grunn að Lífeyrissjóði verslunarmanna. Á Alþingi hafði hann forystu í umræðum um lífeyrismál og mikilvæg mál sem snéru að vinnumarkaðnum. Hann átti einnig töluverðan þátt í lausn landhelgisdeilunnar. Ævisaga Guðmundar kom út árið 2017.
Eiginkona Guðmundar var Ragnheiður Guðrún Ásgeirsdóttir læknaritari sem lést árið 2008. Þau eignuðust tvo syni og fjögur barnabörn.
Sjálfstæðisflokkurinn minnist Guðmundar sem ötuls talsmanns Sjálfstæðisstefnunnar og fyrir sín góðu störf í þágu flokksins á Alþingi og í innra starfi hans og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur við fráfall hans.