Fyrirspurn um loftslagsúrskurð Mannréttindadómstólsins

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Mannréttindadómstóll Evrópu komst í vikunni að þeirri niðurstöðu að Sviss hefði brotið mannréttindi hóps eldri kvenna með því að uppfylla ekki markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Óhætt er að segja að þessi fyrsti úrskurður dómstólsins um loftslagsmál og skyldu ríkja til að bregðast við hnattrænni hlýnun hafi vakið athygli.

Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur lagagildi á Íslandi samkvæmt lögum nr. 62/1994. Ákvæði samningsins um verndun mannréttinda og frelsis hafa því lagagildi hér á landi í heild sinni. Samkvæmt sömu lögum eru úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu þó ekki bindandi að íslenskum landsrétti og í samræmi við fyrirvara Íslands þar um. Á okkur hvílir því ekki lagaskylda að hlíta dómum Mannréttindadómstólsins þótt langt hafi verið gengið í þá átt.

Frá því mannréttindasáttmálinn var fullgiltur á Íslandi árið 1953 hefur honum verið margbreytt. Sáttmálinn var lögfestur hér árið 1994. Það sama má því segja um úrlausnir Mannréttindadómstólsins sem hefur starfað frá árinu 1959. Dómstóllinn seilist sífellt lengra í túlkunum sínum og lögskýringum, langt umfram texta mannréttindasáttmálans með „skapandi lögskýringum“ eins og það er kallað.

Mannréttindasáttmálinn hefur haft grundvallaráhrif á mikilvæg mannréttindi og vernd þeirra í aðildarríkjum hans; hann er í raun grundvöllur að vernd þeirra. Framúrstefnulegar túlkanir dómstólsins og þróun úrskurða hans hafa skiljanlega gefið gagnrýnisröddum byr undir báða vængi. Í Bretlandi hafa t.a.m. farið fram háværar umræður um úrsögn frá lögsögu dómstólsins af þessum sökum.

Þrátt fyrir að úrlausnir Mannréttindadómstólsins séu hér ekki bindandi eins og áður segir hafa niðurstöður hans áhrif á úrlausnir íslenskra dómstóla sem hafa ákvæði sáttmálans og túlkun Mannréttindadómstólsins að leiðarljósi í niðurstöðum sínum. Mér þótti því tilefni til að leggja fram fyrirspurn á Alþingi til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um hvort og þá hvernig framangreind niðurstaða Mannréttindadómstólsins hafi áhrif hér á landi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2024