Agnarsmár en sterkur í harðri samkeppni

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Með kvóta­kerf­inu og fram­selj­an­leg­um afla­heim­ild­um tókst okk­ur hægt en ör­ugg­lega að snúa baki við kerfi sem var fjár­magnað með lak­ari lífs­kjör­um al­menn­ings. Kerfi sem var ætlað að halda lífi í óhag­kvæm­um og ósjálf­bær­um sjáv­ar­út­vegi með milli­færsl­um, geng­is­fell­ing­um og póli­tísk­um af­skipt­um. Við lögðum niður op­in­bera verðlags­nefnd fisk­verðs og hætt­um að niður­greiða olíu á fiski­skip, hent­um úr­eld­ing­ar­sjóði fiski­skipa sem ætlað var að bæta upp offjár­fest­ingu sem miðstýr­ing og sókn­ar­kerfi leiddu af sér. Veik­b­urða sveit­ar­sjóðir hættu að reka og halda gjaldþrota bæj­ar­út­gerðum á lífi. Við hætt­um að sóa auðlind­um hafs­ins.

Stöðugar geng­is­fell­ing­ar á kostnað launa­fólks eru, kannski sem bet­ur fer, óljós­ar minn­ing­ar okk­ar sem eldri erum. Það hef­ur fennt yfir mar­tröðina þegar syst­urn­ar Of­stjórn og Óstjórn réðu ríkj­um. Öll vilj­um við gleyma því þegar kald­ur veru­leiki launa­fólks var geng­is­fell­ing, geng­is­sig, gengisaðlög­un og óðaverðbólga. Á sex árum frá 1980 féll krón­an um nær 600% gagn­vart doll­ar. Árin 1980, 1981 og 1982 var verðbólga alltaf yfir 50% og árið 1983 hækkaði verðlag um 84% og fór upp fyr­ir 100% á tíma­bili. Á fimm árum átt­faldaðist verð á mjólk­ur­lítr­an­um. Á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar 18-faldaðist verðlag á Íslandi. Það þótti vart frétt­næmt að gjald­eyr­is­deild­ir bank­anna væru lokaðar í marga daga. Að fella niður með bráðabirgðalög­um um­samd­ar verðbæt­ur á laun var hluti af „eðli­legri“ stjórn efna­hags­mála með svipuðum hætti og tak­mörk­un lána til vöru­kaupa og kaupa á vél­um og tækj­um.

Arðbær sjáv­ar­út­veg­ur

Við ríf­umst ekki leng­ur um geng­is­fell­ing­ar. Sjáv­ar­út­veg­ur er ekki leng­ur í súr­efn­is­vél­um milli­færslna, nei­kvæðra vaxta, niður­greiðslna og styrkja til að leggja fiski­skip­um. Við höf­um gert dugnaðarforkum kleift að njóta út­sjón­ar­semi í út­gerð og fisk­vinnslu. Okk­ur hef­ur tek­ist bet­ur en flest­um öðrum þjóðum að byggja upp arðbær­an sjáv­ar­út­veg með fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfi sem stuðlar að hag­kvæmri og sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda hafs­ins. Þjóðir sem hafa sjáv­ar­út­veg í súr­efn­is­vél­um skatt­greiðenda líta öf­und­ar­aug­um til Íslands. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er ein helsta upp­spretta tækni­fram­fara og ný­sköp­un­ar.

Nú þegar þur­fa­ling­ur­inn hef­ur kom­ist í áln­ir er tek­ist á um hversu þung­ar byrðar skuli setja á sjáv­ar­út­veg­inn. Í huga stjórn­mála­manna stórra lof­orða er sjáv­ar­út­veg­ur­inn eins og óþrjót­andi upp­spretta til að fjár­magna auk­in um­svif rík­is­ins og stór­aukn­ar milli­færsl­ur, jafn­vel til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda. Slík­ir stjórn­mála­menn hafa litl­ar áhyggj­ur af stöðu sjáv­ar­út­vegs í harðri alþjóðlegri sam­keppni. Sáð er fræj­um tor­tryggni yfir vel­gengni og alið á rang­hug­mynd­um um stærð ís­lenskra sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja.

Þor­steinn Már Bald­vins­son, stjórn­ar­formaður Síld­ar­vinnsl­unn­ar, hélt því fram í ræðu á aðal­fundi fyr­ir­tæk­is­ins 21. mars síðastliðinn, að umræðan um stærð ís­lenskra sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja væri á vill­u­göt­um: „Staðreynd­in er sú að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur í heild sinni er agn­arsmár í sam­an­b­urði við þau risa­vöxnu er­lendu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki sem við erum í sam­keppni við á er­lend­um mörkuðum. Mun­ur­inn hef­ur farið vax­andi. Í því sam­hengi má nefna að velta Mowi, sem er stærsta sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki Evr­ópu, var jafn­v­irði 820 millj­arða króna á síðasta ári og nálg­ast fyr­ir­tækið að vera þre­falt stærra en sjáv­ar­út­veg­ur­inn á Íslandi eins og hann legg­ur sig.“

Velta Síld­ar­vinnsl­unn­ar var aðeins 6% af veltu Mowi í fyrra. Sam­herji er enn minni hlut­falls­lega. Og Þor­steinn Már benti á annað dæmi. Mowi er 400 sinn­um stærra en G. Run í Grund­arf­irði. „Það má því segja að Mowi nái ár­sveltu G. Run um há­deg­is­bil á hverj­um ein­asta virka degi árs­ins.“

Ekki leggja steina í göt­ur

Þrátt fyr­ir að tek­ist hafi að byggja upp mörg glæsi­leg fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi, sem stand­ast risa­fyr­ir­tækj­um snún­ing á alþjóðleg­um mörkuðum, eru fyr­ir­tæk­in öll lít­il á alþjóðleg­an mæli­kv­arða, eins og Þor­steinn Már benti rétti­lega á í aðal­fund­ar­ræðunni.

Sú spurn­ing hlýt­ur að vera áleit­in hvaða hags­muni verið er að verja þegar sam­keppn­is­yf­ir­völd telja nauðsyn­legt að rann­saka sér­stak­lega kaup Síld­ar­vinnsl­unn­ar á helm­ings­hlut í sölu­fyr­ir­tæk­inu Ice Fresh Sea­food af Sam­herja á síðasta ári. Fjár­fest­ing­in hef­ur eng­in áhrif á ís­lensk­an markað enda sel­ur sölu­fyr­ir­tækið all­ar afurðir á er­lend­an markað. Er nema von að spurt sé hvort verið sé að gæta hags­muna kaup­enda sjáv­ar­af­urða í Evr­ópu eða Asíu? Sölu­fyr­ir­tækið á viðskipti við nokkr­ar af stærstu versl­un­ar­keðjum Evr­ópu sem velta þúsund­um millj­arða króna á ári. Viðskipti Ice Fresh Sea­food við þess­ar keðjur ná hvergi 0,05% af veltu þeirra.

Auðvitað er fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið ekki galla­laust. Við eig­um að keppa að því að sníða van­kant­ana af eft­ir bestu getu. En um leið get­um við verið stolt af því að hafa komið á fót arðbæru og sjálf­bæru fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfi sem er fyr­ir­mynd annarra landa. Á grunni þess höf­um við, sem þjóð, náð að hverfa frá gjaldþrota­stefnu op­in­berra af­skipta, geng­is­fell­inga og óðaverðbólgu og mótað sam­fé­lag vel­meg­un­ar.

Verk­efni stjórn­valda, stjórn­mála­flokka og stjórn­mála­manna ættu frem­ur að miða að því að leita leiða til að styrkja stoðir ís­lensks sjáv­ar­út­vegs í harðri alþjóðlegri sam­keppni. Lag­færa reglu­verkið og styðja bet­ur við arðsemi fyr­ir­tækj­anna og auka þannig tekj­ur í sam­eig­in­lega sjóði. Og eft­ir­lits­stofn­an­ir eiga að styðja við bakið á fyr­ir­tækj­um um leið og þeim er veitt nauðsyn­legt aðhald. Ekki leggja steina í göt­ur þeirra í viðleitni til að há­marka út­flutn­ings­verðmæti. Með því er ekki aðeins gengið gegn hags­mun­um eig­enda og starfs­manna fyr­ir­tækj­anna held­ur alls al­menn­ings. Þetta á við um sjáv­ar­út­veg eins og all­ar aðrar starfs­grein­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2024.