Forsenda hagsældar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Skilvirkt, öruggt og samkeppnishæft fjármálakerfi er ein af lykilforsendum hagsældar. Á þessum vettvangi þarf ekki að tíunda hvers vegna. Dæmin eru þó skýr. Þegar fjármálakerfið bregst, líkt og árið 2008, er það sársaukafullt og þegar það er laskað, eins og árin á eftir, stendur það í vegi viðspyrnu. Þegar fjármálakerfið er aftur á móti vel rekið og fjármagnað, eins og er greinilegt síðustu ár, skiptir það sköpum fyrir hagsæld og stuðlar að batnandi hag heimila og fyrirtækja.

Samofið framförum

Reynsla síðustu ára er ekki einstök og er í raun reynsla allrar hagsögu Íslands. Framganga fjármálaþjónustu hefur verið samofin því að Ísland náði á einni öld að komast úr lífskjörum sem í dag finnast nær eingöngu í Afríku sunnan Sahara. Það er hvergi jafn augljóst og við stofnun Íslandsbanka 1904 sem gegndi lykilhlutverki í iðnvæðingu sjávarútvegs. Óhugsandi er að ímynda sér allar sambærilegar framfarir síðustu áratuga án skilvirkar fjármálalegrar milligöngu þar sem sparnaður landsmanna mætir metnaðarfullum og framsýnum hugmyndum og fjármagnar verðmætar fjárfestingar til langs tíma.

Enginn vafi er á því að útsjónarsemi og hæfni, auk mikilvægra lærdóma af sögunni, eru forsenda þess að fjármálakerfinu hefur almennt vegnað vel á síðustu árum. Það er nefnilega ekki sjálfsagt að hagkerfið fari í djúpa niðursveiflu eins og árið 2020 þar sem fjármálakerfið, studdi við viðspyrnuna og komst vel út úr niðursveiflunni, þótt meginþungi stuðnings á þeim tíma hafi verið í formi aðgerða stjórnvalda sem var mögulegt vegna sterkrar stöðu ríkisfjármála. Því má líka þakka að stjórnvöld hafa styrkt alla umgjörð í kringum fjármálakerfið og fjármálastöðugleika, t.d. með sameiningu FME og Seðlabankans. Við höfum lækkað álögur með lækkun bankaskatts, sem hefur leyst aukna krafta úr læðingi, þrátt fyrir að hér séu skattar á fjármálafyrirtæki hærri en í samkeppnislöndum okkar. Nýjasta skýrsla Fjármálastöðugleika Seðlabankans ber þess vitni að kerfið stendur vel og að staða stóru viðskiptabankanna er sterk. Það er ánægjulegt og gríðarlega mikilvægt þegar ýmsar ógnir, hér og erlendis, standa fyrir dyrum.

Hlúum að samkeppni

Samkeppni er mikilvæg í öllum atvinnugreinum. Ég legg til dæmis mikla áherslu á að sérstaklega sé hlúð að samkeppni á orkumarkaði, þar sem ríkið er langstærsti eigandinn og leikandinn. Mikilvægi frjálsar samkeppni á við í öllum atvinnurekstri, hvers kyns fjármálaþjónustu líka. Auka ætti samkeppni á þessum markaði með því að létta á kröfum og auðvelda inngöngu nýrra aðila inn á markaðinn, neytendum til hagsbóta. Þegar ríkið á um helming af viðskiptabönkum í hagkerfinu þarf að huga einstaklega vel að samkeppni. Það er sjaldnast hollt fyrir markaði að einn aðili eða eigandi sé margfalt stærri en aðrir. Við höfum stigið stór og mikilvæg skref í að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að selja eftirstandandi hlut ríkisins.  Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki er skýr um að losa eigi frekar um eignarhald ríkisins í fjármálakerfinu. Þessu er ég sammála og hef alltaf verið. Að fyrirmynd Norðmanna kann að vera skynsamlegt að ríkið myndi halda eftir ákveðnum eignarhlut í þágu fjármálastöðugleika og tryggingu fyrir því að á Íslandi ávallt verði höfuðstöðvar viðskiptabanka.

Ríkið er ekki góður eigandi

Augljóst er að nokkur styr hefur staðið um eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum síðustu ár og svo gerir enn. Margir draga þá ályktun að það sé einfaldlega vegna þess að ekki hafi verið nægilega vel haldið á málum. Í mínum huga er það röng sjúkdómsgreining. Ríkið er ekki heppilegur eigandi að fjármálakerfinu. Þannig er það heldur hvergi hjá þjóðum sem við teljum til fyrirmyndar. En af hverju? Er það vegna sjónarmiða hægri manna?

Nei, það er ekki ástæðan. Ástæðan liggur í eðli banka, ekki eingöngu því að þeir eru fyrirtæki. Eðli banka er milliganga fjármagns þeirra sem hafa það en þurfa ekki að nota það alveg strax og þeirra sem það þurfa, oft í langan tíma. Bankinn stýrir síðan þessu tímamisvægi og þiggur gjald. Þetta er aldargömul saga og þannig verður bankastarfsemi áfram. Hvert er þá vandamálið við eignarhald ríkisins á bönkum? Það er eðli stjórnmálanna. Það þarf ekki að fylgjast lengi með stjórnmálum í lýðræðisríkjum til að sjá að þar eru aðilar sem eru að berjast fyrir hagsmunum og verkefnum sem standast ekki markaðsforsendur eða eðlilega ávöxtunarkröfu. Þannig á það að vera, ríkið tekur við þar sem brestur verður eða verkefni þarfnast samtakamáttar þjóðarinnar, í krafti skattheimtu. Og þar bera stjórnmálamenn beina pólitíska ábyrgð og leggja verk sín í hendur kjósanda með reglubundnum og opnum hætti.

Það sjá allir að þessi tvö hlutverk skarast ef ríkið er eigandi. Til lengri tíma er öruggt að stjórnmálin ráða för, ekki viðskiptaleg sjónarmið. Ég vil ekki opinber afskipti af fjármögnun verkefna einkaaðila. Við þekkjum öll söguna um að hérlendis var langt tímabil þar sem flokksskírteini réðu hver fékk fjármagn en ekki hvaða verkefni ætti að fjármagna. Þess vegna segi ég að eðlilegt fjármálakerfi starfar eftir reglum frá stjórnvöldum og undir eftirliti þeirra. Mikilvægt er að skapa markaðsaðhald með starfseminni og að hún sé gagnsæ á allan hátt. Það er aðeins ein leið til að mæta þessum sjónarmiðum og það er að bankarnir séu skráðir á markað og í dreifðu og almennu eignarhaldi.

Milljörðum betur borgið í innviðum

Ríkið er með hátt í 400 milljarða króna bundna í eignarhaldi viðskiptabanka í dag. Fórnarkostnaður þess er svimandi hár. Það blasir við að þeir milljarðar væru betur bundnir í efnahagslegum og samfélagslegum innviðum sem nýtast öllum almenningi og einkaaðilar eiga ekki eins hægt um vik að sinna. Að ótöldu því að þeir fjármunir gætu lækkað skuldir ríkissjóðs sem eru nú hærri en æskilegt er. Til að setja fjárhæðirnar í samhengi gæti sala á öllum eignarhlut ríkisins í bönkum fjármagnað allar fjárfestingar ríkisins í um fjögur ár. Ríkið á að sinna því að fjárfesta í vegakerfi, sjúkrahúsum, fangelsum og öðrum innviðum. Einkaframtakið á að sinna rekstri banka.

Grienin birtist í Viðskiptablaðinu 2. apríl 2024.