OECD-met í opinberum útgjöldum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Hafna ber hugmyndum um að auka álögur á Reykvíkinga með nýjum skatti.

Heildarútgjöld hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, voru hæst á Íslandi meðal aðildarríkja OECD á árinu 2021. Námu þau 42,5% af vergri landsframleiðslu Íslands það ár en meðaltal ríkja OECD nam 34%. Útgjöld til varnarmála og lífeyrismála voru undanþegin í þessum útreikningi til að auðvelda samanburð við önnur ríki. Þessar upplýsingar koma fram í nýlegu svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur alþingismanni.Hlutfall tekna og gjalda hins opinbera af vergri landsframleiðslu er ágætur mælikvarði á umsvif hins opinbera enda einfaldur og hentugur fyrir samanburð milli landa.Veigamikil rök eru fyrir því að telja lífeyrisiðgjöld með hinu opinbera kerfi hérlendis enda er um skyldugreiðslur að ræða. Það er þó ekki gert í þessum útreikningum til að auðvelda samanburð við önnur ríki þar sem fyrirkomulag lífeyristrygginga er ólíkt. Þá eru útgjöld til varnarmála einnig undanskilin enda hafa Íslendingar ekki her, ólíkt öðrum OECD-ríkjum.

Mikil útgjaldaþensla

Gífurleg útgjaldaaukning ríkis og sveitarfélaga á undanförnum árum hefur fært Íslendingum þetta óæskilega met. Stöðugt er látið undan kröfum um aukin opinber útgjöld eins og nýgerðir kjarasamningar eru dæmi um. Vinstri flokkarnir virðast almennt hafa þá sannfæringu að niðurgreiða eigi sem flestar þarfir fólksins og ná þeim þannig undir skömmtunarstjórn hins opinbera.Hallarekstur hins opinbera er fjármagnaður með lántökum. Á viðmiðunarárinu 2022 var afkoma hins opinbera neikvæð um 175 milljarða króna. Samt hækkuðu tekjur hins opinbera mikið eða um 253 milljarða króna á núvirði milli áranna 2021-2022. Ríkissjóður hefur verið rekinn með halla frá árinu 2019 og Reykjavíkurborg mun lengur.Ríki og sveitarfélög verða að grípa til aðgerða í því skyni að hætta hallarekstri og skuldasöfnun. Jafnframt þarf að fjármagna miklar skuldbindingar vegna kjarasamninga og Reykjaneselda. Markmið um jafnvægi í opinberum rekstri næst ekki nema með víðtækum sparnaði og hagræðingu.

Skattbyrði í hámarki

Við slíkar aðstæður væri heimskulegt að velta fleiri ófjármögnuðum stórverkefnum yfir á skattgreiðendur, t.d. framkvæmdahluta borgarlínu, sem mun ekki kosta undir 130 milljörðum króna og er þá reksturinn eftir.Skattbyrði Íslendinga var árið 2020 hin næstmesta meðal OECD-ríkja. Hafna ber hugmyndum um að auka skattbyrði Reykvíkinga með nýjum skatti, svokölluðu umferðargjaldi, nema aðrir skattar lækki jafnmikið á móti. En rætt er um að nýi skatturinn eigi að koma til viðbótar hinum háu umferðargjöldum sem þegar eru innheimt, þ.e. bensínsköttum, bifreiðagjöldum og kílómetragjöldum, sem eru með hinum hæstu í heimi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2024.