Dauðinn dó en lífið lifir

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Sú von er sterk, hún verður eigi slökkt,
að vorið komi þó að geisi hríð.
Eins sigr­ar Drott­inn alla ógn og stríð.

Og þó að dauðinn hremmi hart og snöggt
er hönd að baki, mild og trú og góð,
hún leiðir fram til ljóss um myrka slóð.

Þótt lán sé brot­hætt, lífið valt og stökkt,
er líkn í hverri raun og tári manns,
því þar er Krist­ur, kross og pásk­ar hans.

Og þegar hyl­ur húmið svalt og dökkt
þinn heim og salta dögg­in væt­ir kinn
þá kem­ur hann og fær­ir friðinn sinn.

Sú von er sönn, hún verður aldrei slökkt,
hún vek­ur þína sál við hinsta ós,
að Krist­ur breyt­ir öllu í ei­líft ljós.
(Sig­ur­björn Ein­ars­son)

Pásk­arn­ir og vorið tengj­ast órjúf­an­leg­um bönd­um í boðskap um sig­ur lífs­ins. Von­in sigr­ar ótt­ann og birt­an myrkrið.

Við fögn­um pásk­un­um hvert með okk­ar hætti. Í faðmi fjöl­skyld­unn­ar, í návist vina og ókunn­ugra. Njót­um úti­vist­ar, bregðum á leik og ger­um okk­ur glaðan dag. Þannig fögn­um við líf­inu og rækt­um okk­ar innri mann. Trú­leys­ing­inn gleðst yfir vor­inu, hrífst af birt­unni og nýt­ur þess að sjá allt vakna til lífs­ins eft­ir dimm­an vet­ur. Í þversagn­ar­kennd­um heimi geym­ir jafn­vel sá trú­lausi boðskap Krists í hjarta sínu.

Árið 1987 velti blaðamaður Morg­un­blaðsins því fyr­ir sér hvort páska­egg­in og ung­arn­ir, gulu kert­in og lit­ríku skreyt­ing­arn­ar sem minna á vorið skyggi á boðskap pásk­anna. Feli kross­inn, píslar­sögu Krists, upprisu og staðfest­ingu von­ar­inn­ar. Nem­end­ur í sjö ára bekk í Mela­skóla sem blaðamaður­inn ræddi við voru ekki í nein­um vafa um þessa mestu hátíð krist­inna manna.

„Þá var Jesús Krist­ur frels­ari okk­ar kross­fest­ur en hann reis svo aft­ur upp frá dauðum á pásk­un­um,“ svaraði Ásgerður Arna Sóf­us­dótt­ir. „Krist­ur sem er Guðsson­ur reis upp frá dauðum á pásk­un­um en hann var kross­fest­ur á föstu­dag­inn langa og þess vegna eru pásk­ar haldn­ir hátíðleg­ir,“ svaraði Þor­steinn Bald­ur Friðriks­son.

Ekki veit ég hvernig nem­end­ur í sjö ára bekk myndu svara ef þeir væru spurðir í dag. Von­andi jafn skýrt og jafn­aldr­ar þeirra fyr­ir 37 árum. En það er ástæða til að ótt­ast að þekk­ing barna á sög­unni sem mótað hef­ur allt líf okk­ar, sögu og menn­ingu sé að hverfa. Og hvernig má annað vera? Trú­in á Guð hef­ur skipu­lega verið gerð út­læg úr ís­lensk­um skól­um og op­in­beru lífi. Stöðugt er reynt að skera á kristn­ar ræt­ur sam­fé­lags­ins og setja Jesú út í horn. Kristn­um gild­um, sem eru grunn­ur umb­urðarlynd­is og frels­is, á að henda líkt og hverj­um öðrum óþarfa.

Ég hef áður vakið at­hygli á því hvernig hug­mynda­fræði trú­leys­is er víða að festa ræt­ur. Styrk bænar­inn­ar er hafnað og trú­in gerð tor­tryggi­leg og að henni hæðst. Um leið er sál­inni af­neitað. Allt skal vera á grunni hins ver­ald­lega og hinu and­lega er fórnað. Hæfi­leik­inn til að þiggja and­leg­ar gjaf­ir glat­ast.

Hætt­an er sú að merk­ing pásk­anna falli í gleymsku. Eft­ir standa páska­egg úr súkkulaði og gul­ir borðar. Allt án inni­halds. Kross­inn án merk­ing­ar.

En eins og Sig­ur­björn Þorkels­son und­ir­strik­ar svo meist­ara­lega í ljóðabók­inni Lifi lífið, þá eig­um við ekki að ótt­ast því frels­ar­inn er ávallt að skapa ný tæki­færi og laga sig að breytt­um tíma og aðstæðum.

Þeir fjar­lægðu frels­ar­ann
úr skól­un­um.
Og reyna nú
að plokka hann burt
úr pásk­un­um og jól­un­um.
En hann finn­ur sér ávallt
far­veg sem líðandi læk­ur
hjá lilj­un­um og fjól­un­um,
frá hjarta til hjarta
til að hugga, veita von
og þeim, sem þiggja vilja,
framtíð bjarta.
(Sig­ur­björn Þorkels­son)

Tákn­mynd hug­rekk­is og trú­ar

Séra Karl Sig­ur­björns­son heit­inn minnti á að á kross­in­um er Jesús tákn­mynd hug­rekk­is, fórn­fýsi og and­legr­ar reisn­ar and­spæn­is reg­inöfl­um rang­læt­is, hat­urs og dauða. Í páska­pre­dik­un 2008 sagði hann kross­inn umfaðma „lífið allt og sýn­ir sam­stöðu Krists með þeim út­skúfuðu og utang­arðs, og sam­líðan hans með þeim þjáðu og snauðu, seku og deyj­andi.

Kross­inn minn­ir á kröfu Krists um kær­leika, fyr­ir­gefn­ingu og mis­kunn­semi, og á af­drátt­ar­lausa full­yrðingu hans um að hann lifi og mæti okk­ur í þeim sem hann kallaði sín minnstu systkin. Síst má sú full­yrðing hans láta okk­ur í friði. Alls ekki í menn­ingu og sam­fé­lagi sem er und­ir­lagt eig­in­girni og sjálf­hverfu, og upp­tekið af dýrk­un græðgi, fýsn­ar og valda, fast í fíkn og lífs­flótta af öllu tagi.

Pásk­arn­ir geyma ræt­ur kristn­inn­ar. Og ræt­ur þarf að vökva.

Krist­ur er uppris­inn. Lífið lif­ir. Þetta er boðskap­ur pásk­anna og kjarni krist­inn­ar trú­ar. Pásk­ar eru því hátíð gleðinn­ar – hátíð von­ar­inn­ar. Kær­leik­ur­inn sigr­ar og von­in „verður aldrei slökkt“. Trú­in á Krist „breyt­ir öllu í ei­líft ljós“.

Dauðinn dó, en lífið lif­ir,
lífs og friðar sól­in skær
ljóm­ar dauðadöl­um yfir,
dauðinn oss ei grandað fær,
lífið sanna sál­um manna
sig­ur­skjöld mót dauða ljær.
(Helgi Hálf­dán­ar­son)

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2024.