Aðgerðir ríkisstjórnarinnar: Hærra fæðingarorlof og verðstöðugleiki

Áhersla er á lægri verðbólgu, hagstætt húsnæði og fjölskylduvænt Ísland í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru samhliða undirritun langtímakjarasamnings milli Starfsgreinasambandsins, Eflingar, Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins fyrr í dag. Markmið samningsins sem verkalýðsfélögin og SA kalla Stöðugleikasamninginn er að skapa skilyrði fyrir minni verðbólgu, lægri vöxtum og stöðugleika.

Kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðanna hleypur á 20 til 25 milljörðum króna árlega. Meðal aðgerðanna eru hækkuð framlög barnamóta um 18 milljarða króna á samningstímanum, 75% niðurgreiðsla á skólamáltíðum úr ríkissjóði og hækkuð framlög til fæðingarorlofs. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði aðgerðirnar þýða skýra forgangsröðun í þágu fjölskyldna. Ríkisfjármálin verði að styðja við markmiðin um verðstöðugleika og vaxtalækkun. Það kalli á hagræðingu í þágu þeirra aðgerða sem nú hafa verið boðaðar. Vaxtastigið skipti mestu fyrir heimili og fyrirtæki landsins og því verði að tryggja að ríkisfjármálin séu trúverðug í því markmiði að ná niður verðbólgu.

2,5% hemill á gjaldskrárhækkanir ríkisins

Í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er boðaður 2,5% hemill á gjaldskrárhækkanir ríkisins árið 2025 og jafnframt er þeim tilmælum beint til sveitarfélaga að gjaldskrár fyrir 2024 hækki ekki umfram 3,5% og að þær verði endurskoðaðar hafi þær hækkað meira. Horft verði sérstaklega til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu.

Niðurgreiddar skólamáltíðir

Í aðdraganda kjarasamninganna gagnrýndu sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins um allt land hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og aðkomu forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga að málinu. Þannig bókaði stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sl. föstudag eftirfarandi: „Stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð.“

Því fór að í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er boðuð kostnaðarþátttaka ríkisins upp á 75% í skólamáltíðum.

Framleiðni og auknar heimildir lífeyrissjóða í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis

Komið verður á fót sérfræðingaráði um framleiðni til að leggja til leiðir til að auka framleiðni og byggja undir kaupmáttaraukningu á Íslandi. Einnig er gert ráð fyrir stórauknum heimildum lífeyrissjóða í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sú aðgerð hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og eykur mjög á möguleika lífeyrissjóða til uppbyggingar í húsnæðiskerfinu án þess að til komi opinber framlög.