Fokdýr Fossvogsbrú

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Enn eykst áætlaður kostnaður við fyr­ir­hugaða Foss­vogs­brú. Heild­ar­kostnaður við smíði brú­ar­inn­ar hef­ur marg­fald­ast frá upp­haf­legri áætl­un og er nú met­inn á 8.800 millj­ón­ir króna. Ekki er víst að sú kostnaðaráætl­un stand­ist enda er um mjög sér­hæft mann­virki að ræða.

Foss­vogs­brú yrði 270 metra löng stál­brú, sem tengja á sam­an tvö jaðarsvæði: Kárs­nes og Naut­hóls­vík. Brú­in mun hafa tak­markaðan al­menn­an til­gang. Ekki er gert ráð fyr­ir bíl­um held­ur ein­ung­is gang­andi og hjólandi um­ferð um hana, auk borg­ar­línu­vagna. Brú­in mun lít­il sem eng­in áhrif hafa til stytt­ing­ar fyr­ir gang­andi og hjólandi veg­far­end­ur, fyr­ir utan þá sem eiga er­indi á milli þess­ara jaðarsvæða.

Foss­vogs­brú var fyrst rædd í borg­ar­stjórn fyr­ir rúm­um ára­tug og sner­ist hug­mynd­in þá um krútt­lega göngu- og hjóla­brú, sem kosta átti nokk­ur hundruð millj­ón­ir króna. Síðan hafa kostnaðaráætlan­ir marg­fald­ast og ólík­legt er að end­an­leg­ur kostnaður verði und­ir tíu millj­örðum. En eins og við fleiri op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir virðist kostnaður­inn ekki skipta máli. Skatt­greiðend­ur borga brús­ann á end­an­um.

Flagg­skip borg­ar­lín­unn­ar?

Foss­vogs­brú hef­ur verið nefnd flagg­skip svo­kallaðrar borg­ar­línu. Komið hef­ur á dag­inn að upp­haf­leg­ar kostnaðaráætlan­ir henn­ar hafa verið stór­lega van­metn­ar. Gert er ráð fyr­ir að kostnaður við fram­kvæmda­hluta borg­ar­línu nemi 126 millj­örðum króna á verðlagi síðasta árs. Á þá eft­ir að gera ráð fyr­ir rekstr­ar­kostnaði, sem mun að auki nema millj­örðum króna ár­lega.

Allt bend­ir til að Foss­vogs­brú verði óarðbær og hafi nei­kvætt nú­v­irði eins og raun­ar borg­ar­línu­verk­efnið í heild. Marg­ar aðrar sam­göngu­fram­kvæmd­ir á höfuðborg­ar­svæðinu eru arðbær­ar og miklu þarfari. Nær væri t.d. að efla nú­ver­andi strætó­kerfi en að bæta öðru kerfi við með óviss­um kostnaði og ár­angri.

Geysi­dýrt gælu­verk­efni

Foss­vogs­brú er skóla­bók­ar­dæmi um op­in­bert gælu­verk­efni, þar sem kostnaðaráætl­un­um virðist vilj­andi vera haldið lág­um á meðan verið er að „selja“ verk­efnið og lauma því yfir á herðar skatt­greiðenda. Þegar dreg­ur að fram­kvæmd­um eru nýj­ar og raun­hæf­ari áætlan­ir lagðar fram í trausti þess að málið sé komið svo langt að of seint sé að hætta við hina óarðbæru fram­kvæmd.

Þegar óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um um kostnað við Foss­vogs­brú árið 2022 mætti und­ir­ritaður mik­illi tregðu í kerf­inu. Í árs­lok fékkst það svar að áætlaður kostnaður við brúna næmi 2.250 millj­ón­um króna þótt aug­ljóst væri að sú tala væri alltof lág og löngu úr­elt.

Síðastliðið haust stökk­breytt­ist kostnaðaráætl­un Foss­vogs­brú­ar í 7.500 millj­ón­ir króna. Nú hef­ur hún hækkað í 8.800 millj­ón­ir en þó er lík­legt að raun­kostnaður verk­efn­is­ins verði hærri.

Í upp­færðri kostnaðaráætl­un er ekki gert ráð fyr­ir því að ryðfrítt stál verði notað í Foss­vogs­brú eins og áður var stefnt að en þannig næst að lækka áætl­un­ina um 1.400 millj­ón­ir. Var áður full­yrt að vegna mik­ils sjóálags væri ryðfría stálið nauðsyn­legt til að halda viðhaldskostnaði niðri. Hætt hef­ur verið við notk­un ryðfría stáls­ins með einu penn­astriki, að því er virðist til að lækka kostnaðaráætl­un.

Hags­mun­ir skatt­greiðenda

Marg­föld­un kostnaðaráætl­un­ar ætti með réttu að leiða til þess að arðsemi Foss­vogs­brú­ar yrði end­ur­met­in í ljósi stökk­breytts kostnaðar. Í raun þyrfti að end­ur­meta arðsemi allra fram­kvæmda í tengsl­um við fyr­ir­hugaða borg­ar­línu. Eft­ir­far­andi spurn­ing­ar blasa við:

· Er rétt­læt­an­legt að verja um tíu millj­örðum króna í afar dýra Foss­vogs­brú, sem mun nýt­ast al­menn­ingi að mjög tak­mörkuðu leyti? Er ekki skyn­sam­legra að verja þess­um fjár­mun­um í brýnni og arðbær­ari sam­göngu­verk­efni í borg­inni?

· Er í lagi að þyngja skatt­byrði Reyk­vík­inga enn frek­ar með nýj­um skatti (um­ferðar­gjaldi) til að fjár­magna borg­ar­línu, sem kosta mun hátt á annað hundrað millj­arða króna?

Ekki síst ættu alþing­is­menn Reyk­vík­inga að svara þess­um spurn­ing­um og láta málið til sín taka með hags­muni skatt­greiðenda að leiðarljósi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar 2024.