Púkinn í fjósinu fitnar

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Á níu árum, 2014 til 2022, lögðu skatt­greiðend­ur liðlega 49 millj­arða króna á föstu verðlagi í rekst­ur Rík­is­út­varps­ins, sem auk þess aflaði sér um 26 millj­arða í tekj­ur af sam­keppn­is­rekstri og þá fyrst og síðast af sölu aug­lýs­inga. Rík­is­út­varpið hafði því á þess­um níu árum um 72,2 millj­arða króna úr að moða.

Árs­reikn­ing­ur Rík­is­út­varps­ins fyr­ir liðið ár hef­ur ekki verið birt­ur en að meðtöldu því ári má gera ráð fyr­ir að heild­ar­tekj­ur á síðustu tíu árum hafi numið tölu­vert yfir 80 millj­örðum króna á föstu verðlagi. Sam­kvæmt fjár­lög­um liðins árs var skatt­greiðend­um ætlað að greiða Rík­is­út­varp­inu um 5,7 millj­arða króna og á þessu ári um 6,1 millj­arð. Þetta þýðir að á ell­efu árum hef­ur rík­is­miðill­inn fengið í sinn hlut yfir 61 millj­arð frá skatt­greiðend­um með milli­göngu rík­is­sjóðs. Við þetta bæt­ast tekj­ur af sam­keppn­is­rekstri.

Viðskipta­blaðið greindi frá því í liðinni viku að reiknað er með að aug­lýs­inga­tekj­ur Rík­is­út­varps­ins auk­ist á þessu ári um að minnsta kosti 500 millj­ón­ir króna eða um 17,4%. Með hækk­un út­varps­gjalds­ins (skatts­ins sem lagður er á lands­menn til að fjár­magna rík­is­rekst­ur­inn) og aukn­um aug­lýs­inga­tekj­um munu heild­ar­tekj­ur Rík­is­út­varps­ins aukast um 700 til 800 millj­ón­ir króna á þessu ári, sam­kvæmt Viðskipta­blaðinu.

For­rétt­indi á kostnað jafn­ræðis

Á sama tíma og rík­is­miðill­inn fitn­ar, líkt og púk­inn í fjós­inu hans Sæ­mund­ar, berj­ast sjálf­stæðir fjöl­miðlar í bökk­um. Með skipu­leg­um hætti ger­ir Rík­is­út­varpið strand­högg á flest­um sviðum fjöl­miðlun­ar, allt frá aug­lýs­ing­um til dag­skrár­gerðar og hlaðvarpsþátta. Frá alda­mót­um hef­ur hlut­ur Rík­is­út­varps­ins í aug­lýs­inga­tekj­um ís­lenskra fjöl­miðla auk­ist úr 15% í 20% og sjón­varps úr 32% í 56%.

Það verður að játa að lög­gjaf­an­um hafa verið ein­stak­lega mislagðar hend­ur þegar kem­ur að því að tryggja heil­brigt um­hverfi fjöl­miðla hér á landi. Jafn­ræðis­regl­unni hef­ur verið vikið til hliðar til að tryggja for­rétt­indi Rík­is­út­varps­ins. Í skjóli for­rétt­inda stund­ar rík­is­miðill­inn harða sam­keppni við sjálf­stæða miðla. For­send­um heil­brigðs markaðar og sam­keppni – að all­ir starfi eft­ir sömu leik­regl­um – hef­ur verið vikið til hliðar. Ójöfn og erfið staða sjálf­stæðra fjöl­miðla er römmuð inn í reglu­verki sem nýt­ur stuðnings meiri­hluta þing­manna. Bein­ir rík­is­styrk­ir til einka­rek­inna fjöl­miðla hafa verið inn­leidd­ir, sem eins kon­ar synda­af­lausn. Bein­ir rík­is­styrk­ir eru skil­virk aðferð til að gera fjöl­miðla háða vald­inu.

Ég hef lengi bar­ist fyr­ir því að spil­in verði stokkuð. Á síðustu árum hef­ur ég lagt fram nokk­ur þing­mál sem ann­ars veg­ar miða að því að draga úr sam­keppn­is­rekstri rík­is­ins á fjöl­miðlamarkaði og hins veg­ar að inn­leiða skatta­leg­ar íviln­an­ir fyr­ir sjálf­stæða fjöl­miðla í stað beinna rík­is­styrkja. Ekk­ert þess­ara mála hef­ur náð fram að ganga, sem ætti kannski ekki að koma á óvart í ljósi þeirr­ar varðstöðu sem meiri­hluti þing­manna (meira að segja þeir sem á tylli­dög­um berja sér á brjóst fyr­ir að standa með at­vinnu­líf­inu) hef­ur staðið um Rík­is­út­varpið.

Það hef­ur oft verð erfitt og tekið lang­an tíma að koma bönd­um á rík­is­rekst­ur og þá ekki síst sam­keppn­is­rekst­ur rík­is­ins, al­veg með sama hætti og það þurfti marg­ar til­raun­ir á þingi til að af­nema einka­rétt rík­is­ins í út­varpi og sjón­varpi. Þess vegna lít ég svo á að það sé skylda mín að halda bar­átt­unni áfram, í þeirri vissu að drop­inn holi stein­inn. Og kannski fara fleiri að spyrja sjálfa sig að því hvort ekki sé til önn­ur og betri leið til að styðja við ís­lenska dag­skrár­gerð, menn­ingu, list­ir og sögu en að reka op­in­bert hluta­fé­lag. Hef­ur sá 61 millj­arður sem skatt­greiðend­ur hafa verið þvingaðir til að greiða Rík­is­út­varp­inu á síðustu ell­efu árum verið nýtt­ur með skyn­sam­leg­um hætti? Væri ís­lensk kvik­mynda­flóra, dag­skrár­gerð, fjöl­miðlun og menn­ing öfl­ugri ef þess­um fjár­mun­um hefði verið varið með öðrum hætti, t.d. í gegn­um sam­keppn­is­sjóði?

Leik­ur­inn gerður jafn­ari

Á næstu dög­um mun ég, ásamt fé­lög­um mín­um í þing­flokki Sjálf­stæðis­flokks­ins, leggja fram frum­varp um breyt­ingu á ýms­um lög­um vegna end­ur­skoðunar á rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla. Mark­mið frum­varps­ins er að jafna sam­keppn­is­stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla gagn­vart rík­is­reknu fjöl­miðlafyr­ir­tæki og alþjóðleg­um ris­um.

Lagt er til að rekstr­ar­formi Rík­is­út­varps­ins verði breytt í rík­is­stofn­un með sjálf­stæða stjórn. Fjár­mögn­un rekstr­ar verður fyrst og fremst með bein­um fram­lög­um úr rík­is­sjóði sam­kvæmt fjár­lög­um hvers árs í sam­ræmi við þjón­ustu­samn­ing. Þetta þýðir að út­varps­gjald verður af­numið. Sett­ar verða skorður við sam­keppn­is­rekstri á aug­lýs­inga­markaði og verður stofn­un­inni ekki heim­ilt að stunda markaðsstarf­semi vegna aug­lýs­inga. Rík­is­út­varp­inu verður aðeins heim­ilt að birta aug­lýs­ing­ar á grund­velli gjald­skrár sem staðfest hef­ur verið af ráðherra og birt op­in­ber­lega. Óheim­ilt verður að veita nokk­urs kon­ar af­slátt af gjald­skrá. Þá er há­marks­aug­lýs­inga­tími á hverri klukku­stund fimm mín­út­ur.

Í stað beinna rík­is­styrkja er lagt til að sjálf­stæðir fjöl­miðlar njóti skattaí­viln­ana sem eru sam­ræmd­ar og gegn­sæj­ar, þannig að all­ir sitji við sama borð. Frum­varpið ger­ir ráð fyr­ir tvenns kon­ar breyt­ing­um á skattaum­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Ann­ars veg­ar með und­anþágu frá greiðslu trygg­inga­gjalds upp að vissu marki og hins veg­ar með því að fella niður virðis­auka­skatt af áskrift­um inn­lendra fjöl­miðla; prent­miðlum, net­miðlum og ljósvakamiðlum. Þess­um breyt­ing­um er ætlað að styrkja einka­rekna fjöl­miðla og styðja við sjálf­stæði þeirra.

Ég læt mig enn dreyma um að ríkið dragi sig með öllu út úr fjöl­miðlarekstri. Með fram­gangi frum­varps­ins ræt­ist sá draum­ur ekki en um­hverfi fjöl­miðla verður a.m.k. nokkuð heil­brigðara. En eft­ir stend­ur þver­sögn­in að ríkið – í frjálsu sam­fé­lagi – stundi miðlun frétta og upp­lýs­inga og taki að sér það hlut­verk að veita stjórn­völd­um, at­vinnu­líf­inu og helstu stofn­un­um sam­fé­lags­ins nauðsyn­legt aðhald.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar 2024.