Forgangsröðun og flækjustig

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Umfang ríkisútgjalda er ekki náttúrulögmál. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eru með því mesta sem gerist á heimsvísu. Þetta er staðan þrátt fyrir að lífeyris- kerfi okkar sé fullfjármagnað, framlög okkar til varnarmála eru skömmustulega lág og þjóðin er ung samanborið við mörg önnur ríki, og þar með heilsuhraustari en ella væri. Það er vilji til að gera betur og við höfum ekki val um óbreytt ástand til lengri tíma.

Virðinging fyrir fjármunum annarra

Það er nauðsynlegt að borgaralega þenkjandi fólk, og samtök sem aðhyllast ekki sósíalisma láti í sér heyra þegar að ákallið kemur um að hið opinbera setji meira af almannafé í verkefni. Við þurfum að gera það að almennri skoðun að fólk, stjórnmálamenn og kjósendur, spyrji sig alvarlega (i) er nauðsynlegt að hið opinbera fjármagni verkefnið, (ii) er nauðsynlegt að hið opinbera framkvæmi verkefnið, og þá (iii) ef svarið við báðum þessum spurningum er jákvætt, skal það vera framkvæmt á bestu mögulega vegu á gagnsæjan og ábyrgan máta.

Það er nefnilega orðið full frjálslega farið með þá staðreynd að hið opinbera er fjármagnað með sköttum, þ.e. verðmætum sem aðrir eiga, ekki sem heild, heldur sem einstaklingur eða lögaðili. Þessi staðreynd kallar á virðingu fyrir fjármunum annarra.

Mér finnst skorta á virðingu fyrir því að stjórnmálin höndli með fjármuni almennings. Mér þykir einnig sorglegt hversu fljótt skattgreiðendur gleyma þeirra staðreynd þegar þeir fara að verja eða sækja sína hagsmuni. Í haust barst alls 181 erindi eða umsagnir við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 og ekki þarf stóra stikkprufu til að sjá að mikill yfirgnæfandi meirihluti slíkra umsagna er ákall um aukin útgjöld. Þetta er ekkert nýtt en fjöldinn virðist fara vaxandi. Í skýrslu Viðskiptaráðs frá 2020 voru 22 umsagnir sem kölluðu eftir auknum útgjöldum en einungis ein umsögn minni útgjöldum.

Það þarf ekki að kafa djúpt í ríkisreksturinn til að sjá að það er ekki brýn og aðkallandi þörf á þeim útgjöldum sem kallað er eftir, hvort sem horft er til lengri eða skemmri tíma. Eldsumbrotin á Reykjanesskaga, og þá sérstaklega í Grindavík, minna okkur á í hvaða landi við búum og hvers vegna við þurfum að sýna aðhald til þess að eiga efni á að leysa vandamál þegar þau koma upp.

Öldrun þjóðarinnar

Önnur áskorun fyrir þjóð er öldrun, út frá ríkisfjármál um og mönnun. Öldrun þjóðar endurspeglar augljóslega miklar breytingar í samfélaginu og aukin lífsgæði okkar sem horfum nú fram á lengri líftíma, en þau sem á undan okkur komu. Lengri lífaldur og fall í fæðingartíðni sem nálgast brátt hrun leiðir til þess að framfærsluhlutfall gæti hækkað hratt á næstu áratugum og ríflega tvöfaldast.

Í fyrrnefndri skýrslu Viðskiptaráðs var áætlað að sú þróun gæti aukið kostnað við heilbrigðisþjónustu um ríflega helming að óbreyttu. Forsendur hafa breyst en meginniðurstaðan stendur enn: Að óbreyttu blasir við hundruð milljarða króna kostnaður vegna öldrunar þjóðarinnar. Þróunin er í eðli sínu jákvæð en við þurfum að huga að áskorunum sem því fylgja í tíma. Lausnin getur ekki verið sú að miðstýra fjármunum í kerfi sem hafa litla sem enga hvata til að breyta framkvæmdinni. Við verðum að vera opin fyrir því að skoða annars vegar fjármögnun og hins vegar rekstur.

Trúverðug verkefni

Hið opinbera þarf með trúverðugum hætti að stokka upp í ríkisrekstri og það þarf að ná þeim skilaboðum til fólks að það sama gildir í ríkisrekstri og öðrum rekstri og þar af leiðandi er það skynsamlegt og eðlilegt að taka til í honum eins og öðrum rekstri. Það er einungis þannig sem við getum hagrætt og bætt gæði þjónustu hins opinbera. Það ætti ekki að vera umdeilt markmið, að ríkisrekstur sé eins hagkvæmur og mögulegt er og gæði rekstrar séu sem best. Með öðrum orðum að verkkaupi, þ.e. almenningur, fái sem besta vöru eða þjónustu.

Það má einfalda, bæta og hagræða í rekstri ríkisstofnana. Ég trúi því ekki að 164 stofnanir séu nauðsynlegar. Þess vegna eigum við að sameina stofnanir. Sameining stofnana á að hafa þau markmið að hagræða annars vegar og bæta gæði hins vegar. Það fer saman í öllum samrunum. Hvers vegna er það þá þannig að nánast alltaf, hefur það fylgt sameiningum stofnana hjá hinu opinbera að það sé sjálfstætt markmið að starfsmannafjöldi haldi sér. Hvaða hagsmunir hafa orðið ofan á? Af þessari ástæðu hefur hagræðing verið takmörkuð og samruni einungis orðið að forminu til. Þetta er mjög óskynsamlegt og vonandi liðin tíð. Ríkið er fyrir fólkið, en ekki fólkið fyrir ríkið.

Það sem ráðast ætti í er meðal annars eftirfarandi:

  1. Klára sölu á Íslandsbanka með almennu útboði, þar sem almennir fjárfestar njóta forgangs og ráðstafa söluandvirðinu til að bregðast við eldsumbrotum nálægt byggð, til lengri og skemmri tíma.
  2. Koma á fót hamfara- og áfallasjóði sem kallaður hefur verið Þjóðarsjóður. Til að stuðla að stöðugleika í ríkisfjármálum og efnahagslegu öryggi þjóðar sem getur orðið fyrir náttúruhamförum, stórfelldum netárásum, hryðjuverkum, heimsfaraldri eða öðru.
  3. Selja þær fasteignir og þá þróunarreiti sem hafa enga menningarlega eða sögulega skírskotun og nýta söluandvirðið til að lækka skuldir.
  4. Við munum ekki reka yfir 160 stofnanir í landi með íbúafjölda á við litla borg eða bæ á meginlandinu. Þetta hlýtur hver maður að sjá.
  5. Stafrænt Ísland. Við verðum best í heimi, þegar kemur að stafvæðingu hins opinbera og bæta þannig þjónustu við fólk, auka framleiðni og hagræða í ríkisrekstri. Samþætting þjónustu og betri nýting gagna getur sparað skattgreiðendum mikla fjármuni, sem annars er sóað með því að nýta ekki bestu tækni.
  6. Bjóða ætti alþjónustu póstsins út og selja Póstinn. Á sama tíma skal tryggt að alþjónusta sé veitt og greiða fyrir hana á svæðum þar sem er markaðsbrestur.
  7. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ætti að brjóta upp og selja svo að samkeppni sé tryggð. Það er fullkomin tímaskekkja að ríkisvaldið standi í rekstri á einokunarverslun.
  8. Einfalda regluverk. Grisja það sem fyrir er, stöðva svokallaða gullhúðun, stafvæða ferla, einfalda málsmeðferð. Tækifærin eru óteljandi en ég nefni hér augljóst og brýnt verkefni, m.a. vegna stöðu Grindvíkinga, að einfalda regluverk í byggingageiranum. Það tækifæri er tölusett en við höfum yfir 300 tillögur frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, sem unnið er eftir í Innviðaráðuneytinu og framkvæma þarf hratt og örugglega.

Svona í lokin er rétt að minnast á að á meðan sumir stjórnarandstöðuflokkar fara mikinn um að ríkisstjórnin hafi engan hemil á útgjaldavexti hamra aðrir flokkar á því að hér hafi velferðarkerfin okkar verið svelt með skattalækkunum. Útilokað er að hvort tveggja sé samtímis rétt. Það sem er þó rétt er að ríkisútgjöld á mann eða í hlutfalli við landsframleiðslu verða áþekk því sem gerðist fyrir heimsfaraldur á tímabili fjármálaáætlunar og forgangsraðað hefur verið sérstaklega í þágu t.d. heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að halda áfram í þá átt, ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, draga úr skuldum og einfalda efnahag ríkissjóðs. Þetta hefur enginn annar flokkur á sinni stefnuskrá.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 7. febrúar 2024.