Vinna verður bug á verðbólgunni

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Ánægjulegt er að nokkur árangur hefur náðst í baráttunni við verðbólguna. Tólf mánaða verðbólga mældist 6,7% í janúar 2024 og lækkaði um eitt prósentustig frá desembermánuði 2023 þegar hún mældist 7,7%. Verðbólgan fór yfir 10% í mars 2023, en hefur hjaðnað verulega síðan og ekki mælst lægri frá árinu 2022. Betur má þó ef duga skal enda er verðbólgan enn langt frá 2,5% markmiði stjórnvalda.Verðbólga rýrir kjör almennings og er í raun viðbótarskattur, sem enginn getur skotið sér undan. Um leið eykur verðbólgan völd hins opinbera, sem fer með seðlaprentunarvaldið. Slíkur skattur bitnar hvað harðast á láglaunafólki og skuldugum íbúðarkaupendum.Vonandi tekst að lækka verðbólguna frekar og skapa þannig svigrúm til vaxtalækkana. Ekki má þó mikið út af bera og ljóst að yfirstandandi kjaraviðræður ráða úrslitum um hvort frekari árangur náist í baráttunni við verðbólgudrauginn.Fleira hefur þó áhrif á verðbólgu en kjarasamningar Allnokkrar umræður hafa t.d. orðið um áhrif gjaldskrárhækkana í því sambandi. Jákvætt var að ríkið gætti hófs í gjaldskrárhækkunum um nýliðin áramót. Mikil hækkun varð hins vegar á ýmsum gjaldskrám Reykjavíkurborgar, t.d. sorphirðugjöldum, sem koma munu fram í verðbólgumælingum í febrúar.

Óviðunandi hallarekstur hins opinbera

Stöðugur útgjaldavöxtur hins opinbera hefur mikil áhrif til hækkunar verðbólgu. Ríki og sveitarfélög eru rekin með halla og hafa safnað gífurlegum skuldum undanfarin ár.Eitt besta ráðið í baráttunni við verðbólguna væri ef hið opinbera, ríki og sveitarfélög, létu af lántökum og kæmu rekstri sínum í jafnvægi. Með því að sýna aðhald og draga úr opinberum lántökum myndi verðbólgan hjaðna og svigrúm skapast fyrir lækkun vaxta.Ekkert bendir þó til þess að hið opinbera sé að rifa seglin, hvorki í rekstri né framkvæmdum. Fjárlög og fjárhagsáætlanir margra sveitarfélaganna eru þensluhvetjandi og gera ráð fyrir áframhaldandi lántökum. Opinberir verkkaupar hafa t.d. boðað ríflega tvöföldun verklegra framkvæmda árið 2024, frá fyrra ári. Þetta kom fram á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í vikunni. Áætluð fjárfesting í framkvæmdum opinberra aðila á þessu ári nemur um 175 milljörðum króna, sem er um 22% hærri fjárhæð en þeir fjárfestu fyrir á síðasta ári. Þessar fjárfestingar auka þenslu þótt þær séu margar hverjar í mikilvægum og arðbærum innviðum.Háværar kröfur eru um að ríkisvaldið efni til tugmilljarða útgjalda í því skyni að liðka fyrir hóflegum kjarasamningum. Ljóst er að þessar kröfur snúast ekki um einskiptis-greiðslu heldur aukin ríkisafskipti og skattahækkanir til framtíðar. Að sjálfsögðu er óæskilegt að skattgreiðendur fái ítrekað háan og varanlegan reikning í hausinn vegna samninga milli aðila vinnumarkaðarins.

Evrópumet í hækkun húsnæðisverðs

Miklar hækkanir á húsnæðisverði hafa verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar á undanförnum árum. Húsnæðisliðurinn hefur mikil áhrif á verðbólgu enda með þungt vægi í neysluverðsvísitölunni.Íslendingar njóta þess vafasama heiðurs að vera Evrópumeistarar í hækkun húsnæðisverðs. Þessa hækkun má ekki síst rekja til viðvarandi framboðsskorts á fasteignum í Reykjavík, sem er hluti af húsnæðisstefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn. Sú stefna felst í því að takmarka lóðaframboð í því skyni að hækka húsnæðisverð í borginni og halda því háu. Komið hefur fram að meirihlutinn vill viðhalda lóðaskorti í borginni á næstunni til að opinbert hlutafélag geti selt byggingarlóðir í Keldnalandi við sem hæstu verði.Ef ekkert verður að gert má búast við verulegri þenslu á byggingamarkaði og enn frekari hækkana húsnæðisverðs á næstu misserum vegna húsnæðiskaupa Grindvíkinga en einnig vegna uppsafnaðs lóðaskorts.Reykjavíkurborg ætti við þessar aðstæður að einsetja sér að eyða lóðaskorti, brjóta land undir byggingar í stórum stíl og bjóða þúsundir lóða á hagstæðu verði. Hóflegt verð á lóðum myndi stuðla að lækkun húsnæðisverðs.Slíkar úrbætur myndu stuðla að lækkun verðbólgu og heilbrigðara efnahagsmumhverfi. Síðast en ekki síst myndu þær gera fjölda fólks kleift að kaupa eða leigja íbúð á mun lægra verði en nú þekkist á höfuðborgarsvæðinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024.