Samspil háskóla og hagvaxtar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Við stönd­um frammi fyr­ir ýms­um áskor­un­um í ís­lensku sam­fé­lagi, þar á meðal í efna­hags­mál­um. For­send­ur þess að geta tek­ist á við áskor­an­ir eru traust­ur efna­hag­ur og auk­in verðmæta­sköp­un. Það er mik­il­vægt að sinna vel þeim stoðum sem hag­kerfi okk­ar bygg­ir á enda er fjöl­breytt og öfl­ugt at­vinnu­líf und­ir­staða lífs­kjara á Íslandi.

Mennta­mál eru eitt stærsta efna­hags­málið enda er öfl­ug­ur mannauður lyk­ilþátt­ur er kem­ur að vaxta­tæki­fær­um Íslands. Ef við ætl­um að auka verðmæta­sköp­un og grípa þau tæki­færi sem í boði eru er mik­il­vægt að við séum með alþjóðlega sam­keppn­is­hæfa há­skóla, bæði fyr­ir ein­stak­linga og at­vinnu­lífið. Mennta­kerfið þarf að þjóna sem best þörf­um at­vinnu­lífs­ins og mæta áskor­un­um sam­fé­lags­ins. Þar leika há­skól­arn­ir, í sam­vinnu við vís­inda­sam­fé­lagið og í nán­um tengsl­um við ný­sköp­un og at­vinnu­líf, lyk­il­hlut­verk í að fjölga stoðum ís­lensks efna­hags­lífs.

Til að auka slag­kraft há­skóla í ís­lensku sam­fé­lagi ein­setti ég mér að búa til hvata til þess að sækja fram, starfa sam­an og auka sam­keppn­is­hæfni. Sam­starf há­skóla er verk­efni sem ég setti á lagg­irn­ar í þeim til­gangi að beina fjár­mun­um sem áður fóru í óskil­greind verk­efni, með gagn­sæj­um hætti í verk­efni sem auka gæði há­skól­anna og eru í takti við áhersl­ur er tengj­ast m.a. sam­ein­ing­um, minni yf­ir­bygg­ingu, ný­sköp­un í kennslu­hátt­um, fjölg­un nem­enda í heil­brigðis- og tækni­grein­um, öfl­ugra fjar­námi og jafn­ari tæki­fær­um til náms.

Fjór­ir há­skól­ar eiga nú í viðræðum um sam­ein­ing­ar. Ann­ars veg­ar Há­skóli Íslands og Há­skól­inn á Hól­um og hins veg­ar Há­skól­inn á Ak­ur­eyri og Há­skól­inn á Bif­röst. Það er fagnaðarefni enda geta stærri há­skóla­ein­ing­ar og aukið sam­starf þeirra á milli gert skól­ana okk­ar sterk­ari og sam­keppn­is­hæf­ari – og sam­fé­lagið öfl­ugra til lengri tíma.

Verk­efn­in munu meðal ann­ars auðvelda nem­end­um að stunda meist­ara­nám við fleiri en einn há­skóla, auðvelda há­skól­un­um að sann­reyna alþjóðleg próf­skír­teini og auðvelda fólki með er­lend­ar próf­gráður þátt­töku í ís­lensku sam­fé­lagi, festa í sessi tækni­nám á Norður­landi og í fjar­námi og að inn­leiða bet­ur raun­færni­mat til stytt­ing­ar náms.

Þá er fjöldi verk­efna sem miða að því að efla heil­brigðis­vís­indi og áskor­an­ir heil­brigðis­kerf­is­ins, t.d. að nýta sýnd­ar­veru­leika og þrívídd­ar­prent til að auka ör­yggi sjúk­linga og bæta heil­brigðisþjón­ustu, bæta nýt­ingu námsplássa í hjúkr­un­ar­fræði milli há­skóla og nýtt nám í ráðgjöf fólks með heila­bil­un.

Mennta­mál eru sem fyrr seg­ir efna­hags­mál. Þar sem hið op­in­bera beit­ir sér á annað borð er mik­il­vægt að það verði til þess fallið að stuðla að um­hverfi þar sem hægt er að sækja fram, ýta und­ir öfl­ugt at­vinnu­líf og enn frek­ari verðmæta­sköp­un. Þannig sköp­um við aðstæður til að efla sam­keppn­is­hæfni lands­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2024.