Hættulegur heimur

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Stríð í Úkraínu, hrotta­leg hryðju­verk Ham­as í Ísra­el, stríð á Gasa, vax­andi spenna milli Kína og Taív­an, árás­ir Húta, sem ráða stór­um hluta Jemen, á kaup­skip á Rauðahafi, ófriður í mörg­um lönd­um Afr­íku, spenna milli Pak­ist­an og Ind­lands, borg­ara­stríð í My­an­mar, stríð í Sýr­landi, átök í Líb­anon, auk­in spenna milli Banda­ríkj­anna og klerka­stjórn­ar­inn­ar í Íran. List­inn er enn lengri – því miður. Heim­ur­inn býr við meiri óstöðug­leika og óvissu en áður á þess­ari öld. Mið-Aust­ur­lönd eru eins og púðurt­unna og veru­leg hætta er á að átök breiðist út. Púðurtunn­urn­ar eru víða.

Rob Bau­er, aðmíráll og formaður her­mála­nefnd­ar NATO, held­ur því fram að heim­ur­inn hafi ekki verið hættu­legri í ára­tugi. „Við neyðumst til að horf­ast í augu við að ekki er gefið að það ríki friður,“ sagði Bau­er í ný­legu fréttaviðtali. NATO búi sig und­ir átök við Rússa. Í ræðu sem Bau­er flutti á fundi her­mála­nefnd­ar­inn­ar 17. janú­ar síðastliðinn lagði hann áherslu á að sam­eig­in­lega yrðu ríki banda­lags­ins að tryggja póli­tíska staðfestu sam­hliða hernaðargetu. Á tím­um óvissu í alþjóðamál­um mætti ekki van­meta mik­il­vægi þessa.

Inn­rás Rússa í Úkraínu vakti frjáls­ar þjóðir Evr­ópu upp af vær­um blundi áhyggju­leys­is og Sví­ar og Finn­ar ákváðu að ganga til liðs við varn­ar­banda­lag vest­rænna þjóða. Hernaðarsér­fræðing­ar og æ fleiri stjórn­mála­leiðtog­ar hvetja nú til ár­vekni NATO-ríkja, sem verði að mæta ógn­um framtíðar­inn­ar.

Í ræðu sinni sagði Bau­er að nýtt tíma­bil sam­eig­in­legra varna væri hafið meðal ríkja NATO. „Og sam­an erum við að verja miklu meira en ör­yggi eins millj­arðs íbúa og 31, bráðum 32, þjóða: Við erum að verja frelsi og lýðræði.“ Stríðið í Úkraínu hafi aldrei snú­ist um ógn við ör­yggi Rúss­lands frá Úkraínu eða NATO. „Þetta stríð snýst um að Rúss­ar ótt­ast nokkuð miklu öfl­ugra en nokk­urt vopn á jörðinni: lýðræðið.“

„Ef al­menn­ing­ur í Úkraínu býr við lýðræðis­leg rétt­indi mun al­menn­ing­ur í Rússlandi þrá hið sama,“ sagði Bau­er. Um þetta snú­ist stríðið.

Styrk­ur í sam­stöðu

Það þarf ekki mikla sér­fræðiþekk­ingu til að átta sig á auknu mik­il­vægi NATO fyr­ir frjáls­ar þjóðir. Þess vegna er vax­andi ein­angr­un­ar­hyggja í Banda­ríkj­un­um áhyggju­efni – ekki aðeins fyr­ir þjóðir Evr­ópu, held­ur einnig fyr­ir lýðræðis­ríki um all­an heim.

Meðal re­públi­kana á hug­sjón­in um sam­eig­in­legt ör­yggi Vest­ur­landa sí­fellt erfiðara upp­drátt­ar. Don­ald Trump hef­ur ekki sama skiln­ing á mik­il­vægi alþjóðlegr­ar sam­vinnu og Ronald Reag­an. Re­públi­kana­flokk­ur Trumps er ekki sami flokk­ur­inn og Reag­an leiddi. Í for­setatíð sinni gagn­rýndi Trump önn­ur aðild­ar­ríki fyr­ir að leggja ekki nægi­lega mikið af mörk­um – Banda­rík­in bæru hlut­falls­lega of þunga byrði. Gagn­rýn­in var á rök­um reist en Trump hef­ur gengið lengra. Á kosn­ingasíðu Trumps er haft eft­ir hon­um að ljúka verði „ferl­inu sem við hóf­um und­ir stjórn minni að end­ur­meta í grund­vall­ar­atriðum til­gang NATO og verk­efni NATO“.

Vi­vek Ramaswamy, sem hafði ekki er­indi í for­valdi Re­públi­kana til for­seta, hef­ur lýst því yfir að Banda­rík­in eigi að segja skilið við NATO. Hann hef­ur lýst ein­dregn­um stuðningi við Trump og stóð við hlið for­set­ans fyrr­ver­andi þegar hann flutti sig­ur­ræðu eft­ir að úr­slit í for­val­inu í New Hamps­hire lágu fyr­ir.

Ron DeS­ant­is, rík­is­stjóri Flórída, sem í upp­hafi var tal­inn helsti keppni­naut­ur Trumps, hef­ur dregið sig í hlé. Í kosn­inga­bar­átt­unni sýndi hann lít­inn skiln­ing á varn­ar­sam­vinnu lýðræðisþjóða og í besta falli tak­markaðan skiln­ing á alþjóðamál­um. Hann er orðinn stuðnings­maður Trumps. Stór hluti, ef ekki meiri­hluti, þing­manna Re­públi­kana­flokks­ins fylg­ir Trump að mál­um.

Nikki Haley, fyrr­um rík­is­stjóri í Suður-Karólínu og sendi­herra Banda­ríkj­anna hjá Sam­einuðu þjóðunum, stend­ur ein eft­ir í keppn­inni við for­set­ann fyrr­ver­andi. Með nokk­urri ein­föld­un má halda því fram að hún sé arftaki Reag­ans í alþjóðamál­um. Haley ger­ir sér grein fyr­ir nauðsyn þess að lýðræðis­ríki vinni sam­an í að tryggja ör­yggi. Hún þekk­ir og styður hug­mynda­fræðina að baki 5. gr. sátt­mála NATO – að árás á eitt ríki sé árás á öll aðild­ar­rík­in.

„Við erum að borga fyr­ir NATO og við fáum ekki svo mikið út úr því,“ sagði Trump í kosn­inga­bar­átt­unni fyr­ir nokkr­um dög­um. „Mér þykir leitt að segja ykk­ur þetta um NATO: Ef við þurf­um ein­hvern tíma á hjálp þess að halda – segj­um að ráðist verði á okk­ur – þá trúi ég ekki að það verði til staðar. Ég trúi því ekki.“

Vanþekk­ing Don­alds Trumps er lýs­andi. Frá stofn­un NATO árið 1949 hef­ur 5. grein­in aðeins verið virkjuð einu sinni. Það var þegar ráðist var á Banda­rík­in 11. sept­em­ber 2001. Gera verður þá kröfu til fyrr­ver­andi for­seta að hann þekki sög­una og leggi ekki ósann­indi á borð fyr­ir kjós­end­ur. Og það er áhyggju­efni að sá sem sæk­ist eft­ir að setj­ast í Hvíta húsið skuli sýna jafn mikla vanþekk­ingu.

NATO lifði af for­setatíð Trumps 2017 til 2021. Þolir banda­lagið annað kjör­tíma­bil? John Bolt­on, sem var þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Trumps, ef­ast um það. Von­andi hef­ur hann rangt fyr­ir sér. En hitt er annað að Pútín Rúss­lands­for­seti von­ar, líkt og Xi Jin­ping, for­seti Kína, að ein­angr­un­ar­hyggja nái yf­ir­hönd­inni í ut­an­rík­is­stefnu Banda­ríkj­anna. Klerka­stjórn­in í Íran myndi fagna, líkt og Kim Jong Un, ein­ræðis­herra Norður-Kór­eu.

Sjálf­stætt mat

Varn­ar- og ör­ygg­is­mál Íslands hafa staðið traust­um fót­um með aðild­inni að NATO og varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in. En í sí­breyti­leg­um og óstöðugum heimi skipt­ir miklu að við höf­um getu og burði til að meta sjálf­stætt hvernig hags­mun­ir lands og þjóðar verða best tryggðir. Í mörgu höf­um við látið reka á reiðanum í þeim efn­um. Ein­mitt þess vegna hafa sex þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, und­ir for­ystu Njáls Trausta Friðberts­son­ar, lagt fram, í annað sinn, þings­álykt­un um sjálf­stætt rann­sókna­set­ur um ör­ygg­is- og varn­ar­mál í sam­vinnu við Alþjóðastofn­un Há­skóla Íslands.

Þróun í stjórn­mál­um, vax­andi ein­angr­un­ar­hyggja og óstöðug­leiki, kall­ar á að Alþingi af­greiði þessa til­lögu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2024.