Sömu spurningar, sömu svör

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Í vikunni var tekinn fyrir skemmtilegur liður á Alþingi, sem eru fyrirspurnir þingmanna til munnlegs svars ráðherra. Ég átti nokkrar uppsafnaðar fyrirspurnir sem ég hafði beðið spennt eftir að fá svör við.

Þar af voru tvær fyrirspurnir til innviðaráðherra. Í fyrsta lagi spurði ég innviðaráðherra út í álagningarstofn fasteignaskatts og hins vegar út í snjallvæðingu umferðarljósa í Reykjavík.

Fasteignaskattur er sérlega ófyrirsjáanlegur og ósanngjarn skattur sem leggst á eignir fólks óháð afkomu þeirra. Álagningarstofninn er lögbundinn, svo hendur sveitarfélaga eru bundnar að því leytinu til, þótt þau séu auðvitað alltof dugleg að nýta sér svigrúm laganna til hæstu álagningar. Skatturinn hefur komið sérstaklega illa við heimili og fyrirtæki á tímum óðaverðbólgu fasteignaverðs, enda reiknast fasteignaskattur af fasteignamati. Hækkunin hefur ítrekað verið umfram spár og kemur alltaf jafn leiðinlega á óvart.

Sum sveitarfélög hafa við þessar aðstæður reynt að koma til móts við fólkið sitt með lækkun álagningar. Það á þó ekki við um öll sveitarfélög og það kemur lítið á óvart að Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélag landsins, hefur ekki séð sér fært að gera það heldur þvert á móti tekið fegins hendi á móti frekari fjármunum frá íbúum sínum til að eyða. Og það á erfiðum tímum.

Það voru vonbrigði að heyra frá innviðaráðherra að ekki stæði til að endurskoða þessa ósanngjörnu og ófyrirsjáanlegu skattheimtu. Hækkun fasteignamats hefur engan aukinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélög. Og það er auðvitað fráleit niðurstaða að velgengni nágranna þíns við sölu fasteignar, geti haft áhrif á fjárhæð skattanna sem þú greiðir.

Seinni fyrirspurn mín til innviðaráðherra sneri að því að ekki sé búið að snjallvæða umferðarljós í Reykjavík. Árið 2019 átti að ráðast í verkefnið „þegar í stað“, samkvæmt samningi sem Reykjavíkurborg gerði við stjórnvöld og innviðaráðherra undirritaði.

Eldri svör ráðherra til mín hafa verið þau að óháð úttekt hafi blessað úreltan búnað borgarinnar. Og auðvitað að það hafi verið stofnaður hópur til að skoða þetta – það er enda það sem borgin gerir best, hvort sem það er snjómokstur, sorphirða eða umferðarljós. Ég vonaðist eftir betri svörum frá ráðherranum í þetta skiptið.

Innviðaráðherra fullvissaði mig um að þetta væri í góðum farvegi og að margar úrbætur hefðu þegar verið gerðar, rúmum fjórum árum eftir undirritun samkomulags um forgang þessa verkefnis. Ég sem íbúi í Reykjavík veit betur – ástandið er óásættanlegt og úrbætur í lágmarki.

Bætt umferðarljósakerfi eykur umferðaröryggi, bætir umferðarflæði sem ekki veitir af, og dregur úr mengun. Ég mun ekki hætta að krefja innviðaráðherra um þessi svör fyrr en tíminn minnkar raunverulega sem ég ver á rauðu ljósi í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. janúar 2024