Bjarni um ríkisstjórnarsamstarf, málefni Grindvíkinga og hælisleitendur í Silfrinu

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra var í mjög athyglisverðu viðtali í Silfrinu í gær. Viðtalið má finna hér og eru lesendur hvattir til að horfa á það.

Hann ræddi m.a. umsóknir hælisleitenda og flóttafólks og benti á að Ísland tæki á móti mun fleiri umsóknum um alþjóðlega vernd en Norðurlöndin sem orsakist m.a. af því að Ísland væri með rýmri reglur þegar kæmi að því að fólk fái efnislega meðferð umsókna.

„Það er hætta á því á Íslandi að ef við opnum ekki augun og sjáum þær hættur sem geta legið í því að við grípum ekki í taumana áður en það er orðið um seinan, að þá muni það hafa mjög slæm áhrif á innviðina á Íslandi og jafnvel orðið til þess að auka skautun í umræðunni, sem ég hef orðið verulega miklar áhyggjur af,“ sagði hann.

Spurður út í nýlega færslu sína á facebook um mótmæli tjaldbúa við Austurvöll og hvort færslan hefði tengingar við fylgistölur Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum sagði hann slíkar tengingar út í hött.

„Við verðum að geta tekið málefnalega umræðu um þessi mál, sem eru alvarleg og varða framtíð landsins og getu okkar til að byggja hér upp lífskjör án þess að mönnum séu gerðir upp einhverjir annarlegir hagsmunir eða skoðanir sem hafa ekkert með málið að gera,“ sagði hann.

Í viðtalinu fór Bjarni einnig yfir ríkisstjórnarsamstarfið og að hann teldi að erindi ríkisstjórnarinnar væri ekki lokið. „Við erum í þessu stjórnarsamstarfi til þess að vinna gagn, við erum í þjónustuhlutverki fyrir þjóðina. Við lítum þannig á að það sé úrslitaatriði  að við getum staðið við það loforð sem við gáfum kjósendum“,  sagði Bjarni.

Bjarni fór einnig yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti  Grindvíkingum og möguleg áhrif þeirra á kjaraviðræður.

„Það eru uppi mjög háværar kröfur um að ríkið leggi mikla fjármuni inn í tilfærslukerfin til þess að loka kjaralotunni sem stendur yfir núna. Menn segja bara beint út, ef að ríkið stendur ekki við það sem við viljum að ríkið geri þá verði engir kjarasamningar. Ríkið er bara við öll, þannig að þegar ríkið og við öll þurfum að taka á svona stóru máli eins og Grindavíkurmálið er þá auðvitað hefur það áhrif á getu okkar til að teygja okkur í átt að kröfum annarra sem á sama tíma eru að biðja okkur um að leggja eitthvað af mörkum,“ sagði Bjarni.

„Ég held að við hljótum að gera þá kröfu að menn taki tillit til heildaraðstæðna, það væri óskynsamlegt af öllum aðilum að ætlast til þess að þeir séu teknir út úr því stóra samhengi sem við erum öll föst í,“ sagði hann einnig.

Viðtalið við Bjarna má finna hér.