Engar áhyggjur, ég er frá ríkinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra:

Góðan dag, ég er frá stjórn­völd­um og er kom­inn til að hjálpa.“ Það vakti mikla at­hygli á sín­um tíma þegar Ronald Reag­an, þá for­seti Banda­ríkj­anna, sagði að þetta væru ekki endi­lega þau orð sem kjós­end­ur þyrftu að heyra. Með því lagði hann áherslu á að af­skipti hins op­in­bera eru ekki alltaf til þess fall­in að bæta líf okk­ar, held­ur þvert á móti verða þau oft­ar til þess að flækja það á svo marga vegu. Auðvitað þarf að setja þetta í sam­hengi við tím­ann þar sem orðin voru lát­in falla, en það má þó vel heim­færa þessi orð á nú­tím­ann og taka und­ir þau. Verk­efni stjórn­mál­anna eru fjöl­breytt og ég trúi því að stjórn­málastarf skipti máli. Við sem störf­um á vett­vangi stjórn­mál­anna þurf­um þó að hafa skýra sýn um hvert við vilj­um stefna en einnig að láta hend­ur standa fram úr erm­um gagn­vart þeim verk­efn­um.

Verk­efn­in fel­ast þó ekki í því að hafa vit fyr­ir fólki eða ákveða, fyr­ir hönd hins op­in­bera, hvernig það á að lifa lífi sínu. Hlut­verk stjórn­mála­manna er miklu frem­ur að skapa aðstæður þar sem fólk hef­ur val um það hvar það vill búa, starfa, stunda nám, sæk­ir sér heil­brigðisþjón­ustu og þannig mætti áfram telja. Til þess þarf að skapa grund­völl þar sem einkafram­takið fær að njóta sín, þar sem fyr­ir­tæki fá að starfa í friði frá hinu op­in­bera, þar sem skött­um og gjöld­um er stillt í hóf og þar sem hugað er að helstu grunn­innviðum lands­ins. Frjálst val fær­ir valdið til fólks­ins og í því felst hið raun­veru­lega lýðræði.

Við stönd­um fyr­ir ýms­um áskor­un­um nú í upp­hafi árs. Það sem skipt­ir okk­ur öll máli er að verðbólg­an hjaðni og vext­ir lækki. Þar skipt­ir höfuðmáli að skyn­sam­leg sátt ná­ist við gerð kjara­samn­inga. Önnur brýn verk­efni eru á sviðum mennta-, orku- og út­lend­inga­mála. Það blas­ir við að við þurf­um að ná betri ár­angri í mennta­kerf­inu okk­ar, við þurf­um að ráðast í frek­ari orku­öfl­un og ein­falda leyf­is­veit­ing­ar sem og að ná betri tök­um á mál­efn­um þeirra sem hingað koma til að leita eft­ir alþjóðlegri vernd. Þetta eru þau verk­efni sem stjórn­völd þurfa að setja í for­gang. Það er ekki – og á ekki að vera – hlut­verk stjórn­mál­anna að ætla sér að laga öll raun­veru­leg og óraun­veru­leg vanda­mál, grípa inn í öll verk­efni eða boða frek­ari op­in­ber af­skipti af mál­um sem ein­stak­ling­ar eða fyr­ir­tæki geta sjálf leyst. Rétt eins og Reag­an benti á er það ekki endi­lega það sem fólk þarf á að halda.

Á for­send­um ein­fald­ara lífs, frels­is og sam­keppni hef­ur okk­ur tek­ist að leysa ýmis mál. Við eig­um að ein­blína á það að leysa krafta úr læðingi og búa til um­hverfi þar sem fólk hef­ur jöfn tæki­færi og val. Það að setja sér mark­mið um að ein­falda reglu­verk frek­ar en að flækja það og treysta fólki til eig­in ákv­arðana og at­hafna í lífi og starfi er ágæt­is ára­móta­heit.

Gleðilegt nýtt ár.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 2024.