Þegar stórt er spurt á Alþingi

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Nú er hlé á formlegum störfum Alþingis. Þingmenn nota tímann til undirbúnings og funda auk þess að taka á móti og funda með erlendum gestum sem koma árið um kring. Ég er með fjölda mála í pípunum sem verða eflaust efni í sérstök greinaskrif. Ég bíð hins vegar enn eftir svörum við þó nokkrum fyrirspurnum til ráðherra og vænti þess að fá þau um leið og þing kemur saman að nýju. Þannig hafa svör ekki borist frá fjármála- og efnahagsráðherra um heildartekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu og um samanburð á heildarútgjöldum milli landa. Tilgangur fyrirspurnarinnar er ekki síst að fá fram samanburð milli landa að frátöldum útgjöldum til varnarmála og með leiðréttingum vegna greiðslu örorku og lífeyristrygginga sökum sérstöðu Íslands í þessum málaflokkum. Hér á landi standa lífeyrissjóðir undir þessum útgjöldum að stórum hluta. Mig grunar sterklega að í ljós komi að óvíða séu opinber útgjöld og skattheimta meiri en hér. Og miklar kröfur eru um að enn verði bætt í. – En sjáum til.

Þá bíð ég eftir svörum frá dómsmálaráðherra um handtökur og afhendingar íslenskra ríkisborgara og sömuleiðis um handtökur og afhendingar einstaklinga til Íslands. Vegna gildistöku sérstakra laga þar um frá árinu 2016 er mikilvægt að fá upplýsingar um framkvæmdina fram í dagsljósið og um meintan ávinning Íslands af evrópskri og norrænni handtökuskipun.

Mér barst nýlega svar heilbrigðisráðherra um samanburð á fjölda aðgerða og kostnað Landspítalans og Klíníkurinnar á aðgerðum vegna endómetríósu. Upp úr svarinu hef ég bæði svarað spurningum fjölmiðla og skrifað greinar, en mér sýnist að nýlegar, síðari skýringar Landspítalans gefi tilefni til frekari fyrirspurna.

Síðastliðinn vetur lagði ég sömuleiðis fram nokkrar fyrirspurnir til ráðherra og óskaði eftir munnlegum svörum þeirra við þeim. Þær verða vonandi teknar fyrir á fyrstu dögum þingsins. Þannig hef ég lagt fram fyrirspurn til utanríkisráðherra um hvort Rússar hafi komist yfir vörur sem sæti útflutningsbanni til Rússlands í trássi við þvingunaraðgerðir ESB og Íslands. Og að auki fyrirspurn um áhrif ófriðar á þróunarsamvinnu Íslands.

Ég hef óskað eftir svörum frá innviðaráðherra um endurskoðun álagningarstofns fasteignaskatts sem mér þykir einstaklega ósanngjörn og ófyrirsjáanleg skattheimta. Og einnig um snjallvæðingu umferðarljósa í Reykjavík, sem ég vonast til að lifa að sjá verða að veruleika. Þá hef ég lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir að börn og ungmenni gangi til liðs við þá sem stunda skipulagða brotastarfsemi og um fleiri eða þyngri refsiheimildir við slíkri starfsemi.

Að lokum hlakka ég til að heyra svör menningarráðherra við spurningum um hlaðvarpsgerð Ríkisútvarpsins og hvernig hún telst vera í almannaþágu og hvernig hún samræmist almennum samkeppnissjónarmiðum. Þar kemur sér vel að hún er jafnframt viðskiptaráðherra.

Það er mikilvægur hluti af starfi alþingismanna að hafa eftirlit með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Með því stuðlum við að því að ríkisvaldinu sé beitt með lýðræðislegum, skilvirkum og réttlátum hætti. Þar vil ég ekki láta mitt eftir liggja og vonast eftir skýrum og greinargóðum svörum frá ráðherrunum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2023