Áramótakveðja

Kæru félagar.

Nú þegar árið er senn á enda er við hæfi að líta til baka og gera upp árið og horfa inn í það næsta.

Á vettvangi sveitarstjórnar hefur samstarf kjörinna fulltrúa gengið með ágætum heilt yfir. Við leitumst almennt við að leysa málin í sameiningu, að hlusta á rök hvers annars og að ná sameiginlegri niðurstöðu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Fjárhagsáætlun 2024

Vinna við gerð fjárhagsáætlunar gekk vel og var áætlunin unnin í samstarfi beggja framboða. Fulltrúar D-lista studdu áætlunina með tveimur undantekningum, annars vegar ráðningu sameiginlegs heilsu-, íþrótta- og tómstundafulltrúa og verkefnisstjóra heilsueflandi samfélags þar sem fyrir lá að Rangárþing eystra yrði ekki með í samstarfinu og töldum við því að málið væri fallið um sjálft sig. Síðar kom í ljós að Ásahreppur samþykkti að vera með en þó með þeim fyrirvara að hin sveitarfélögin yrðu með í verkefninu. Hins vegar um áframhald á frístundastyrkjum þar sem ekki lá fyrir nægilega góð greinargerð um ávinninginn af verkefninu á yfirstandandi ári. Þar fannst okkur vantar frekar upplýsingar um þær íþrótta- og tómstundagreinar sem styrkirnir væru að nýtast í og frekari gögn sem sýndu fram á ávinning af þessu fyrirkomulagi. Hefur okkur verið lofað slíkri greiningu sem vonandi mun berast á nýju ári.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts lækkar

Álagningarhlutfall fasteignaskatta var lækkað annað árið í röð þar sem miðað er við að hækkun nemi einungis vísitöluhækkun en miðist ekki við fasteignamat. Það er mikið og stórt sanngirnismál fyrir íbúa. Eins voru holræsagjöld lækkuð til að koma til móts við íbúa enn frekar varðandi þetta.

Uppbygging grunnskóla og íþróttasvæðis

Áfram verður unnið að uppbyggingu grunnskólans á Hellu og sett hefur verið aukið fjármagn í íþróttavöllinn á Hellu þar sem lagt er upp með að koma upp gervigrasvelli og aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir.

Samningur við Samtökin ´78

Gerður hefur verið samningur við Samtökin ´78 sem fulltrúar D-lista lögðu til í byrjun þessa árs. Það gleðilega er að öll sveitarfélög sýslunnar eru aðilar að samningum og því mun standa til boða fræðsla um hinsegin málefni fyrir alla sýsluna.

Dagdvöl fyrir fólk með heilabilun og skylda sjúkdóma

Eitt af þeim málum sem við höfum sett á oddinn er að sveitarfélagið komi upp dagdvöl fyrir fólk með heilabilun og skylda sjúkdóma í samstarfi við Lund. Við teljum að forgangsröðun sé komin að þessum hópi samfélagsins sem hefur farið stækkandi. Hér er um mikilvægt lífsgæðamál að ræða fyrir fjölmarga íbúa sveitarfélagsins, bæði skjólstæðinga og aðstandendur. Unnið er að málinu nú þegar og bindum við vonir við að hægt verði að koma úrræðinu á fljótlega á nýju ári í einhverri mynd en leggjum jafnframt áherslu á að fundin verði varanleg lausn. Standa vonir okkar til að samstaða verði um málið í sveitarstjórninni.

Hvammsvirkjun

Því miður fór uppbygging Hvammsvirkjunar í uppnám á árinu rétt áður en til stóð að veita fyrirtækinu framkvæmdaleyfi. Nú hefur verið greitt úr þeim málum á vettvangi ríkisins og því ætti framkvæmdaleyfisumsókn að koma fyrir sveitarstjórn að nýju á árinu 2024.

Landmannalaugar

Málefni Landmannalauga voru mikið rædd á árinu. Þar tókst fámennum samtökum sem kenna sig við umhverfisvernd að setja uppbyggingu bílastæða í uppnám, en bílastæðin eru nauðsynleg til að hægt sé að stýra betur umferð á svæðinu og ná meiri árangri í vernd umhverfisins. Áður hafði uppsetning fatahengja við laugina sjálfa verði kærð sem jafnframt var til að auka aðbúnað og gera ásýndina snyrtilegri. Furðu sætir að samtök sem kenna sig við umhverfisvernd vilji torvelda aðgerðir til verndar viðkvæmri náttúru svæðisins. Afar brýnt er að takist að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir á svæðinu án tafar, ellegar er það mat mitt og raunar full samstaða um það í sveitarstjórninni að loka þurfi svæðinu þar til slíkar úrbætur hafa verið gerðar. Það einfaldlega þolir ekki frekari stjórnlausan ágang af manna völdum.

Fólksfjölgun og velmegð

Íbúum fjölgar áfram sem er jákvætt og útsvarstekjur hækka jafnt og þétt sem segir okkur að atvinnuástand er gott. Þó eitthvað virðist hafa hægt á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þá hefur uppbyggingin ekki stöðvast sem er jákvætt og vonandi fer allt á fullt aftur um leið og tekst að ná böndum á verðbólgunni enda virðist enginn skortur á eftirspurn eftir íbúðahúsnæði í sveitarfélaginu. Skipulag á nýju íbúðahverfi á Bjargstúni sem D-listinn setti í skipulagsferli á síðasta kjörtímabili hefur litið dagsins ljós og þar mun vonandi á næstu árum rísa glæsileg byggð og gefur okkur enn frekari möguleika til vaxtar. Eins bindum við vonir við að starfsemi fari af stað á nýju iðngarðasvæði við Strönd á kjörtímabilinu en þar eru sóknarfæri til aukinnar atvinnu- og verðmætasköpunar.

Almennt séð hefur árið gengið vel á vettvangi sveitarstjórnar, rekstur sveitarfélagsins gengur vel og útlit er fyrir góðan afgang þegar árið verður gert upp. Það er afar mikilvægt til að hægt sé að standa að nauðsynlegum framkvæmdum og eins á viðhaldi þeirra eigna sem við erum þegar með í rekstri en töluverð viðhaldsþörf er komin víða.

Ég þakka ykkur öllum góð samskipti og samstarf á árinu sem er að líða og óska ykkur farsældar á komandi ári.

Ingvar P. Guðbjörnsson
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra