Áramótakveðja

Við áramót

Þegar gera á upp árið 2023 á vettvangi sveitastjórnamála í Vestmannaeyjum þá kemur ýmislegt upp í hugann. Það verður flóknara raða því niður í pistil sem þennan ef maður ætlar að hafa hann það áhugaverðan að hann lesist til enda. Ekki eflir það andann við skriftirnar ef rétt er að umtalsverður hluti þjóðarinnar getur ekki lesið sér til gagns, miðað við kannanir. En við höldum í hefðirnar um jól og áramót og pistillinn verður skrifaður.

Erfiðara efnahagsumhverfi

Þegar gluggað er í greinar forsvarsmanna sveitarfélaga á Íslandi þá má búast við að þeir eru að stórum hluta sömu skrifin. Sveitarfélögin glíma öll við aukinn launakostnað sem breytist ekki nema með því að draga úr þjónustu við íbúana. Það er ekki í boði í dag að tala um hagræðingar eða þjónustu-skerðingar nema allt sé komið í kaldakol. Sveitarstjórnir eru að auki með lögbundnar skildur til að sinna þjónustu við hina ýmsu málaflokka þar sem ekkert val er um að draga úr þjónustu. Löggjafinn hefur einnig farið framúr sér með óhóflegum og tilgangslitlum lagasetningum sem kosta sveitarfélögin og atvinnulífið mikla fjármuni og gera ekkert annað en að draga úr þrótti samfélagsins.

Hvað varðar Vestmannaeyjar þá höfum við svo sannarlega fundið fyrir því að róðurinn þyngist. Efnahagsumhverfið hefur breyst á þann hátt að fjárfestingargeta okkar verður minni með hverju árinu sem líður. Sjóðir sem áður náði að halda í horfinu með fjármagnstekjum og aðhaldi í rekstri gefa nú eftir og stefnir í að þeir tæmast með næstu fjárfestingaverkefnum sem eru brýn. Þar erum við helst að tala um stækkun á Hamarsskóla sem mun þá einnig hýsa Tónlistarskólann auk nauðsynlegra úrbóta og uppbygginu á húsnæði Íþróttamiðstöðvarinnar.

Störfum saman – Vestmannaeyjar í fyrsta sæti

Samstarfið í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili hefur gengið með ágætum. Okkar fulltrúar í ráðum og nefndum hafa öll lagt töluvert til málanna, enda býr mikil reynsla í okkar fólki sem nýtist bæjarfélaginu. Þar er ábyrgð okkar mikil fyrir samfélagið þrátt fyrir að vera í minnihluta í bæjarstjórn.

Að mínu mati er áhugi almennings ekki mikill á störfum bæjarstjórnar eða fagráða. Það er ekkert nýtt að málefnin þykja lítið skemmtiefni. Á tímum þar sem möguleikar til afþreyingar verða sífellt fleiri, þá hef ég skilning á því að fólk skauti framhjá sveitarstjórnarmálum almennt. Það er liðin tíð að bæjarblöðin eða netmiðlar taki bæjarmálin föstum tökum og kryfji mál til mergjar með faglegri umfjöllun. Nú er einfaldast að afrita fundargerðir á vef Vestmannaeyjabæjar og birta á vefmiðlum og prentmiðlum án þess að fjalla á nokkurn hátt um málefnin. En fundargerðir eru að sjálfsögðu ekki mjög tæmandi fyrir þá vinnu og umræður sem hafa átt sér stað í aðdraganda niðurstöðunnar á viðkomandi málefni.

Samgöngur – innviðir

Þegar ég tók sæti í bæjarstjórn og bæjarráði eftir kosningarnar 2022 þá átti ég ekki von á þeim gríðarlega tíma sem fer í baráttuna hvað varða samgöngu- og innviðamálefni í Vestmannaeyjum. Hvort sem það er ríkissjóður, Landsnet eða veitufyrirtækin. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning að nýrri vatnslögn milli Lands og Eyja, þar sem rökin okkar fyrir tveimur leiðslum eru augljósar. Því miður þá eru aðstæður þannig að fjárfesting í vatnslögn milli Lands og Eyja telst ekki arðbær fjárfesting fyrir eigendur veitufyrirtækisins, þrátt fyrir þær skyldur sem fylgdu þegar Bæjarveitur Vestmannaeyja sameinuðust inn í HS-veitur fyrir rúmum 20 árum. Ríkið hefur sýnt vilja til að styðja við verkefnið með fjárframlagi sem dugar rúmlega fyrir virðisaukaskattinum sem ríkið innheimtir við framkvæmdina. Þrátt fyrir að við höfum samþykkt að vatnsgjöld hækki verulega í Eyjum við lagningu nýrrar vatnslagnar, þá hefur veitufyrirtækið ekki séð sóma sinn í því að koma verkinu af stað. Það er áhyggjuefni þegar fjárfestar verða veruleg hindrun við uppbyggingu innviða á landsbyggðinni og getur það á endanum orðið samfélaginu dýrt, ef málin þróast áfram með þessum hætti.

Í ársbyrjun 2023 kom upp bilun í sæstreng til Eyja sem varð til þess að atvinnustarfssemi komst í uppnám. Með góðri samvinnu Landsnets, HS veitna og fyrirtækjanna í Eyjum tókst að vinna að lausnum sem urðu til þess að nægt rafmagn var í boði til að bjarga loðnuvertíðinni. En þessi bilun sýndi hve tæpt atvinnulífið stendur ef treysta skal á einn sæstreng til Eyja. Nú er Landsnet með áætlanir um að leggja tvo sæstrengi til Eyja sumarið 2025 og uppfylla þar með skyldur sínar hvað varðar afhendingaröryggi og mun það gjörbreyta stöðu okkar í orkumálum. Jafnframt geta fyrirtæki dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis við vinnslu sjávarafurða, en það hefur ekki verið mögulegt vegna takmarkana í flutningskerfi Landsnets. En því fylgir auðvitað að yfirvöld verða að bretta upp ermar hvað varðar virkjunarkosti og koma þeim í framkvæmd. Öðruvísi förum við ekki í orkuskipti sem tíðrætt er um í ræðu og riti um þessar mundir.

Samgöngur á sjó við Eyjar hafa ekki þróast á þá leið sem vonir stóðu til með gerð Landeyjarhafnar. Bylting yfir sumartímann, en að margra mati hrein martröð um vetrartímann með mun fleiri ferðum til Þorlákshafnar en svartsýnustu menn höfðu sagt. Það eru vonbrigði þrátt fyrir fögur fyrirheit, að ekkert hefur verið gert sem hefur breytt stöðunni til þessa. Sífellt er jákvæðni fyrir bættum flugsamgöngum til Eyja yfir vetrartímann, en fjórar ferðir á viku er ekki nægileg tíðni á meðan Landeyjarhöfn virkar ekki betur. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að embættismenn í kerfinu hafi jafnvel áhrif á að tíðni flugsamgangna verði ekki með þeim hætti sem fjárveitingavaldið hefur samþykkt. Þar þurfum við í bæjarstjórn að gera betur með okkar þingmönnum og tryggja áætlunarflug til Vestmannaeyja alla þá mánuði sem öruggar siglingar í Landeyjarhöfn eru ekki tryggðar.

Kveikjum neistann – getum gert margt sjálf

Hvað varðar málefni okkar í Eyjum, þá gleðst ég yfir umfjöllun um skólastarfið í Eyjum. Þar hefur verið svo sannarlega verið tekið á málum yngstu nemenda með átaksverkefninu “Kveikjum neistann”. Einnig gleðilegt að sjá áhugann aukast á iðnmenntun í Framhaldsskóla Vestmannaeyja. Menntastofnanir þurfa miklu meira að horfa til þess að mennta fólkið okkar í þau störf sem gagnast samfélaginu og vonandi erum við einnig á réttri leið þar.

Á síðasta sumri fengum við þær góðu fréttir að oddviti okkar í Suðurkjördæmi , Guðrún Hafsteinsdóttir tók sæti sem dómsmálaráðherra í ríkisstjórn. Í hagsmunabaráttu okkar Eyjamanna hefur hún staðið sig vel og hún ávallt tilbúin að kynna sér vel okkar málefni og vinna með okkur. Það skiptir máli fyrir Suðurkjördæmi að hafa öflugan talsmann við ríkisstjórnarborðið. Hef ég miklar vonir og væntingar um hennar framlag á komandi ári, auk annara þingmanna Suðurkjördæmis í málefnum okkar Eyjamanna.

Það hefur alltaf pusað á okkur Eyjamenn og við höldum áfram að berjast fyrir okkar hlut í þjónustu ríkisins við Eyjarnar.

Ég þakka félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum og Eyjamönnum öllum fyrir samstarfið á árinu og vonandi komum við inn í nýtt ár með gleðina og bjartsýnina að vopni.

Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.