Áramótakveðja

Kæru félagar og íbúar í Árborg

Áramótin eru góður tími til að horfa yfir árið, hvað hafi verið gert vel og hvað megi læra af til að gera enn betur. Horfa síðan til framtíðar og leggja upp markmið næsta árs með bjartsýni og gleði að leiðarljósi.

Hálfnað verk þá hafið er

Það hefur margt áunnist í Sveitarfélaginu Árborg á árinu 2023. Erfiðar aðgerðir til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins hafa skilað árangri þrátt fyrir að ytri efnahagsaðstæður hafi lítið hjálpað á árinu. Skref í rétta átt en meðal verkefna sem ráðist var í er fækkun stöðugilda og minni yfirbygging á öllum sviðum sveitarfélagsins, forgangsröðun framkvæmda, sala eigna, uppfærsla á þjónustu við íbúa og lækkun annars rekstrarkostnaðar.

Eitt af markmiðum Sjálfstæðisflokksins í Árborg á kjörtímabilinu var að auka valfrelsi foreldra á mismunandi hugmyndafræði við rekstur leikskóla. Á árinu gerði sveitarfélagið samning við Hjallastefnuna leikskólar ehf. um að taka við rekstri leikskólans Árbæjar á Selfossi. Tel það vera jákvætt skref að auka valfrelsi foreldra og um leið rekstrarform innan leikskóla í Árborg.

Af öðrum verkefnum ársins var hafin rekstur í nýju skólahúsnæði Stekkjaskóla, fyrsta áfanga hreinsistöðvar á Selfossi var lokið, sala eigna gengið vel undir lok árs ásamt því að framkvæmdir hófust við að virkja nýja heitavatnsholu hjá Selfossveitum sem styður við áframhaldandi uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis í sveitarfélaginu.

Innan félagsstarfs Sjálfstæðisflokksins í Árborg urðu breytingar á stjórn Óðins og fulltrúaráðs á aðalfundi í haust. Ingvi Már Guðnason var kosinn formaður Sjálfstæðisfélagsins Óðins en hann tekur við af Magnúsi Gíslasyni sem hefur gegnt embættinu undandarin ár. Ólafur Hafsteinn Jónsson og Jóna Sigurbjartsdóttir hættu einnig í stjórn. Í nýrri stjórn Óðins eru þau Ingvi Már Guðnason, formaður, Brynhildur Jónsdóttir, Þórhildur Ingvadóttir, Olga Bjarnadóttir, Valur Stefánsson, Helgi Hjaltason, Ragnar Óskarsson en þeir þrír síðastnefndu koma nýir inn í stjórn. Guðmundur Ármann Pétursson var síðan kosinn formaður fulltrúaráðsins en hann tekur við af Ægi Óskari Gunnarssyni.

Vil ég þakka þeim Magnúsi, Ólafi Hafstein, Jónu og Ægi kærlega fyrir þeirra störf fyrir félögin. Margra ára reynsla sem liggur þarna að baki en það er gott að vita að við sem erum ný í starfinu getum áfram leitað til þeirra þegar á þarf að halda.

Vinnum saman til framtíðar

Ég horfi með bjartsýnum augum fram á árið 2024. Því þrátt fyrir að við nýtum öll þau tækifæri sem gefast til hagræðingar í rekstri þá eru mörg önnur spennandi verkefni framundan innan sveitarfélagsins. Áframhaldandi uppbygging leik- og grunnskólastarfsins, endurnýjun samninga við íþrótta- og frístundafélög, nýjar íbúða- og atvinnulóðir, framkvæmdir við hreinsistöð og göngu- og hjólastíg milli Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar ásamt áframhaldandi vinnu við grunn innviði samfélagsins líkt og öflun á heitu vatni. Nýleg útboð á lóðum innan Árborgar sýna að auki þá trú sem fjárfestar hafa á samfélaginu okkar. Það styrkir stöðu sveitarfélagsins en hagnaður af sölu eigna og byggingarréttinda minnkar þörf á lántöku í háu vaxtaumhverfi. Við erum að takast á við verkefnið í sameiningu og byggja grunn að aukinni hagsæld fyrir okkur íbúa, í Árborg okkar allra.

Ég vil fyrir hönd bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Árborg koma á framfæri hátíðarkveðju til íbúa Árborgar og allra landsmanna með ósk um farsæld og gott samstarf á nýju ári.

Bragi Bjarnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg