Áramótakveðja

Árið 2023 var fyrsta heila árið mitt sem bæjarstjóri Kópavogs. Árið hefur verið mjög viðburðaríkt, krefjandi á köflum en umfram allt skemmtilegt. Ég er mjög stolt af þeim verkefnum sem við sem gegnum forystu í bæjarfélaginu höfum þegar ýtt úr hlaði og sömuleiðis af þeim sem við höfum haldið áfram að sinna af elju. Nú þegar árið er senn á enda er ekki úr vegi að líta um öxl.

Hjá Kópavogsbæ höfum við með markvissum hætti ráðist í hagræðingu, þvert á svið bæjarins, og þær aðgerðir sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun 2023 hafa gengið eftir. Áfram verður leitað leiða til að hagræða í rekstrinum á næsta ári. Við munum meðal annars lækka kostnað í nefndum og ráðum með því að fækka fundum, sem mun skila bænum umtalsverðum sparnaði. Þá verður kortlagt hvernig unnt sé að ná hagkvæmari innkaupum, meðal annars með því að beina innkaupum bæjarins í gegnum vefverslun sem tryggir lægstu verðin hverju sinni. Hér eru aðeins nefnd tvö dæmi um aðgerðir sem við höfum þegar sett af stað. Áfram verður lögð áhersla á að skila góðum rekstri í lægri álögum sem allir bæjarbúar njóta góðs af. Þannig munu fasteignaskattar lækka á næsta ári til að koma til móts við hækkandi fasteignaverð sem ella hefði skilað bæjarsjóði enn hærri skattheimtu með tilheyrandi kostnaði íbúa.

Í umræðu í bæjarstjórn Kópavogs um fjárhagsáætlun næsta árs kom berlega í ljós hversu ólíka sýn bæjarfulltrúar hafa á það hvernig nýta eigi skattstofna bæjarins. Þannig kusu allir bæjarfulltrúar minnihlutans gegn því að lækka fasteignaskatta á Kópavogsbúa. Þess í stað gagnrýndu einstakir bæjarfulltrúar meirihlutann fyrir að vannýta tekjustofna bæjarins, bæði útsvar og fasteignaskatta. Gagnrýnin snerist því fyrst og fremst um að ekki væru meiri fjármunir sóttir úr vasa bæjarbúa til að styrkja tekjustofna bæjarins.

Þessi sýn bæjarfulltrúa á skattstofna einskorðast vissulega ekki við Kópavogsbæ. Allt of oft heyrum við stjórnmálamenn stíga fram með háleitar hugmyndir um aukin útgjöld en sjaldnar er rætt um hvort unnt sé að forgangsraða innan þess útgjaldaramma sem fyrir er.

„Kópavogsmódelið“ er ný nálgun í leikskólamálum sem voru í brennidepli á árinu. Í upphafi árs var settur af stað starfshópur til að greina skipulag og starfsumhverfi leikskóla með það að markmiði að móta tillögur sem draga úr veikindum og manneklu sem hafa einkennt leikskólaumhverfið í alltof langan tíma. Niðurstaðan var að auka verulega sveigjanleika í dvalartíma barna, tekjutengja leikskólagjöld og bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir sex tíma eða styttri vistun barna. Þessar breytingar hafa skilað góðum árangri, vistunartími barna hefur styst og mönnun gengur mun betur en undanfarin ár. Leikskólabörn upplifa minna álag og meiri stöðugleika í þjónustunni. Þá er ánægjulegt að segja frá að frá því breytingarnar tóku gildi hefur ekki einu sinni þurft að grípa til lokana á leikskólum bæjarins sökum veikinda starfsfólks en til samanburðar voru 212 lokunardagar í fyrravetur.

Við þurfum að vera óhrædd við breytingar og við sem gegnum forystu í bæjarfélaginu höfum haft það að markmiði.

Í menningarmálum bæjarins höfum við verið að endurskoða starfsemina með það að leiðarljósi að nýta betur fjármagn bæjarins. Áherslan hefur verið á að auka sjálfsafgreiðslu sem skilar hagræðingu í formi færri stöðugilda en um leið feta nýjar leiðir í starfseminni sem og bjóða upp á nýja og spennandi valkosti sem uppfylla betur þarfir og væntingar bæjarbúa og annarra gesta.

Að lokum vil ég minnast þess að að árið 2023 er árið sem Kópavogsbúar urðu 40.000. Það var einstaklega skemmtilegt að heilsa upp á nýfæddan íbúa í tilefni þessara tímamóta.

Árið er senn á enda og fram undan er viðburðaríkt ár þar sem áfram verður af nægu að taka. Ég sendi mínar bestu kveðjur til allra Sjálfstæðismanna um gleðilega jólahátíð og óskir um farsæld á nýju ári.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs