Áramótakveðja

Dalvíkurbyggð er öflugt og sérstakt sveitarfélag

Þrátt fyrir að vera frekar lítið sveitarfélag með um 1900 íbúa er Dalvíkurbyggð að reka nánast alla þjónustu. Dalvíkurbyggð rekur þrjár hafnir, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og félagslegar íbúðir.

Önnur fjárhagsáætlun núverandi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar var samþykkt samhljóða. Hagnaður á A hluta árið 2022 var 174 milljónir, útkomuspá fyriri árið 2023 er um 100 milljónir og 145 milljónir árið 2024. Hitaveita, fráveita og vatnsveita eru í ágætum rekstri en fyrirhugaðar eru töluverðar fjárfestingar tengdar viðhaldi á næstu árum. Hafnasjóður mun rétta úr kútnum á þessu ári eftir 36 milljóna króna tap árið 2022. Stórar ákvarðanir voru teknar í lok árs 2022 sem munu auka tekjur bæta reksturinn. Úttekt KPMG á rekstri og vinnufyrirkomulagi á höfnunum mun liggja fyrir í upphafi næsta árs.

Áætlaðar framkvæmdir árið 2023 voru um 400 milljónir en rauntalan mun verða um 200 milljónir. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir yfir 900 milljóna fjárfestingum og framkvæmdum, svo sem endurbætt slökkvistöð, nýr slökkvibíll, endurbætur á leikskólalóð við Krílakot, vatnstankur í Upsa, djúpdæla fyrir hitaveitu, gatnagerð, fráveituframkvæmdir og nýtt stálþil í Dalvíkurhöfn. Þrátt fyrir miklar framkvæmdir er ekki gert ráð fyrir nettólántöku. Skuldahlutfall Dalvíkurbyggðar er 68%.

Það hefur tekið tíma að komast inní viðamikinn rekstur og þjónustu sveitarfélagsins, þurft hefur að taka til í ýmsum málum og breyta vinnufyrirkomulagi. Það er mikilvægt í öllum rekstri að það sé skýr ábyrgðarlína, hver tekur ákvarðanir, hver ber ábyrgð á rekstri og þjónustu. Framkvæmdasviðið hefur tekið miklum breytingum.

Veitustjóri tók til starfa í lok árs og mun hafa yfirumsjón með hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Þessi öflugu þjónustufyrirtæki leggja grunn að auknum tækifærum í atvinnusköpun.

Skipulagsfræðingur tók til starfa í lok árs og mun stýra metnaðarfullum áformum um uppbyggingu í Dalvíkurbyggð. Nýtt aðalskipulag er í vinnslu. Deiliskipulög sem verða tilbúin árið 2024 eru fyrir miðbæ Dalvíkur, nýtt hverfi sunnan Dalvíkur, nýtt hverfi ofan Böggvisbrautar og nýtt hverfi á Árskógssandi. Árið 2024 byrjar vinna við deiliskipulag fyrir íbúða- og atvinnusvæði við Sandskeið. Breyting á deiliskipulagi við hólahverfi. Deiliskipulag við hesthúsin við Hringsholt. Breyting á deiliskipulagi Dalvíkurhafnar. Deiliskipulag hafnarsvæðis á Árskógssandi. Möguleg breyting deiliskipulags á Hauganesi og nú er í auglýsingu óskað eftir tillögum fyrir uppbyggingarsvæði ofan Hauganess.

Sjálfstæðisfélag Dalvíkurbyggðar og fólkið sem skipaði D lista í síðustu sveitarstjórnarkosningum er mjög öflugt og hefur látið til sín taka í nefndum og ráðum. Haldnir hafa verið þrír íbúafundir á haustmánuðum og ráðgert er að halda því áfram með mánaðarlegum fundum fram á vorið. Við höfum tekið fyrir málefni líðandi stundar og kynnt það sem við erum að vinna að í nefndarstörfum eða sveitarstjórn. Farið var yfir skýrslu Mannvits um virkjun Brimnesár þar sem kostnaður við virkjun er talin 1,5 milljarður með mögulegar tekjur uppá 50 milljónir. Sú leið verður ekki farin. Rætt var um aðra mögulega lausn sem væri að færa stíflu niður í gilið og nýta gamla stöðvarhúsið fyrir smávirkjun, mun ódýrari framkvæmd en hefur ekki verið kostnaðarmetin. Könnun meðal íbúa á haustmánuðum gaf til kynna vilja til að sveitarfélagið byggði upp virkjun en ekki að bjóða út vatnréttindin.

Farið var yfir stöðu bænda í Dalvíkurbyggð en miklar fjárfestingar hafa verið í mjólkurframleiðsla síðustu ár.

Skoðað var fyrirkomulag vetrarþjónustu og snjómoksturs í Dalvíkurbyggð og ekki síst í framdölum Svarfaðardals og Skíðadals.

Hafið er samtal um hvort sameining íþróttafélaga sé fýsileg en unnið verður áfram að því máli á næsta ári í nánu samráði við forsvarsfólk og félaga í íþróttafélögunum.

Kynning var á gjaldfrjálsum leikskóla eins og við settum fram í kosningunum og unnið verður með það áfram á næsta ári. Þá kynntum við fyrirhugaða uppbyggingu leikskólalóðar við Krílakot. Fjallað var um frístund og mögulega samþættingu grunnskóla, íþrótta og tómstundastarfs.

Byggðasafnið Hvoll hefur verið lokað síðan árið 2022 en fyrirhugaðar framkvæmdir við gamla skóla og uppsetningu safnsins þar var slegið af. Áfram er unnið að framtíðarstaðsetningu og upplýst var um spennandi möguleika í þeim efnum.

Fundur var haldinn með verktökum um útvistun verkefna og hvernig reynslan hefur verið í samstarfi við Dalvíkurbyggð. Það er mikilvægt fyrir verktaka að fá að vita af verkefnum snemma. Eykur möguleika þeirra til skipulagningar, gefur Dalvíkurbyggð lægri verð og býr til fyrirsjáanleika. Mikið var talað um að útboð, verðfyrirspurnir og óskir um framkvæmdir kæmu seint fram. Ekkert er því til fyrirstöðu að bjóða út eða útdeila verkum strax í janúar.

Dalvíkurbyggð tekur þátt í þróunarverkefninu Gott að eldast en með henni taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Einnig er unnið að hugmynd um að byggja á svæðinu nærri Dalbæ tveggja til þriggja hæða fjölbýli með 20 leiguíbúðum fyrir 60+ eða fólk í þjónustuþörf.

Á næsta ári verður mikilvægasta verkefnið á Íslandi að ná niður verðbólgu og vöxtum. Það kemur á óvart að á þessu ári hefur verið skortur á leiðandi aðilum. ASÍ og SA eru mögulega að ná leiðandi samtali og pólitískir leiðtogar geta ekki setið hjá. Málefni sem skipta fólk, fyrirtæki og opinberan rekstur öllu máli. Það ættu allir aðilar að vera tilbúnir til viðræðna um samstillt átak til að kveða niður verðbólguna, ná niður vöxtum og hætta höfrungahlaupi.

Hagræðing í útgjöldum komi í stað verðhækkana og gjaldskrárhækkana yfir 2,5% hjá opinberum aðilum og einkafyrirtækjum.

Vinnumarkaðsaðilar stilli launhækkunum í hóf til lengri tíma. Einkaaðilar hækki ekki laun launahæstu einstaklinganna umfram almenna þróun launa. Kostnaðarmat launahækkana fari ekki umfram 4,1%.

Með samstilltu átaki allra aðila hægist á hringekju verðbólgu, verðhækkana, launa og vaxta.

Núverandi verðbólga og vaxtakjör eru lamandi fyrir fólk og fyrirtæki. Hagsæld, kaupmætti og lífi fólks er raskað og það þarf vilja til að standa vörð um velsældina.

Í stjórn Sambands Íslenskra sveitarfélaga var samþykkt samhljóða eftirfarandi bókun þann 24. nóvember.

“Í ljósi efnahagsþróunar telur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að mikilvægt sé að horft verði til samstillts átaks til að kveða niður verðbólguna. Komi til þess þá er Sambandið tilbúið til að koma að slíku átaki.”

Við samþykkt fjárhagsáætlunar í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þann 28. nóvember lagði forseti sveitarstjórnar fram eftirfarandi bókun sem var samþykkt samhljóða.

“Sveitarstjórn Dalvíkurbygðar telur að mikilvægt sé að horft verði til samstillts átaks til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Komi til þess þá er Dalvíkurbyggð tilbúið til að koma að slíku átaki.”

Dalvíkurbyggð samþykkti gjaldskrárhækkanir um 4,9% en mun draga þessar hækkanir til baka í sameiginlegu átaki. Gert var ráð fyrir 6,7% launahækkun svo ef launaliðurinn hækkar aðeins um 4,1% er svigrúm fyrir Dalvíkurbyggð og sveitarfélög að mæta minni tekjum.

Það sem þarf að gera strax 2024 er að fylgja þjóðhagsspá sem er fyrir 2027.

Kjarasamningur með kostnaðarmati uppá 4,1% á ári minnst þriggja ára samningur.

Gjaldskrár eða verðlag hækki mest um 2,5%

Seðlabankinn lækki vexti um 2% og hefji svo lækkunarferli.

Eftir þennan stutta tíma í sveitarstjórn og pólitík slær mig að sjá að ákvarðanir eru teknar án þess að fólk átti sig á afleiðingum, kostnaði og rekstri til framtíðar. Mörg eru dæmin í nærumhverfinu en einnig um allt land. Opinbert fé er ekki ótakmarkað og ábyrgðarhluti að ráðstafa almannafé á hagkvæman hátt.

Gleðilegt nýtt ár, kærar þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og von um farsælt samstarf á komandi árum.

Freyr Antonsson

Forseti sveitarstjórnar í Dalvíkurbyggð.

Stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga