Færri ríkisstofnanir en jafnmargir starfsmenn?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Launþegar hjá hinu opinbera eru um 33% af heildarfjölda launafólks í landinu. Á undanförnum árum hefur launafólki í opinberum greinum fjölgað mun hraðar en í öðrum greinum. Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað hraðar en laun á almennum markaði og réttarstaða þeirra hefur verið styrkt. Einkafyrirtæki bregðast við vaxandi samkeppni með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald samhliða bættri þjónustu við viðskiptavini. Hið opinbera hefur ekki breytt skipulagi og starfsháttum í sama mæli.

Á árinu 2019 var embætti tollstjóra lagt niður og sameinað ríkisskattstjóra. Sameinuð stofnun ber  heitið Skatturinn. Sameiningin var afurð vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Í greinargerð með frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi vegna sameiningarinnar kom fram að gert var ráð fyrir miklum samlegðaráhrifum og hagræði. Meðal annars var vísað til aukinnar sjálfvirknivæðingar embættanna og aukins framboðs stafrænnar þjónustu.

Undirritaðri lék hugur á að vita hvaða áhrif sameiningin hefði haft á starfsmannafjölda sameinaðrar stofnunar. Samkvæmt skriflegu svari frá fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi hefur fækkað um eitt starf á þessu sviði. Ráðherra tiltekur þó að stöðugildum hafi, í tengslum við endurskipulagningu og hagræðingu, fækkað um 22 í kjölfar sameiningarinnar. Hins vegar hafi 21 starfsmaður verið ráðinn með auknum fjárframlögum í sérstakt átak í skatteftirliti á vegum skattyfirvalda. Var um að ræða varanlega hækkun á fjárheimildum Skattsins vegna aukinnar áherslu á skatteftirlit. Því er aðeins einum starfsmanni færra eftir sameiningu embættanna.

Ríkinu eru settar skorður í starfsmannahaldi sínu með ýmsum sérreglum sem undirrituð hefur reynt að breyta á vettvangi þingsins í því skyni að auka sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi og einfalda reglur um starfslok ríkisstarfsmanna. Þessar reglur gilda almennt ekki þegar um sameiningu ríkisstofnana er að ræða, en það getur þó ráðist af því hvaða leið er valin við sameiningu.

Hjá þinginu liggja þrjú frumvörp um sameiningar stofnana umhverfisráðuneytisins. Ef þau ná fram að ganga verða níu stofnanir gerðar að þremur. Þessar aðgerðir gera ráð fyrir a.m.k. 6-7% hagræðingu, m.a. vegna samnýtingar búnaðar, aukinnar samlegðar og sparnaðar í yfirbyggingu. Sömuleiðis á launakostnaður að minnka vegna færri stjórnenda eftir sameiningu. Önnur markmið eru ekki ljós varðandi starfsmannahald.

Ríkisendurskoðun gerir reglulega úttekt á stærðarhagkvæmni ríkisstofnana. Vonandi hefur náðst einhver hagræðing með sameiningu tollstjóra og ríkisskattstjóra. Sameining getur styrkt starfsemi, aukið yfirsýn og betrumbætt þjónustu. Þar sem starfsmannafjöldi hins opinbera hefur vaxið og verið eins mikil og raun ber vitni, vekur það þó nokkra furðu að hagræðing í starfsmannahaldi sé ekki sjálfstætt markmið við sameiningu ríkisstofnana. Það er nefnilega svo að hemill á ríkisútgjöldum með hlutfallslegri fækkun opinberra starfa á að geta leitt til skattalækkana í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þeirra munu allir njóta; líka og ekki síst ríkisstarfsmenn.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 20. desember 2023