Horfumst í augu við niðurstöðurnar
'}}

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Niður­stöður úr PISA 2022 bera ís­lensku skóla­kerfi ekki fag­urt vitni. Þær sýna versn­andi ár­ang­ur ís­lenskra skóla­barna sem mæl­ast und­ir OECD-meðaltali í stærðfræðilæsi, lesskiln­ingi og læsi á nátt­úru­vís­indi. Sé ein­ung­is litið á ár­ang­ur grunn­skóla­barna í Reykja­vík mæl­ist færni þeirra jafn­framt und­ir OECD-meðaltali og Norður­landameðaltali í öll­um mæld­um grein­um.

Lægra hlut­fall drengja en stúlkna nær grunn­hæfni í bæði lesskiln­ingi og læsi á nátt­úru­vís­indi. Þannig nær 61% drengja grunn­hæfni í læsi á nátt­úru­vís­indi á móti 68% stúlkna. Kynjamun­ur­inn er meiri þegar kem­ur að lesskiln­ingi en þar ná 53% drengja grunn­hæfni á móti 68% stúlkna. Þó má und­ir­strika að hvort sem litið er til stúlkna eða drengja er niðurstaðan óviðun­andi.

Þá vek­ur það tölu­verðar áhyggj­ur að nem­end­ur sem eiga for­eldra í lak­ari fé­lags- og efna­hags­legri stöðu koma verr út í könn­un­inni. Merki eru um að ójöfnuður auk­ist hvað varðar PISA-náms­ár­ang­ur á Íslandi, einkum í lesskiln­ingi. Þessi niðurstaða er skýr­asta birt­ing­ar­mynd þess að ekki megi varpa ábyrgðinni al­farið á heim­il­in, enda hafa ekki öll börn slík­an stuðning heima fyr­ir.

Úrbæt­ur og fram­far­ir

Eist­land mæl­ist efst Evr­ópuþjóða í PISA. Krist­ina Kallas mennta­málaráðherra Eist­lands seg­ir mik­il­vægt að upp­lýsa skól­ana um gengi nem­enda þeirra, svo skól­arn­ir geti metið styrk­leika sína og horft til þess sem þarf að bæta. Eist­ar nýti niður­stöðurn­ar til að skipu­leggja skóla­starfið með það að mark­miði að styrkja nem­end­ur.

Sömu sögu má segja af Finn­landi, sem mæl­ist efst Norður­landaþjóða. Þar hafa skóla­stjórn­end­ur aðgang að niður­stöðum PISA og nota gögn­in til að meta tæki­færi til úr­bóta og stuðla að fram­förum.

Full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks telja nauðsyn­legt að fara sömu leið og lögðu fram til­lögu þess efn­is á fundi borg­ar­stjórn­ar síðastliðinn þriðju­dag. PISA-könn­un­in er gagn­leg mæl­ing á skóla­kerf­um inn­an OECD, sem því miður hef­ur gefið skóla­kerfi Reykja­vík­ur slæma ein­kunn. Kost­ir þess að afla frek­ari upp­lýs­inga um niður­stöður grunn­skóla Reykja­vík­ur í PISA 2022 eru fjöl­marg­ir, en með upp­lýs­inga­öfl­un­inni mætti gefa skóla­stjórn­end­um öfl­ugt tæki til að greina van­kanta í skóla­starf­inu og ráðast í um­bæt­ur.

Jöfn tæki­færi og virk þátt­taka

Reyk­vísk­ir skatt­greiðend­ur munu á næsta ári verja rúm­lega 73 millj­örðum í skóla­kerfið í borg­inni, en kerfið í heild hef­ur mik­il­vægu hlut­verki að gegna hvað viðkem­ur málþroska og læsi barna. Það er eðli­legt að borg­ar­stjórn geri þá kröfu að kerf­in sem við stýr­um og fjár­mögn­um skili ár­angri. Til þess þarf að nýta aðgengi­leg­ar upp­lýs­ing­ar svo skól­arn­ir geti sett sér mæl­an­leg mark­mið í þágu um­bóta og fram­fara.

Skóla­kerfið er eitt mik­il­væg­asta jöfn­un­ar­tækið sem ís­lenskt sam­fé­lag býr yfir. Það er mik­il­væg grunnstoð sem verður að geta tryggt öll­um börn­um þá grunn­færni sem reyn­ast mun nauðsyn­leg svo þau geti notið jafnra tæki­færa og orðið virk­ir þátt­tak­end­ur í okk­ar sam­fé­lagi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2023.