Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Við gleymum stundum á hversu undraskömmum tíma mannkynið hefur komist úr örbirgð til álna. Það sem tekur Breta í dag eina klukkustund að framleiða tók 28 stundir að framleiða árið 1800. Með öðrum orðum hefur framleiðni vinnuafls 28-faldast. Sum ríki hafa náð sams konar framförum á enn skemmri tíma, eins og Suður-Kórea einungis frá árinu 1960. Hér á Íslandi höfum við séð álíka þróun. Landsframleiðsla á mann hefur frá 1870 aukist 28-falt, sem er eðli máls samkvæmt nátengt undirliggjandi framleiðniþróun á sama tíma. Það er kannski klisja og kalt, en án þessarar framleiðniaukningar myndum við enn hírast í moldarkofum með ekkert rafmagn, ekkert heitt vatn, án nútíma lyfja eða heilbrigðistækni. Fátt myndi minna á nútímann.
Í dag virðist ákveðinnar tortryggni gæta gagnvart hagvexti, sem er upp að vissu marki skiljanlegt enda er hagvöxtur ekki upphaf og endir alls. Með því er þó stundum verið að tortryggja framangreindar framfarir – að nýta tíma fólks betur til þess að bæta lífskjör. Þó að við þurfum ætíð að horfa á hlutina í heildstæðu samhengi þá búum við ekki enn við þann lúxus að geta hunsað tækifærin í aukinni framleiðni eða hagvexti á mann, til einföldunar. Það er gömul og góð lausn. Við þurfum ekki nema eitt augnablik að hugsa um kröfur nútímans og áskoranir framtíðarinnar. Tökum þrjú dæmi.
Stöðnun = kaupmáttarrýrnun
Í fyrsta lagi erum við, líkt og nær allar þjóðir heims, að eldast hratt. Það þýðir að hlutfall vinnandi borgara á móti eldri borgurum mun falla skarpt næstu áratugi. Án framleiðnivaxtar og að óbreyttu mun kaupmáttur á hvern einstakling minnka í sama hlutfalli. Samhliða öldrun þjóðarinnar mun kostnaður við heilbrigðisþjónustu, sem er í dag að langmestu leyti á herðum hins opinbera, stóraukast. Nýleg greining McKinsey bendir á að kostnaður við Landspítalann muni aukast um 90% til ársins 2040. Jafnvel þótt ráðist verði í stórtækar og vel heppnaðar aðgerðir mun kostnaðurinn samt stóraukast. Við þurfum ekki síður að auka framleiðni til að lífeyrissjóðir geti ávaxtað fjármuni og staðið þannig við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðfélögum.
Í öðru lagi eru kröfur nútímans um meiri kaupmátt launa afar skýrar nær hvert sem litið er. Ekki að undra, sérstaklega í núverandi verðbólgu- og vaxtaumhverfi. Í sjálfu sér væri hægt að leysa það með einfaldri lagabreytingu og lækka tekjuskatt en staðan er sú að krafan um inngrip ríkisins og bjargir þess við hinum ýmsu málum er líka rík sem dregur úr vilja alltof margra flokka til að lækka skatta. Mér hugnast sú nálgun ekki en staðan er einfaldlega þessi. Við búum ekki til eitthvað úr engu svo hvort sem við viljum bæta opinbera þjónustu eða lækka skatta er aukin framleiðni ekki bara besta heldur augljósasta leiðin til þess. Sjálf vil ég hvort tveggja, þó að hið fyrrnefnda sé alls ekki það sama og að auka þjónustu ríkisins eða að ríkið veiti alla þjónustu sem það fjármagnar.
Í þriðja lagi er það kall nútímans á styttri vinnuviku og almennt séð betri vinnutíma. Til að slíkt sé raunhæft og rýri ekki kaupmátt er nauðsynlegt að við nýtum tímann okkar betur: Aukum framleiðni.
Framleiðni í forgang
Kostir þess að auka framleiðni blasa við og hægt væri að telja til mun fleiri rök. Því eru vonbrigði að sífellt virðist hægja á vexti framleiðni og hefur hún aðeins vaxið um 1% á ári síðustu fimm ár og þar af dregist saman fyrstu níu mánuði ársins. Í dag tekur um 60 ár að tvöfalda framleiðni en í kringum aldamótin, hvað þá fyrr, tók það um 20 ár. Þrátt fyrir að vandamál þróunarinnar blasi við er algjör skortur á umræðu um framleiðni á hinu pólitíska sviði og víðar, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.
Við getum ekki horft á þróun framleiðni með tómlæti samhliða kröfum og áskorunum nútímans. Við þurfum að horfa í hvert horn hjá hinu opinbera og leita leiða til að nýta peninga og þar af leiðandi starfskrafa betur. Það eykur framleiðni. Við þurfum líka að líta í hvert horn í rekstrarumhverfi atvinnulífsins. Erum við að leggja áherslu á réttum stöðum? Erum við atvinnulífinu fjötur um fót svo það nær ekki að auka framleiðni? Svörin eru flókin en við höfum ekki valkost um annað en að reyna að komast að þeim, nema við séum tilbúin að sætta okkur við stöðnun eða einfaldlega lakari lífskjör.