Gömul og góð lausn
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Við gleym­um stund­um á hversu undra­skömm­um tíma mann­kynið hef­ur kom­ist úr ör­birgð til álna. Það sem tek­ur Breta í dag eina klukku­stund að fram­leiða tók 28 stund­ir að fram­leiða árið 1800. Með öðrum orðum hef­ur fram­leiðni vinnu­afls 28-fald­ast. Sum ríki hafa náð sams kon­ar fram­förum á enn skemmri tíma, eins og Suður-Kórea ein­ung­is frá ár­inu 1960. Hér á Íslandi höf­um við séð álíka þróun. Lands­fram­leiðsla á mann hef­ur frá 1870 auk­ist 28-falt, sem er eðli máls sam­kvæmt ná­tengt und­ir­liggj­andi fram­leiðniþróun á sama tíma. Það er kannski klisja og kalt, en án þess­ar­ar fram­leiðniaukn­ing­ar mynd­um við enn hír­ast í mold­ar­kof­um með ekk­ert raf­magn, ekk­ert heitt vatn, án nú­tíma lyfja eða heil­brigðis­tækni. Fátt myndi minna á nú­tím­ann.

Í dag virðist ákveðinn­ar tor­tryggni gæta gagn­vart hag­vexti, sem er upp að vissu marki skilj­an­legt enda er hag­vöxt­ur ekki upp­haf og end­ir alls. Með því er þó stund­um verið að tor­tryggja fram­an­greind­ar fram­far­ir – að nýta tíma fólks bet­ur til þess að bæta lífs­kjör. Þó að við þurf­um ætíð að horfa á hlut­ina í heild­stæðu sam­hengi þá búum við ekki enn við þann lúx­us að geta hunsað tæki­fær­in í auk­inni fram­leiðni eða hag­vexti á mann, til ein­föld­un­ar. Það er göm­ul og góð lausn. Við þurf­um ekki nema eitt augna­blik að hugsa um kröf­ur nú­tím­ans og áskor­an­ir framtíðar­inn­ar. Tök­um þrjú dæmi.

Stöðnun = kaup­mátt­ar­rýrn­un

Í fyrsta lagi erum við, líkt og nær all­ar þjóðir heims, að eld­ast hratt. Það þýðir að hlut­fall vinn­andi borg­ara á móti eldri borg­ur­um mun falla skarpt næstu ára­tugi. Án fram­leiðni­vaxt­ar og að óbreyttu mun kaup­mátt­ur á hvern ein­stak­ling minnka í sama hlut­falli. Sam­hliða öldrun þjóðar­inn­ar mun kostnaður við heil­brigðisþjón­ustu, sem er í dag að lang­mestu leyti á herðum hins op­in­bera, stór­aukast. Ný­leg grein­ing McKins­ey bend­ir á að kostnaður við Land­spít­al­ann muni aukast um 90% til árs­ins 2040. Jafn­vel þótt ráðist verði í stór­tæk­ar og vel heppnaðar aðgerðir mun kostnaður­inn samt stór­aukast. Við þurf­um ekki síður að auka fram­leiðni til að líf­eyr­is­sjóðir geti ávaxtað fjár­muni og staðið þannig við skuld­bind­ing­ar sín­ar gagn­vart sjóðfé­lög­um.

Í öðru lagi eru kröf­ur nú­tím­ans um meiri kaup­mátt launa afar skýr­ar nær hvert sem litið er. Ekki að undra, sér­stak­lega í nú­ver­andi verðbólgu- og vaxtaum­hverfi. Í sjálfu sér væri hægt að leysa það með ein­faldri laga­breyt­ingu og lækka tekju­skatt en staðan er sú að kraf­an um inn­grip rík­is­ins og bjarg­ir þess við hinum ýmsu mál­um er líka rík sem dreg­ur úr vilja alltof margra flokka til að lækka skatta. Mér hugn­ast sú nálg­un ekki en staðan er ein­fald­lega þessi. Við búum ekki til eitt­hvað úr engu svo hvort sem við vilj­um bæta op­in­bera þjón­ustu eða lækka skatta er auk­in fram­leiðni ekki bara besta held­ur aug­ljós­asta leiðin til þess. Sjálf vil ég hvort tveggja, þó að hið fyrr­nefnda sé alls ekki það sama og að auka þjón­ustu rík­is­ins eða að ríkið veiti alla þjón­ustu sem það fjár­magn­ar.

Í þriðja lagi er það kall nú­tím­ans á styttri vinnu­viku og al­mennt séð betri vinnu­tíma. Til að slíkt sé raun­hæft og rýri ekki kaup­mátt er nauðsyn­legt að við nýt­um tím­ann okk­ar bet­ur: Auk­um fram­leiðni.

Fram­leiðni í for­gang

Kost­ir þess að auka fram­leiðni blasa við og hægt væri að telja til mun fleiri rök. Því eru von­brigði að sí­fellt virðist hægja á vexti fram­leiðni og hef­ur hún aðeins vaxið um 1% á ári síðustu fimm ár og þar af dreg­ist sam­an fyrstu níu mánuði árs­ins. Í dag tek­ur um 60 ár að tvö­falda fram­leiðni en í kring­um alda­mót­in, hvað þá fyrr, tók það um 20 ár. Þrátt fyr­ir að vanda­mál þró­un­ar­inn­ar blasi við er al­gjör skort­ur á umræðu um fram­leiðni á hinu póli­tíska sviði og víðar, af ein­hverj­um óskilj­an­leg­um ástæðum.

Við get­um ekki horft á þróun fram­leiðni með tóm­læti sam­hliða kröf­um og áskor­un­um nú­tím­ans. Við þurf­um að horfa í hvert horn hjá hinu op­in­bera og leita leiða til að nýta pen­inga og þar af leiðandi starfs­krafa bet­ur. Það eyk­ur fram­leiðni. Við þurf­um líka að líta í hvert horn í rekstr­ar­um­hverfi at­vinnu­lífs­ins. Erum við að leggja áherslu á rétt­um stöðum? Erum við at­vinnu­líf­inu fjöt­ur um fót svo það nær ekki að auka fram­leiðni? Svör­in eru flók­in en við höf­um ekki val­kost um annað en að reyna að kom­ast að þeim, nema við séum til­bú­in að sætta okk­ur við stöðnun eða ein­fald­lega lak­ari lífs­kjör.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. desember 2023.