Einboðið að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki

„Ég fagna þessari sýn sem er í takt við stefnu annarra norrænna landa og gefur okkur tækifæri til að standa okkur mun betur í því að veita öfluga heilbrigðisþjónustu til almennings hér á landi,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir varaþingmaður sem situr í dag á Alþingi fram að áramótum vegna svars heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hennar um liðskiptaaðgerðir.

Í svari ráðherra segir m.a.: „Samningagerð við sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtæki um tiltekna þjónustu sem veitt er í opinbera kerfinu er hluti af þeirri þróun að tryggja rétta þjónustu á réttum stað. Með samningum tryggjum við aðgengi að tímalegu og jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þeir gera okkur betur kleift að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna í landinu heildstætt.“

Þar segir einnig varðandi þann lið í fyrirspurn Berglindar Hörpu um hvort ráðherra finndist að gera ætti samninga til einkaaðila til framtíðar: „Árið 2023 var veitt fjár­magn til samn­inga­gerðar við sjálf­stætt starf­andi þjón­ustuaðila um liðskiptaaðgerðir sem hefðu það mark­mið að stytta bið eft­ir aðgerð og létta á biðlist­um sjúkra­húsa eft­ir liðskiptaaðgerðum. Sú viðbót hef­ur sýnt að með henni eig­um við nú mögu­leika á að ná mark­miðum um æski­leg­an aðgerðafjölda fyr­ir landið allt,“

Um 2.000 manns á biðlista

Um 2.000 manns eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerði. Kostnaður við liðskiptaaðgerðir er nokkuð lægri hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum en á Landspítala. Verðmunurinn á hverri aðgerð hleypur á bilinu 700-845 þúsund. Það er því hagkvæmara að nýta einkaframtakið og jafnframt styttir það biðlistana.

Í svari ráðherrans kemur fram að ríkið greiði rúmlega 1,9 milljónir fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm og tæplega 2 milljónir fyrir liðskiptaaðgerð á hné á Landspítalanum. Fyrir aðgerð á Klínikinni eru greiddar rétt rúmlega 1,2 milljónir fyrir aðgerð, hvort sem það er á mjöðm eða á hné. Í Orkuhúsinu eru sömuleiðis greiddar 1,2 milljónir og tæplega 1,1 milljón hjá Cosan.

Fram kemur að verðlagning byggist á niðurstöðu útboðs frá því í mars sem var undanfari samninga við þjónustuveitendur vegna liðskiptaaðgerða á yfirstandandi ári.

Ríkið eitt getur ekki staðið undir öflugri heilbrigðisþjónustu.

Í viðtali við Morgunblaðið segir Berglind Harpa að tölurnar komi sér ekki á óvart. Hún telji einboðið að gera eigi samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki um veitingu annarrar heilbrigðisþjónustu.

„Ég er ánægð með þessi svör því þau sýna hversu mik­il­vægt það er að gera samn­inga við einka­rek­in heil­brigðis­fyr­ir­tæki,“ seg­ir hún. Þá segir hún óásættanlegt hve langir biðlistar eru fyrir hina ýmsu heilbrigðisþjónustu hérlendis.

„Það á ekki að líðast að við séum með þúsund­ir manna á biðlist­um árum sam­an þegar við erum með öfl­ug heil­brigðis­fyr­ir­tæki á einka­markaði sem hægt er að semja við, og vinna þannig á list­un­um,“ segir hún og einnig:  „Ríkið eitt get­ur ekki staðið und­ir öfl­ugri heil­brigðisþjón­ustu. Við erum eina Norður­landaþjóðin sem þrá­ast við að gera samn­inga við einka­rek­in heil­brigðis­fyr­ir­tæki.“

Svar ráðherra má finna hér.