Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Nýbirtar niðurstöður úr Pisa-könnuninni 2022 sýna að íslenskir grunnskólar glíma við alvarlegan vanda. Ísland er í sjötta neðsta sæti allra OECD-landa samkvæmt heildarniðurstöðu könnunarinnar. Þá lækkar ekkert OECD-ríki jafnmikið á milli kannana og Ísland.
Pisa-könnuninni er ætlað að mælta grunnfærni fimmtán ára barna við lok tíu ára skólaskyldu og hversu vel skólakerfið hefur undirbúið þau fyrir næstu skref í námi eða á vinnumarkaði.
Tölurnar tala sínu máli. Hlutfall íslenskra nemenda sem búa yfir grunnhæfni í stærðfræðilæsi er 66%, grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi 64% og grunnhæfni í lesskilningi 60%.
Óæskileg þróun
40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa því ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi samkvæmt könnuninni.
Hlutfall fimmtán ára nemenda sem búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi hefur hækkað um 38% frá fyrri könnun árið 2018. 47% fimmtán ára pilta búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi, samanborið við 34% árið 2018. Hjá stúlkum er hlutfallið 32%, samanborið við 19% árið 2018. Hjá báðum hópum nemur þessi óæskilega aukning um 13 prósentustigum á milli kannana.
Kunnátta íslenskra nemenda í stærðfræðilæsi er mun lakari en annars staðar á Norðurlöndum og er einnig undir meðaltali OECD-landa. Talið er að um 66% íslenskra nemenda búi yfir grunnhæfni í stærðfræðilæsi á meðan meðaltal OECD-landanna er 69% og Norðurlandanna um 72%.
Læsi á náttúruvísindi
Íslenskir nemendur standa sig mun síður í læsi á náttúruvísindi en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum samkvæmt könnuninni. Á Íslandi er talið að um 64% búi yfir grunnhæfni í greininni, á Norðurlöndum er hlutfallið 75%, og meðaltalið í OECD-löndunum er 76%. Frá síðustu könnun hefur frammistöðu í þessari grein hrakað meira hérlendis að meðaltali en í OECD-löndunum og í hinum norrænu löndunum.
Fá afburðanemendur að njóta sín?
Ein leið til að mæla grunnskólakerfi er að meta hversu vel það kemur til móts við þá nemendur sem skara fram úr í námi, þ.e. afburðanemendur. Fá þeir hvatningu til að nýta hæfileika sína sem best? Fá þeir þjónustu í samræmi við getu og verkefni við hæfi? Hvað segja tölurnar?
Talið er að nemendur sem búa yfir afburðahæfni í lesskilningi séu 3% hérlendis en 7% annars staðar á Norðurlöndum og í OECD-ríkjunum.
Talið er að nemendur sem búa yfir afburðahæfni í náttúrulæsi séu um 2% hérlendis, samanborið við 7% að meðaltali í OECD-löndunum og 8% annars staðar á Norðurlöndum.
Talið er að nemendur sem búa yfir afburðahæfni í stærðfræðilæsi séu um 5% hérlendis, samanborið við 8% annars staðar á Norðurlöndum og 9% í OECD-löndunum.
Í skýrslu Menntamálastofnunar um könnunina segir að það sé verulegt áhyggjuefni að einungis örfáir nemendur hérlendis teljist til afburðanemenda í samanburði við önnur norræn lönd. Hér er verk að vinna og augljóst að bráðgerir nemendur verða að fá betri þjónustu í skólakerfi okkar.
Bæta þarf menntun
Árangur Íslands er slakur og fer versnandi samkvæmt könnuninni. Slíkt er óviðunandi á sama tíma og alþjóðleg samkeppni um góðan og vel menntaðan mannauð fer sífellt harðnandi. Á tímum tæknibyltingar er mikilvægt að allt ungt fólk hafi grunnfærni í lesskilningi, stærðfræði og náttúruvísindum og að sem flestir búi yfir djúpri kunnáttu í þessum grundvallargreinum. Óviðunandi er að svo margir nemendur geti ekki lesið sér til gagns eftir tíu ára skólagöngu.
Slakur árangur í Pisa 2022 krefst þess að gripið verði til úrbóta í íslensku menntakerfi. Rýna þarf könnunina vel og efna í framhaldinu til víðtækra umræðna um gæði menntunar hérlendis og stöðu grunnskólanna í því sambandi.
Æskilegt er að teknar verði saman greinargóðar upplýsingar um stöðu hvers skóla fyrir sig og viðkomandi skólastjórnendum gefinn kostur á að nýta þær til umbóta í starfi sínu.
Setja verður raunhæf markmið og mæla árangur reglulega til að sýna hvort við séum á réttri leið í umbótastarfinu. Mikilvægt er að nýta foreldra í sem ríkustum mæli í þessu starfi enda er vitað að þátttaka þeirra í námi barna sinna stuðlar að velgengni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. desember 2023.