Mörg tækifæri til ráðdeildar í Reykjavík

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar er ekki sjálf­bær og stend­ur borg­in frammi fyr­ir mikl­um skulda­vanda. Sam­kvæmt fyr­ir­liggj­andi frum­varpi að fjár­hags­áætl­un mun sam­stæða borg­ar­inn­ar auka skuld­ir sín­ar um 69 millj­arða króna á tveim­ur árum 2023-2024. Munu skuld­ir henn­ar aukast um 44 millj­arða í ár sam­kvæmt út­komu­spá og um 25 millj­arða á kom­andi ári. Þetta kem­ur fram í fyr­ir­liggj­andi frum­varpi að fjár­hags­áætl­un borg­ar­inn­ar sem ligg­ur nú fyr­ir borg­ar­stjórn til af­greiðslu.

Ljóst er að grípa verður til víðtækra aðgerða til að ná tök­um á fjár­mál­um Reykja­vík­ur­borg­ar, ná jafn­vægi í rekstri og stöðva skulda­söfn­un. Svo­kölluð aðgerðaáætl­un í fjár­mál­um, sem vinstri meiri­hlut­inn kynnti í árs­lok 2023, hef­ur skilað litl­um sem eng­um ár­angri.

Þegar rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar er skoðaður sést að víða er bruðlað og hægt væri að ná mikl­um ár­angri við sparnað og hagræðingu ef vilji væri fyr­ir hendi. Yf­ir­stjórn Reykja­vík­ur­borg­ar gæti byrjað á að spara hjá sjálfri sér enda hef­ur kostnaður við miðlæga stjórn­sýslu auk­ist mjög á und­an­förn­um árum. Miklu víðar í borg­ar­kerf­inu væri hægt að hagræða án þess að það kæmi niður á þjón­ustu við íbúa.

Frest­un fram­kvæmda

Unnt er að fresta ýms­um fram­kvæmd­um í borg­inni, sem ekki eru bráðnauðsyn­leg­ar. Sem dæmi má nefna fram­kvæmd­ir á svo­nefndu Hlemmsvæði en á kom­andi ári á að verja 600 millj­ón­um króna til þeirra. Þá mætti vel hætta við ýms­ar óþarfar fram­kvæmd­ir, t.d. fækk­un bíla­stæða í íbúa­göt­um, sem íbú­ar hafa ekki beðið um enda eru viðkom­andi stæði í fullri notk­un þeirra.

Útboð

Nýta mætti útboð í rík­ari mæli en nú er gert til að knýja fram hagræðingu hjá borg­inni, enda eru þau þekkt leið til að bæta nýt­ingu skatt­fjár.

Reykja­vík­ur­borg er lík­lega eina sveit­ar­fé­lag lands­ins sem býður ekki út sorp­hirðu. Sjálfsagt er að kanna hvort ekki sé unnt að ná fram sparnaði með því að bjóða rekst­ur sorp­hirðunn­ar út. Hægt væri að gera slíka breyt­ingu í áföng­um og hagræða í sam­ræmi við starfs­manna­veltu svo ekki þyrfti að segja upp starfs­fólki í tengsl­um við breyt­ing­arn­ar. Byrja mætti í völd­um hverf­um og meta reynsl­una áður en lengra væri haldið.

Á næsta ári á að verja 2.600 millj­ón­um króna til fjár­fest­inga í áhöld­um, tækj­um og hug­búnaði þjón­ustu- og ný­sköp­un­ar­sviðs borg­ar­inn­ar. Hægt væri að hagræða veru­lega á þessu sviði og Reykja­vík­ur­borg ætti ekki að reka um­fangs­mikið hug­búnaðar­hús eins og nú er gert.

Sala eigna

Sjálfsagt er að skoða sölu eigna hjá borg­inni í því skyni að grynnka á skuld­um ef þær eru ekki hluti af grunn­rekstri henn­ar. Ljós­leiðar­inn ehf. er dæmi um slíkt enda er rekst­ur fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is hvorki hluti af grunn­rekstri Reykja­vík­ur­borg­ar né hefðbundn­um grunn­rekstri Orku­veit­unn­ar.

Flutn­ing­ur flug­vall­ar í Hvassa­hraun

Sam­kvæmt frum­varp­inu á að verja 20 millj­ón­um króna til út­gjaldaliðar­ins „Flutn­ing­ur Reykja­vík­ur­flug­vall­ar í Hvassa­hraun“. Þess­ar millj­ón­ir, sem mætti auðvitað spara, sýna at­hygl­is­verða þraut­seigju meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar, Pírata og Viðreisn­ar í þeirri viðleitni sinni að flæma flug­vall­ar­starf­semi úr borg­inni.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokk­ur tæki­færi af mörg­um til hagræðing­ar hjá Reykja­vík­ur­borg. Nýta þarf slík tæki­færi til að koma rekstr­in­um í jafn­vægi og stöðva skulda­söfn­un borg­ar­inn­ar, sem kom­in er yfir hættu­mörk.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2023.