Tækifærin liggja í grasinu

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Fyrr í haust lagði ég fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um lyfja­hamp á Alþingi. Í til­lög­unni felst að Alþingi álykti að fela heil­brigðisráðherra að skipa starfs­hóp sem hafi það hlut­verk að út­búa frum­varp sem heim­ili rækt­un lyfja­hamps til kanna­bis­rækt­un­ar og fram­leiðslu og dreif­ingu á kanna­bis­lyfj­um í lækn­inga­skyni. Mark­mið til­lög­unn­ar er í grunn­inn tvíþætt: að lina þján­ing­ar fólks og skapa at­vinnu­tæki­færi.

Stór­sókn í lyfja­fram­leiðslu

Umræða um mögu­lega lög­leiðingu kanna­bis­efna hér á landi er ekki ný af nál­inni. Það er mik­il­vægt að við fylgj­umst vel með þeirri framþróun sem hef­ur átt sér stað í mála­flokkn­um á síðustu árum og gæt­um þess að missa ekki af lest­inni. Við gerð þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar leit ég til til­rauna­verk­efn­is í Dan­mörku sem hófst árið 2018. Sam­bæri­legt verk­efni hér á landi myndi byggja á rann­sókn­um og gæti jafn­vel skapað ný tæki­færi til ný­sköp­un­ar í land­búnaði og ekki síst í lyfjaiðnaði á orku­rík­um svæðum, til að mynda á Suður­landi og á Suður­nesj­um.

Með til­lög­unni er ég ekki að leggja til lög­leiðingu kanna­bis­efna í afþrey­ing­ar­skyni. Ég tel það þó ekki rétt­læt­an­legt að meina sjúk­ling­um aðgang að kanna­bis­vör­um sem gætu stór­bætt lífs­gæði, af þeirri ástæðu einni að ein­hverj­ir kynnu að mis­nota þær. Ljóst er að lang­vinn­ir verk­ir eru stórt sam­fé­lags­legt vanda­mál og mik­ill kostnaður fyr­ir sam­fé­lagið í formi tapaðrar starfs­getu og álags fyr­ir heil­brigðis­kerfið. Þrátt fyr­ir að sann­an­ir fyr­ir já­kvæðum áhrif­um kanna­biss sem lyfs í lækn­is­fræðileg­um til­gangi séu enn sem komið er tak­markaðar tel ég að ávinn­ing­ur af lækn­is­fræðileg­um kanna­bis­vör­um vegi þyngra en nei­kvæð áhrif. Ég hef fundið fyr­ir mikl­um áhuga á mál­inu og hvatn­ingu utan úr sam­fé­lag­inu, ekki síst frá ein­stak­ling­um sem sjálf­ir hafa þurft að glíma við lang­vinna verki.

Fjár­hags­leg verðmæti

Auk þeirr­ar gagn­semi lyfja­hamps sem fjöl­marg­ar rann­sókn­ir benda til, m.a. til meðferðar á floga­veiki, kvíða, vöðvakrampa og geðrofi, tel ég einnig gríðarlega at­vinnu­mögu­leika fel­ast í rækt­un kanna­bisplantna hér á landi. Árið 2021 voru kanna­bis­vör­ur í Banda­ríkj­un­um seld­ar fyr­ir alls 25 millj­arða banda­ríkja­dala, þar af 65% í lækn­inga­skyni. Áætlan­ir gera ráð fyr­ir að kanna­bis­vör­ur verði seld­ar fyr­ir allt að 100 millj­arða banda­ríkja­dala árið 2028. Er því ljóst að um ört vax­andi iðnað er að ræða, hvort sem er vest­an­hafs eða í Evr­ópu, þar sem æ fleiri ríki kanna mögu­leika á því að heim­ila notk­un kanna­bis­efna upp að ein­hverju marki. Þá má benda á að sala á kanna­bis­vör­um skilaði allt að 3 millj­örðum banda­ríkja­dala í virðis­auka­skatt í þeim ríkj­um Banda­ríkj­anna sem hafa lög­leitt kanna­bis­efni árið 2022.

Það er gríðarleg­ur ávinn­ing­ur fyr­ir sam­fé­lagið að leita allra leiða til að bæta líf og heilsu Íslend­inga. Við get­um ekki rekið lest­ina í þess­um efn­um á grund­velli rök­stuðnings sem byggður er á for­dóm­um og vanþekk­ingu. Við stönd­um frammi fyr­ir gríðarleg­um heilsu­vanda þjóðar­inn­ar sem fer vax­andi. Lausn­irn­ar eru til staðar og reynsla ná­granna­ríkja er fyr­ir fram­an okk­ur.

Hitt er svo að kanna­b­is­markaður er vax­andi víða um heim og velt­ir gríðarleg­um fjár­hæðum. Það er afar svart að láta þessa hags­muni í hend­urn­ar á þeim sem stýra und­ir­heim­un­um eins og staðan er í dag. Elt­um Dani og kom­um Íslandi inn í framtíðina!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2023.