Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Landið okkar varð eitt af þeim farsælustu í heimi með því að gefa framtakssömu fólki frelsi til athafna samfélaginu öllu til heilla. Lífskjör hér eru með þeim bestu sem þekkjast á byggðu bóli og afkoma hins opinbera er gríðarlega sterk í alþjóðlegum samanburði.
Hin snúna efnahagsstaða okkar í dag á sér rætur í heimsfaraldri, sóttvarnaaðgerðum og hökti í framleiðslukeðjum. Verðhækkanir í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu bættu svo ekki úr skák. Eftirspurn í hagkerfinu olli svo verðbólgu og háum vöxtum. Stærsta verkefni samfélagsins í dag til að verja lífskjörin er því að ná niður verðbólgunni og þar með vaxtastiginu. Það er einvörðungu hægt með samhentu átaki Seðlabankans, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Stjórnvöld hafa það hlutverk í því samspili að passa upp á að ríkisfjármálin styðji við peningastefnuna með ábyrgum fjárlögum þar sem hægt er á vexti útgjalda.
Þó við þekkjum illviðráðanlegar rætur verðbólgunnar er innlendur áhrifavaldur hennar eitthvað sem við getum haft stjórn á. Í Peningamálum Seðlabankans sem komu út nýlega nefnir bankinn að kjaraviðræður vetrarins séu veigamesti innlendi áhættuþáttur hvað verðbólguna varðar. Aðilar vinnumarkaðarins hafa því mikið og mikilvægt verk fyrir höndum. En við þurfum einnig að bæta umhverfi vinnumarkaðarins svo um verkefni kjarasamninga sé skýrari rammi. Nærtækt er að horfa til hinna norrænu landanna sem skoða fyrst hvað er til skiptanna áður en því er skipt.
Svo launafólk fái sem mest fyrir sinn snúð skiptir öllu máli að laun hækki í takt við framleiðnivöxt í landinu en hækki ekki umfram hann með fyrirsjáanlegum afleiðingum; hækkunum verðlags og launa eins og við þekkjum of vel úr sögunni. Þar væri komið tól sem myndi stuðla að betri afkomu launafólks og stöðugleika á vinnumarkaði sem myndi draga úr ósætti um málaflokkinn.
Sumir hafa sagt að eina leiðin til að ná efnahagslegri ró sé að taka upp gjaldmiðil Evrópusambandsins. Ég tel ljóst að hagsmunum Íslands er og verður betur borgið utan þess sambands. Þar fyrir utan mun það engu skila ef laun hækka umfram það sem innistæða er fyrir á óbreyttum vinnumarkaði. Það væri eins og að rjúka út og kaupa nýja eldavél því kvöldmaturinn brann í stað þess að lækka einfaldlega á hellunni.
Á fullveldisdaginn er við hæfi að við brýnum þá einföldu staðreynd að við börðumst fyrir fullveldi okkar og höfum æ síðan verið stolt og hnarreist þjóð. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Okkur ber skylda til að tryggja að svo megi áfram vera með því að hafa í hávegum grunngildi sem mótuðu samfélagið okkar í stað þess að kollvarpa þeim. Við höfum allan efniviðinn. En réttar ákvarðanir eru forsenda þess að við vinnum það besta úr efniviðnum til að vera áfram eitt farsælasta samfélag heims.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2023.