Tvöfalt heilbrigðiskerfi án aðkomu einkaaðila

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Í nýlegu tölublaði þessa miðils [Heimildarinnar] kvað við kunnuglegt stef um einkarekna heilbrigðisþjónustu. Spjótum var beint að heilbrigðisfyrirtækinu Klíníkinni og fullyrt að mikil „undiralda“ væri meðal stjórnenda sjúkrahúsa landsins vegna aukinna umsvifa Klíníkurinnar. Birt voru ummæli stjórnanda í heilbrigðiskerfinu sem sagði að verið væri að „koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi á Íslandi“ með aðkomu Klíníkurinnar að liðskiptaaðgerðum. Haft var eftir lækni á sjúkrahúsi að verið væri að „veikja sjúkrahúsin og hola heilbrigðiskerfið að innan.“

Undanfarin ár hafa fjölmiðlar fjallað mikið um viðvarandi biðlistavanda eftir heilbrigðisþjónustu, m.a. langa bið eftir liðskiptaaðgerðum. Þannig biðu allt að tvö þúsund einstaklingar eftir slíkum aðgerðum hverju sinni og langflestir höfðu beðið mánuðum saman. Þar til samið var við Klíníkina á þessu ári, tíðkaðist það að sjúklingar voru sendir út fyrir landsteinana í aðgerðir og margfaldur kostnaður greiddur fyrir þær af ríkinu. Áður en samið var við Klíníkina, gátu þeir sem efni höfðu á og þoldu ekki biðina auðvitað greitt fyrir aðgerðir úr eigin vasa, hvort heldur var hérlendis eða erlendis.

Ég hef beint sjónum að annarri heilbrigðisþjónustu sem samið hefur verið um við Klíníkina. Það eru aðgerðir vegna endómetríósu (endó) sem hrjáir allt að 10% kvenna. Sjúklingar hafa upplifað langa bið eftir viðtölum og aðgerðum á Landspítalanum. Sumir hverjir gáfust upp og greiddu sárþjáðir fyrir aðgerðir úr eigin vasa ýmist hérlendis eða erlendis.

Það var því merkilegt að fá svar frá heilbrigðisráðherra við því á dögunum hvernig samningurinn um endóaðgerðir hefði heppnast. Samkvæmt svari heilbrigðisráðherra höfðu verið framkvæmdar 123 aðgerðir á Landspítalanum og 160 aðgerðir á Klíníkinni frá því í desembermánuði 2022. Og það sem meira er; hver aðgerð á Landspítalanum reyndist 600 til 800 þúsund krónum dýrari að meðaltali en í Klíníkinni. Sárþjáða sjúklinga munar um framtakið og ríkissjóð munar heldur betur um minna.

Að efla fjölbreyttara rekstrarform við heilbrigðisþjónustu kemur ekki á „tvöföldu heilbrigðiskerfi“. Óbreytt ástand hefði á hinn bóginn gert það. Í stað þess að ríkið semji við aðra um heilbrigðisþjónustu sem eftirspurn er eftir, greiða þá þeir sem efni hafa á (eða ekki!) fyrir þjónustuna úr eigin vasa og fara þannig fram fyrir langar biðraðir.

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu til heilbrigðismála, eða um 40% raunaukningu frá árinu 2017, hefur bið eftir ýmissi heilbrigðisþjónustu verið óásættanleg. Allt tal um að verið að sé að „veikja sjúkrahús“ og „hola heilbrigðiskerfið að innan“ með aukinni þjónustu er hræðsluáróður sem byggir á gamaldags hugsun og fordómum. Enginn þarf  að hafa áhyggjur af því að „verkefni færist í auknum mæli til einkareksturs“. Það er miklu fremur jákvætt að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsemi létti undir með opinberum heilbrigðisstofnunum, stytti biðlista og auki hagkvæmni eins og reynslan sýnir. Þetta sýndi sig m.a. í glímunni við COVID þegar Klíníkin lokaði starfsemi sinni tímabundið til að aðstoða Landspítalann. Stjórnendur spítalans hafa sömuleiðis leitað sjálfir til Klíníkurinnar um aðstoð við að stytta biðlista eftir aðgerðum.

Það er mikilvægt að geta sett gamlan ríg til hliðar og leitað eftir aðstoð frá hæfum aðilum þegar færi gefst til þess að Landspítalinn geti betur sinnt mikilvægu og skilgreindu forystuhlutverki á sviði lækninga, rannsókna og háskólakennslu.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni 27. nóvember 2023