Einkaaðilar framkvæmi fleiri aðgerðir á betra verði

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar:

Endómetríósa (legslímuflakk, stundum stytt í endó) er sjúkdómur sem getur valdið sárum verkjum og ófrjósemi. Talið er að sjúkdómurinn hrjái allt að 10% kvenna. Líf með sjúkdóminn einkennist því miður oft af langri og sársaukafullri bið. Erfitt getur verið að greina sjúkdóminn og greiningartími er því oftar en ekki mörg ár, en talið er að meðalgreiningartíminn sé allt að sjö til níu ár. Sjúklingar með endómetríósu flakka því oft milli lækna og heilbrigðisstofnana árum saman þar til rétt greining er fundin. Á þeim tíma eru þeim gefin verkjalyf sem takmarka lífsgæði verulega. Þegar endómetríósu sjúklingar eru loks komnir á rétta hillu í heilbrigðiskerfinu, tekur við löng bið eftir viðtölum og aðgerðum.

Ég hef vakið athygli á málefnum sjúklinga með endómetríósu á Alþingi, m.a. með fyrirspurnum til heilbrigðisráðherra og með greinaskrifum. Það er auðvitað óásættanlegt að svo stór hópur kvenna fái ekki fullnægjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Fjölmargar konur höfðu ferðast út fyrir landsteinana til að fá meðhöndlun við sjúkdómnum og reiddu fram háar fjárhæðir í því skyni. Það var því jákvætt skref þegar heilbrigðisráðherra staðfesti samning Sjúkratrygginga við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna sjúkdómsins fyrir rétt tæpu ári síðan.

Að þessum tíma liðnum er mikilvægt að yfirfara hvort og þá hvað áunnist hefur frá því samningurinn var gerður. Vegna þess lagði  ég fram fyrirspurn á Alþingi um fjölda aðgerða og um kostnað við þær. Samkvæmt svari heilbrigðisráðherra höfðu verið framkvæmdar 123 aðgerðir á Landspítalanum og 160 aðgerðir á Klíníkinni frá því í desembermánuði 2022. Sömuleiðis óskaði ég eftir upplýsingum um meðalkostnað við aðgerðirnar á báðum stöðum. Í svarinu kemur fram að meðalkostnaður aðgerða án viðbótarkostnaðar var 1.448.754 krónur á Landspítalanum en 1.736.966 kr. með viðbótarkostnaði. Viðbótarkostnaður skapaðist hjá um 11% sjúklingahópsins. Meðalkostnaður af sömu aðgerðum var hins vegar 887.500 kr. á Klíníkinni. Tekið var fram að um 75% aðgerða þar væru hefðbundnar en 25% fælu í sér meira inngrip og aukinn kostnað.

Það munar um minna en 160 aðgerðir, ekki síst fyrir konur sem þjást af gríðarlega sársaukafullum sjúkdómi. Sjúkdómi sem veldur viðvarandi verkjum þannig að sjúklingarnir eru jafnvel óvinnufærir til lengri tíma. Hver aðgerð á Landspítalanum reyndist síðan 600 til 800 þúsund krónum dýrari að meðaltali en í Klíníkinni.  Ríkissjóð munar heldur betur um minna.

Við í Sjálfstæðisflokknum þekkjum þessa hugmyndafræði vel. Þegar við stýrðum heilbrigðisráðuneytinu síðast lét Guðlaugur Þór bjóða út augasteinaaðgerðir. Með því fékkst margfalt hagkvæmara verð á og langir biðlistar í aðgerðirnar  hurfu á skömmum tíma.

Ég hef því hvatt heilbrigðisráðherra til að halda áfram á sömu braut, að efla fjölbreyttara rekstrarform við heilbrigðisþjónustu. Þannig má búast við stóraukinni hagkvæmni og skilvirkni eins og dæmin sýna. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir þessu nema gamaldags hugsanir og fordómar.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2023