Kemst pósturinn til skila?

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Tæp­lega fjög­ur ár eru frá því að ný heild­ar­lög um póstþjón­ustu tóku gildi. Mark­mið breyt­ing­anna var meðal ann­ars að auka hag­kvæmni og koma á sam­keppni á póst­markaði með því að af­nema rík­isein­ok­un. Í fyrstu grein lag­anna seg­ir: „Mark­mið laga þess­ara er að stuðla að hag­kvæmri, virkri og áreiðan­legri póstþjón­ustu um land allt og til og frá land­inu, m.a. með því að tryggja not­end­um aðgang að alþjón­ustu eins og hún er skil­greind á hverj­um tíma og með því að efla sam­keppni á markaði fyr­ir póstþjón­ustu.“

Því miður hef­ur þess­um mark­miðum ekki verið náð. Það sem verra er, þá virðist sem sam­eig­in­leg­ir fjár­mun­ir úr rík­is­sjóði séu nýtt­ir til að niður­greiða sam­keppn­is­rekst­ur rík­is­fyr­ir­tæk­is og hamla þar með sam­keppni.

Þrátt fyr­ir af­nám ein­ok­un­ar rík­is­ins – Ísland­s­pósts – var alþjón­usta tryggð í pósti, hún skil­greind og markaðar regl­ur um hvernig hún skyldi veitt og hvernig fara ætti með kostnað við alþjón­ustu ef ekki væri hægt að veita hana á markaðsleg­um for­send­um. Með alþjón­ustu er átt við þá lág­marks­póstþjón­ustu sem lands­mönn­um skal standa til boða á jafn­ræðis­grund­velli. Sam­kvæmt ákvörðun Póst- og fjar­skipta­stofn­un­ar er Ísland­s­póst­ur alþjón­ustu­veit­andi á sviði póstþjón­ustu um allt land til loka árs 2030.

Pakk­ar allt að tíu kíló falla und­ir alþjón­ustu inn­an­lands. Um leið og lög­in tóku gildi í árs­byrj­un 2020 gerði Ísland­s­póst­ur breyt­ing­ar á gjald­skrá fyr­ir pakka­send­ing­ar inn­an­lands. Fram að þeim tíma hafði gjald­skrá­in miðast við fjög­ur gjaldsvæði. Höfuðborg­ar­svæðið var gjaldsvæði eitt og var gjald­skrá­in þar tölu­vert lægri en fyr­ir önn­ur gjaldsvæði. Með áður­nefndri breyt­ingu ákvað Ísland­s­póst­ur að gjald­skrá fyr­ir alþjón­ustu yrði sú sama um allt land. Miðað var við gjald­skrá höfuðborg­ar­svæðis­ins og með því lækkaði gjald fyr­ir pakka­send­ing­ar utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Versl­un­ar­rekst­ur og flutn­ingaþjón­usta lít­illa fjöl­skyldu­fyr­ir­tækja á lands­byggðinni missti spón úr aski sín­um á sama tíma og um­svif Ísland­s­pósts juk­ust, á kostnað sam­keppn­isaðila.

Viðvar­andi ta­prekst­ur

Sam­kvæmt lög­um er Ísland­s­pósti skylt að gæta þess að gjald­skrá fyr­ir alþjón­ustu taki mið af raun­kostnaði við að veita þjón­ust­una að viðbætt­um hæfi­leg­um hagnaði. Viðvar­andi ta­prekst­ur hef­ur hins veg­ar verið á pakkaþjón­ustu Ísland­s­pósts. Með öðrum orðum: Gjald sem fyr­ir­tækið inn­heimt­ir fyr­ir pakka­send­ing­ar er und­ir raun­kostnaði.

Vís­bend­ing­ar eru um að Ísland­s­póst­ur hafi nýtt stöðu sína og fram­lög rík­is­sjóðs vegna alþjón­ustu­kvaðar til að niður­greiða sam­keppn­is­rekst­ur við einkaaðila. Sé það rétt, þá er gengið frek­lega gegn ákvæðum sam­keppn­islaga og sátt­ar sem fyr­ir­tækið gerði við Sam­keppnis­eft­ir­litið árið 2017. Mark­mið sátt­ar­inn­ar var að vinna gegn því að Ísland­s­póst­ur gæti komið í veg fyr­ir sam­keppni frá nýj­um eða minni keppi­naut­um með und­ir­verðlagn­ingu, víxlniður­greiðslu eða með öðrum hætti. Á þetta er meðal ann­ars bent í minn­is­blaði sem lög­manns­stof­an Mörk­in vann fyr­ir Póst­dreif­ingu – einka­fyr­ir­tæki í sam­keppni við Ísland­s­póst. Bent er á að ætla megi að „viðvar­andi niður­greiðsla ís­lenska rík­is­ins á starf­semi ISP á sam­keppn­ismarkaði sé hvorki í sam­ræmi við ákvæði sam­keppn­islaga né þá sátt sem ISP und­ir­gekkst“. Einnig hljóti að „vakna áleitn­ar spurn­ing­ar um það hvort slík niður­greiðsla ís­lenska rík­is­ins telj­ist til ólög­mætr­ar rík­isaðstoðar í skiln­ingi 61. gr. EES-samn­ings­ins“.

Vilji lög­gjaf­ans var skýr

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu, sem varð að lög­um, kem­ur skýr­merki­lega í ljós að vilji lög­gjaf­ans sé að alþjón­usta verði tryggð á sem hag­kvæm­ast­an máta fyr­ir ís­lenska ríkið og í takt við þarf­ir sam­fé­lags­ins. Tekið er fram að þegar hafi verið stigið stór skref til að lækka kostnað við lág­marks­póstþjón­ustu, sbr. að miða lág­marks­dreif­ingu við tvo daga í viku. Stuttu eft­ir gildis­töku lag­anna var þar að auki veitt reglu­gerðar­heim­ild til þess að fækka dreif­ing­ar­dög­um niður í einn dag í viku, t.d. ef kostnaður við út­b­urðinn væri tal­inn of hár. Sér­stak­lega er tekið fram að ekki þyki skyn­sam­legt að setja alþjón­ustu­stigið svo hátt að það hamli sam­keppni og ný­sköp­un. Í grein­ar­gerðinni seg­ir einnig að verið sé að opna eins mikið og talið er ásætt­an­legt á sveigj­an­leika Ísland­s­pósts til að breyta þjón­ustu­fyr­ir­komu­lagi til kostnaðar­lækk­un­ar eða tekju­auka.

Þrátt fyr­ir þetta ákvað Ísland­s­póst­ur ekki að full­nýta heim­ild sína til að fækka dreif­ing­ar­dög­um í tvo daga í viku fyrr en 1. maí 2022. Sú breyt­ing átti við um bréf en á flest­um stöðum er pökk­um enn þá dreift flesta daga vik­unn­ar, í sam­keppni við einkaaðila. Í ljósi þessa er sér­stakt að eft­ir­litsaðilar hafi ákveðið að ríkið ákveði fram­lög til Ísland­s­pósts vegna svo­kallaðrar alþjón­ustu­kvaðar. Hvernig get­ur það tal­ist kvöð að veita þjón­ustu sem er meiri en lág­marksþjón­usta?

Í téðri grein­ar­gerð er því haldið fram að verið sé að setja sömu regl­ur og gilda er­lend­is, varðandi út­reikn­ing á fram­lagi til alþjón­ustu­veit­enda. Bent er á að Copen­hagen Economics (CE) not­ist við sömu aðferðafræði. Í skýrslu sem CE vann fyr­ir Ísland­s­póst árið 2018 er m.a. vikið að því hvaða spurn­ing­um þurfi að svara áður en metið sé hvort þjón­usta verði hluti af þeim hreina kostnaði sem mögu­lega þarf að bæta. Svör­in eru ein­föld. Ef Ísland­s­póst­ur eða sam­keppn­isaðilar veita meiri þjón­ustu en lág­markið kveður á um er alþjón­ust­an ekki tak­mark­andi og ætti ekki að vera hluti af út­reikn­ingi á hrein­um kostnaði.

Eðli­lega vakn­ar sú spurn­ing hvers vegna eft­ir­litsaðilar hafi ákveðið að ís­lenska ríkið skyldi greiða Ísland­s­pósti tæp­lega 1.700 millj­ón­ir kr. vegna ár­anna 2020-2022, þegar grunn­skil­yrði um fjár­fram­lög virðast ekki vera upp­fyllt.

Bregðast þarf við

Ég hef ít­rekað á und­an­förn­um árum gagn­rýnt starf­semi Ísland­s­pósts. Ekki síst hvernig fyr­ir­tækið hef­ur skipu­lega lagt til at­lögu við einka­fyr­ir­tæki, jafn­vel á mörkuðum sem eiga lítið eða ekk­ert skylt við póstþjón­ustu. Það virðist því miður vera frem­ur eðli rík­is­fyr­ir­tækja, ekki síst þeirra sem breytt hef­ur verið í op­in­ber hluta­fé­lög – ohf.-vædd. Ísland­s­póst­ur er því ekki eina dæmið.

Í ljósi stöðunn­ar hafa þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins lagt fram á þingi beiðni um að rík­is­end­ur­skoðandi geri út­tekt á fram­kvæmd og eft­ir­liti með lög­um um póstþjón­ustu. Þar verði meðal ann­ars dregið fram hvernig Póst- og fjar­skipta­stofn­un og síðar Byggðastofn­un hafi tek­ist að upp­fylla lög­bundið hlut­verk sitt og ákvæði laga um póstþjón­ustu. Þá verði einnig dregið fram hvort fram­lög til Ísland­s­pósts vegna veit­ing­ar alþjón­ustu séu reiknuð út á rétt­an hátt og hvernig gjald­skrár­breyt­ing­um var háttað í tengsl­um við sama verð um allt land.

Það er úti­lokað að lög­gjaf­inn horfi at­huga­semda­laust á ef sam­eig­in­leg­um fjár­mun­um er ráðstafað með þeim hætti að dregið er úr sam­keppni, þvert á lög og yf­ir­lýst mark­mið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. nóvember 2023.