Óli Björn Kárason alþingismaður:
Tæplega fjögur ár eru frá því að ný heildarlög um póstþjónustu tóku gildi. Markmið breytinganna var meðal annars að auka hagkvæmni og koma á samkeppni á póstmarkaði með því að afnema ríkiseinokun. Í fyrstu grein laganna segir: „Markmið laga þessara er að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.“
Því miður hefur þessum markmiðum ekki verið náð. Það sem verra er, þá virðist sem sameiginlegir fjármunir úr ríkissjóði séu nýttir til að niðurgreiða samkeppnisrekstur ríkisfyrirtækis og hamla þar með samkeppni.
Þrátt fyrir afnám einokunar ríkisins – Íslandspósts – var alþjónusta tryggð í pósti, hún skilgreind og markaðar reglur um hvernig hún skyldi veitt og hvernig fara ætti með kostnað við alþjónustu ef ekki væri hægt að veita hana á markaðslegum forsendum. Með alþjónustu er átt við þá lágmarkspóstþjónustu sem landsmönnum skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli. Samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar er Íslandspóstur alþjónustuveitandi á sviði póstþjónustu um allt land til loka árs 2030.
Pakkar allt að tíu kíló falla undir alþjónustu innanlands. Um leið og lögin tóku gildi í ársbyrjun 2020 gerði Íslandspóstur breytingar á gjaldskrá fyrir pakkasendingar innanlands. Fram að þeim tíma hafði gjaldskráin miðast við fjögur gjaldsvæði. Höfuðborgarsvæðið var gjaldsvæði eitt og var gjaldskráin þar töluvert lægri en fyrir önnur gjaldsvæði. Með áðurnefndri breytingu ákvað Íslandspóstur að gjaldskrá fyrir alþjónustu yrði sú sama um allt land. Miðað var við gjaldskrá höfuðborgarsvæðisins og með því lækkaði gjald fyrir pakkasendingar utan höfuðborgarsvæðisins. Verslunarrekstur og flutningaþjónusta lítilla fjölskyldufyrirtækja á landsbyggðinni missti spón úr aski sínum á sama tíma og umsvif Íslandspósts jukust, á kostnað samkeppnisaðila.
Viðvarandi taprekstur
Samkvæmt lögum er Íslandspósti skylt að gæta þess að gjaldskrá fyrir alþjónustu taki mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Viðvarandi taprekstur hefur hins vegar verið á pakkaþjónustu Íslandspósts. Með öðrum orðum: Gjald sem fyrirtækið innheimtir fyrir pakkasendingar er undir raunkostnaði.
Vísbendingar eru um að Íslandspóstur hafi nýtt stöðu sína og framlög ríkissjóðs vegna alþjónustukvaðar til að niðurgreiða samkeppnisrekstur við einkaaðila. Sé það rétt, þá er gengið freklega gegn ákvæðum samkeppnislaga og sáttar sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2017. Markmið sáttarinnar var að vinna gegn því að Íslandspóstur gæti komið í veg fyrir samkeppni frá nýjum eða minni keppinautum með undirverðlagningu, víxlniðurgreiðslu eða með öðrum hætti. Á þetta er meðal annars bent í minnisblaði sem lögmannsstofan Mörkin vann fyrir Póstdreifingu – einkafyrirtæki í samkeppni við Íslandspóst. Bent er á að ætla megi að „viðvarandi niðurgreiðsla íslenska ríkisins á starfsemi ISP á samkeppnismarkaði sé hvorki í samræmi við ákvæði samkeppnislaga né þá sátt sem ISP undirgekkst“. Einnig hljóti að „vakna áleitnar spurningar um það hvort slík niðurgreiðsla íslenska ríkisins teljist til ólögmætrar ríkisaðstoðar í skilningi 61. gr. EES-samningsins“.
Vilji löggjafans var skýr
Í greinargerð með frumvarpinu, sem varð að lögum, kemur skýrmerkilega í ljós að vilji löggjafans sé að alþjónusta verði tryggð á sem hagkvæmastan máta fyrir íslenska ríkið og í takt við þarfir samfélagsins. Tekið er fram að þegar hafi verið stigið stór skref til að lækka kostnað við lágmarkspóstþjónustu, sbr. að miða lágmarksdreifingu við tvo daga í viku. Stuttu eftir gildistöku laganna var þar að auki veitt reglugerðarheimild til þess að fækka dreifingardögum niður í einn dag í viku, t.d. ef kostnaður við útburðinn væri talinn of hár. Sérstaklega er tekið fram að ekki þyki skynsamlegt að setja alþjónustustigið svo hátt að það hamli samkeppni og nýsköpun. Í greinargerðinni segir einnig að verið sé að opna eins mikið og talið er ásættanlegt á sveigjanleika Íslandspósts til að breyta þjónustufyrirkomulagi til kostnaðarlækkunar eða tekjuauka.
Þrátt fyrir þetta ákvað Íslandspóstur ekki að fullnýta heimild sína til að fækka dreifingardögum í tvo daga í viku fyrr en 1. maí 2022. Sú breyting átti við um bréf en á flestum stöðum er pökkum enn þá dreift flesta daga vikunnar, í samkeppni við einkaaðila. Í ljósi þessa er sérstakt að eftirlitsaðilar hafi ákveðið að ríkið ákveði framlög til Íslandspósts vegna svokallaðrar alþjónustukvaðar. Hvernig getur það talist kvöð að veita þjónustu sem er meiri en lágmarksþjónusta?
Í téðri greinargerð er því haldið fram að verið sé að setja sömu reglur og gilda erlendis, varðandi útreikning á framlagi til alþjónustuveitenda. Bent er á að Copenhagen Economics (CE) notist við sömu aðferðafræði. Í skýrslu sem CE vann fyrir Íslandspóst árið 2018 er m.a. vikið að því hvaða spurningum þurfi að svara áður en metið sé hvort þjónusta verði hluti af þeim hreina kostnaði sem mögulega þarf að bæta. Svörin eru einföld. Ef Íslandspóstur eða samkeppnisaðilar veita meiri þjónustu en lágmarkið kveður á um er alþjónustan ekki takmarkandi og ætti ekki að vera hluti af útreikningi á hreinum kostnaði.
Eðlilega vaknar sú spurning hvers vegna eftirlitsaðilar hafi ákveðið að íslenska ríkið skyldi greiða Íslandspósti tæplega 1.700 milljónir kr. vegna áranna 2020-2022, þegar grunnskilyrði um fjárframlög virðast ekki vera uppfyllt.
Bregðast þarf við
Ég hef ítrekað á undanförnum árum gagnrýnt starfsemi Íslandspósts. Ekki síst hvernig fyrirtækið hefur skipulega lagt til atlögu við einkafyrirtæki, jafnvel á mörkuðum sem eiga lítið eða ekkert skylt við póstþjónustu. Það virðist því miður vera fremur eðli ríkisfyrirtækja, ekki síst þeirra sem breytt hefur verið í opinber hlutafélög – ohf.-vædd. Íslandspóstur er því ekki eina dæmið.
Í ljósi stöðunnar hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram á þingi beiðni um að ríkisendurskoðandi geri úttekt á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu. Þar verði meðal annars dregið fram hvernig Póst- og fjarskiptastofnun og síðar Byggðastofnun hafi tekist að uppfylla lögbundið hlutverk sitt og ákvæði laga um póstþjónustu. Þá verði einnig dregið fram hvort framlög til Íslandspósts vegna veitingar alþjónustu séu reiknuð út á réttan hátt og hvernig gjaldskrárbreytingum var háttað í tengslum við sama verð um allt land.
Það er útilokað að löggjafinn horfi athugasemdalaust á ef sameiginlegum fjármunum er ráðstafað með þeim hætti að dregið er úr samkeppni, þvert á lög og yfirlýst markmið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. nóvember 2023.