Hið ógnvænlega félagafrelsi

Teitur Björn Einarsson alþingismaður:

Á dögunum mælti Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir frumvarpi sínu og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði. Helstu atriði frumvarpsins eru annars vegar afnám ákvæða um greiðsluskyldu launamanna til stéttarfélaga sem þeir tilheyra ekki og forgangsréttarákvæða kjarasamninga og uppfylla kröfur 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) um félagafrelsi.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í dómaframkvæmd sinni komist að þeirri niðurstöðu að framangreind ákvæði brjóti gegn 11. mgr. sáttmálans. Sú túlkun dómstólsins er eðlileg þegar litið er til þess hvert eðli greiðsluskyldu- og forgangsréttarákvæða er, en óhætt er að taka undir lýsingu ASÍ á slíkum ákvæðum í umsögn sinni til Alþingis vegna frumvarps til stjórnskipunarlaga árið 1995, en þar segir að „með ákvæðum um forgangsrétt og ákvæðum um greiðsluskyldu til stéttarfélaga er tryggt að að launafólk tilheyri félögunum, styrki þau og styðji og greiði til þeirra.“ Það ætti að vera öllum ljóst að á meðan í gildi eru ákvæði sem tryggja að launafólk „tilheyri“ stéttarfélögum er raunverulegt félagafrelsi ekki hér við lýði.

Heimsendaspár byggðar á sandi

Gagnrýnendur frumvarpsins hafa kastað fram ýmsum fullyrðingum um afleiðingar þess að frumvarpið yrði að lögum. Því er haldið fram að vinnumarkaðurinn verði sambærilegur og í Bandaríkjunum, að rekstrargrundvelli stéttarfélaga verði kippt undan þeim og að verkalýðshreyfingin hreinlega líði undir lok. Með örlítilli rannsóknarvinnu er hins vegar auðséð að slíkar spár eru með öllu byggðar á sandi.

Í fyrsta lagi er fyrirmynd frumvarpsins ekki sótt í bandaríska löggjöf, heldur er frumvarpið að langmestu leyti byggt á dönsku lögunum um félagafrelsi á vinnumarkaði (d. lov om foreningsfrihed på arbejdsmarkedet, nr. 424/2006), sem sett voru þar í landi til að uppfylla skuldbindingar Danmerkur samkvæmt MSE. Frumvarpið er því að norrænni fyrirmynd og mun tryggja að félagafrelsi njóti sambærilegrar verndar og á hinum Norðurlöndunum.

Í öðru lagi er ekkert sem bendir til þess að frumvarpið kippi rekstargrundvellinum undan stéttarfélögum, eins og fullyrt hefur verið að verði afleiðing þess að afnema greiðsluskyldu utanfélagsmanna. Reyndin er sú að greiðsluskylda utanfélagsmanna er einungis lögð á opinbera starfsmenn, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Slík skylda er aftur á móti ekki til staðar á almennum vinnumarkaði, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 390/2010, þar sem ófélagsbundinn launamaður var sýknaður af kröfu um greiðslu „vinnuréttargjalds“ á þeim grundvelli að hann væri ekki meðlimur umrædds stéttarfélags. Þá kemur fram í umsögn VR við frumvarpið, eins og það var lagt fram á seinasta löggjafarþingi, að félagi krefjist ekki vinnuréttargjalds úr hendi utanfélagsmanna. Þrátt fyrir það verður ekki séð að VR standi höllum fæti fjárhagslega. Samkvæmt ársskýrslu félagsins fjölgaði félagsmönnum um 5,4% á árinu 2022 og voru rekstrartekjur ársins rétt tæpir 5,3 milljarðar króna, eða um 700 milljón krónum hærri tekjur en árið á undan. Áhyggjur af rekstargrundvelli stéttarfélaga í þessu samhengi eru bersýnilega með öllu óþarfar.

Í þriðja lagi ætti öllum að vera ljóst að frumvarpið myndi ekki leiða af sér endalok verkalýðshreyfingarinnar. Það þarf ekki annað en að líta til nágranna okkar, löggjöf hverra eru fyrirmyndir frumvarps Sjálfstæðismanna, þar sem verkalýðshreyfingin stendur sterkum fótum og samskipti á vinnumarkaði eru með mun betra móti en hér á landi. Ef verkalýðshreyfing Norðurlandanna, og reyndar allra annarra vestrænna landa, þarf ekki á greiðsluskyldu- og forgangsréttarákvæðum að halda til að geta vaxið og dafnað, þá þarf íslenska verkalýðshreyfingin það ekki heldur.

Andstaðan við frelsið

Þrátt fyrir að frumvarpið snúist ekki um annað en að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar um vernd mannréttinda sem Ísland er aðili að og tryggja félagafrelsi launafólks á sama hátt og gert er á Norðurlöndunum var fyrirsjáanlegt að fulltrúar hinna stjórnlyndu flokka á Alþingi myndu fordæma frumvarpið, sem varð raunin. Hins vegar kom það á óvart að sjálfskipaðir kyndilberar mannréttinda í Pírötum hafi lýst yfir andstöðu sinni við frumvarpið í þingsal, með óskiljanlegri túlkun á félagafrelsinu.

Í umræðunni á Alþingi upplýsti Björn Leví Gunnarsson um það að þau sjálfsögðu mannréttindi að standa utan félaga stangist á við réttindi stéttarfélaga. Félagsmenn stéttarfélaga ættu nefnilega rétt á því að þeir sem standa utan stéttarfélaga gangi til liðs við félögin!

Með því að standa utan stéttarfélags væru þeir, sem gerðust svo djarfir að njóta mannréttinda sinna, á sama tíma að brjóta á rétti annarra, hvorki meira né minna. Björn Leví sá þó ekki ástæðu til þess að upplýsa um það í hvaða lögum eða mannréttindasáttmálum þessi réttur félagsmanna stéttarfélaga væri verndaður. Líklega er ástæðan sú að sá „réttur” er að sjálfsögðu ekki til annars staðar en í huga þingmannsins.

Réttur Sjálfstæðisflokksins til félagsmanna?

Félagsmenn tiltekins félags eiga auðvitað ekki rétt á því að aðrir, sem ekkert vilja með félagið hafa, gangi til liðs við það. Þótt ég átti mig á að til sé fólk sem ekki vill skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn, lít ég ekki svo á að þeir sem kjósa að standa utan stjórnmálaflokka séu að brjóta á rétti mínum á nokkurn hátt, enda deili ég ekki sýn Pírata á félagafrelsið. Ég ber of mikla virðingu fyrir borgaralegum réttindum einstaklingsins. Og ólíkt mörgum þingmönnum nær sú virðing einnig til réttinda þeirra sem eru mér ekki sammála.

Greinin birtist í 2. nóvember 2023.