Á föstudaginn flutti fulltrúi Íslands ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um afstöðu okkar til yfirstandandi hörmunga á Gaza. Þar var kallað skýrt eftir mannúðarhléi, öruggu og óhindruðu aðgengi mannúðaraðstoðar og verndun almennra borgara. Ræðuna má sjá í heild sinni hér.
Á þinginu voru sömuleiðis greidd atkvæði um óbindandi ályktun Jórdaníu um stöðuna. Við studdum tillöguna ásamt meirihluta vinaþjóða okkar, að því gefnu að breytingartillaga Kanada næði fram að ganga. Breytingartillagan var svohljóðandi:
„Allsherjarþingið mótmælir afdráttarlaust og fordæmir um leið hryðjuverkaárásir Hamas sem áttu sér stað í Ísrael og hófust 7. október 2023 og gíslatöku Hamas. Allsherjarþingið krefst þess að öryggi gíslanna verði tryggt, að gætt verði að velferð og mannúðlegri meðferð þeirra í samræmi við alþjóðalög og kallar eftir tafarlausri og skilyrðislausri lausn þeirra."
Um þetta náðist hins vegar ekki samstaða – í fyrstu ályktun allsherjarþingsins frá hryðjuverkaárásinni 7. október. Það hlýtur að mega spyrja sig: Hvers vegna ætti nokkur að vera á móti slíkri tillögu? Augljóst er að almenn tilvísun í fordæmingu hryðjuverka er með engu móti sambærileg því að fordæma með beinum hætti árás sem hóf átakahrinuna, sem kostaði yfir 1.400 manns lífið og leiddi til þess að 200 manns eru nú gíslar Hamas, þar af um 30 börn. Enda var tillagan studd af öllum ríkjum ESB, öllum Norðurlöndunum, Bretlandi, Ástralíu, Japan og fleiri ríkjum.
Meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn breytingartillögunni voru Rússland, Belarús, Norður-Kórea, Níkaragva og Kúba. Allar líkur eru á að þetta hafi verið gert til að reka fleyg í samstöðu meðal aðildarríkjanna.
Þess vegna var það niðurstaða mín auk 44 annarra ríkja, þar á meðal okkar nánustu samstarfsþjóða, að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um ályktun Jórdaníu og koma afstöðu okkar á framfæri á eigin forsendum. Það var gert með afar skýrum hætti í ræðunni á allsherjarþinginu og hefur einnig verið gert á opinberum vettvangi og í samtölum við fulltrúa ísraelskra stjórnvalda.
Þetta eru meginatriði málsins og það sem efnislega skiptir mestu. Við komumst að rökstuddri niðurstöðu. Héldum sama málflutningi á lofti og hingað til. Skipum okkur í hóp með meirihluta Norðurlanda og ESB ríkja um þá niðurstöðu. Um öll helstu atriði skilaboða íslenskra stjórnvalda hefur verið breið samstaða.
Það er miður, en kannski ekki með öllu óvænt, að opinber umræða um málið hafi tilhneigingu til að snúast um aðra og veigaminni þætti, ekki síst að ala á ágreiningi og rjúfa samstöðu í afar viðkvæmu og mikilvægu máli.
Bjarni Benediktsson
Formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra.