Reykjavíkurborg er fjármögnuð á afarkjörum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Lít­ill áhugi er á markaði fyr­ir skulda­bréf­um Reykja­vík­ur­borg­ar og neyðist hún því til að fjár­magna sig á afar­kjör­um. Borg­in er orðin mjög ber­skjölduð fyr­ir verðbólgu og vaxta­hækk­un­um. Langvar­andi skulda­söfn­un og há verðbólga hafa gert það að verk­um að fjár­magns­gjöld eru orðin ein helsta stærðin í bók­haldi borg­ar­inn­ar.

Við svo búið má ekki standa. Ná þarf tök­um á rekstr­in­um og hefja niður­greiðslu skulda.

Reykja­vík­ur­borg seldi skulda­bréf fyr­ir 2.155 millj­ón­ir króna að nafn­v­irði nú í vik­unni eft­ir að hafa tekið til­boðum í verðtryggðan skulda­bréfa­flokk með loka­gjald­daga árið 2048, á ávöxt­un­ar­kröf­unni 4,30%.

Jafn­framt var ákveðið að hafna öll­um til­boðum í óverðtryggðan skulda­bréfa­flokk með loka­gjald­daga árið 2040. Heild­ar­til­boð í þann flokk voru sam­tals 1.500 millj­ón­ir króna að nafn­v­irði með 9,32% ávöxt­un­ar­kröfu.

Eru þetta held­ur skárri kjör en borg­in fékk í skulda­bréfa­út­boði í sept­em­ber. En þá tók borg­in til­boðum í verðtryggðan skulda­bréfa­flokk fyr­ir 1.840 millj­ón­ir króna að nafn­v­irði á ávöxt­un­ar­kröf­unni 4,68% (loka­gjald­dagi 2032). Þá tók hún einnig til­boðum í óverðtryggðan skulda­bréfa­flokk fyr­ir 2.040 millj­ón­ir króna að nafn­v­irði, á ávöxt­un­ar­kröf­unni 9,78%. (loka­gjald­dagi 2035).

Lán­töku­heim­ild nán­ast full­nýtt

Skulda­bréfa­út­boð og bankalán eru sem fyrr mik­il­virk­asta úrræði Reykja­vík­ur­borg­ar til að fjár­magna halla­rekst­ur sinn. Ávöxt­un­ar­kraf­an end­ur­spegl­ar láns­kjör­in. Þrátt fyr­ir að láns­kjör borg­ar­inn­ar hafi batnað á milli mánaða hafa þau sjald­an verið verri.

Fjárþörf­in er rík enda borg­ar­sjóður rek­inn með mikl­um halla. Sam­kvæmt fjár­hags­áætl­un er áætlað að borg­ar­sjóður taki lán fyr­ir allt að 21 millj­arð króna á ár­inu. Sam­tals hafa nú verið tek­in lán fyr­ir 20.923 millj­ón­ir og vant­ar því ein­ung­is nokkra tugi millj­óna upp á að sú heim­ild hafi verið nýtt að fullu. Enn eru tvö skulda­bréfa­út­boð eft­ir á ár­inu sam­kvæmt áætl­un borg­ar­inn­ar, þ.e. í nóv­em­ber og des­em­ber. Verði ráðist í þau mun borg­in auka enn við skuld­ir sín­ar og fara þannig fram yfir áður­nefnda lán­töku­heim­ild fjár­hags­áætl­un­ar.

Óviðun­andi fjár­hags­staða

Þegar verðbólga er 8% verður ekki horft fram hjá því að Reykja­vík­ur­borg er nú að fjár­magna sig á rúm­lega 12% vöxt­um þar sem um verðtryggð skulda­bréf er að ræða. Það eru afar­kjör fyr­ir stór­an aðila eins og Reykja­vík­ur­borg.

Ört versn­andi láns­kjör borg­ar­inn­ar eru skýrt merki um óviðun­andi fjár­hags­stöðu henn­ar. Vand­inn verður ekki leyst­ur með áfram­hald­andi ta­prekstri og skulda­söfn­un. Eina færa leiðin er að ná tök­um á rekstr­in­um, koma hon­um í jafn­vægi og hefja niður­greiðslu skulda.

Fjár­hags­áætl­un 2024

Fjár­hags­áætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar fyr­ir árið 2024 verður vænt­an­lega kynnt á næsta fundi borg­ar­stjórn­ar. Brýnt er að sú áætl­un feli í sér víðtæka hagræðingu og að langþráð jafn­vægi ná­ist í rekstri borg­ar­inn­ar. Afar slæmt væri ef meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar, Pírata og Viðreisn­ar kysi að stefna rekstri borg­ar­inn­ar í enn frek­ara óefni með áfram­hald­andi ta­prekstri og skulda­söfn­un.

Stöðvun skulda­söfn­un­ar myndi bæta vaxta­kjör borg­ar­inn­ar og styrkja mjög stöðu henn­ar á láns­fjár­markaði. Síðast en ekki síst myndi slík breyt­ing einnig hafa góð áhrif í bar­átt­unni við verðbólg­una, sem kæmi öll­um til góða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. október 2023.