Aðgerðaáætlun um almenningssamgöngur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Strætókerfið, ríkjandi almenningssamgöngur í borginni, líður fyrir sinnuleysi borgaryfirvalda. Vegna draumóra um hundruð milljarða króna borgarlínu er strætókerfið vanrækt og látið reka á reiðanum í stað þess að þróa það áfram með markvissum hætti. Enginn veit þó hvort borgarlínan verður að veruleika, né hverjir eigi að borga hana og reka.

Við svo búið má ekki standa. Efla þarf strætókerfið strax og bæta þjónustuna, óháð því hvort svokölluð borgarlína verður að veruleika eða ekki.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að Reykjavíkurborg grípi nú þegar til aðgerða í því skyni að efla almenningssamgöngur í borginni. Áætlun verði gerð um sérstakar aðgerðir ásamt kostnaðarmati, tímasetningum og ábyrgðaraðilum. Ráðast skuli í fyrstu aðgerðir samkvæmt áætluninni á næsta ári, 2024.

Tillagan, sem hefur verið lögð fyrir borgarstjórn, felur í sér eftirfarandi aðgerðir:

Forgangsakreinar

Framkvæmdir vegna lagningar forgangsreina fyrir strætisvagna verði hafnar að nýju í Reykjavík á árinu 2024. Áhersla verði lögð á umferðarþunga staði þar sem strætisvagnar verða helst fyrir töfum.
Forgangsakreinar fyrir strætisvagna í Reykjavík eru nú samtals um fjórir kílómetrar að lengd og hafa skilað góðum árangri. Lagning slíkra akreina hefur hins vegar að mestu legið niðri á undanförnum árum. Er þó ljóst að þær myndu stórlega greiða götu strætisvagna og þá einkum á annatímum í umferðinni.

Nefna má ákveðna staði við Miklubraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut og Suðurlandsbraut þar sem nýjar forgangsakreinar myndu liðka mjög fyrir akstri strætisvagna.

Umferðarljósaforgangur

Forgangur strætisvagna verði tryggður með snjallstýringu umferðarljósa. Slík tækni hefur gefist vel og stóraukið skilvirkni strætókerfa víða erlendis.

Biðskýli og skiptistöðvar

Ráðist verði í átak við úrbætur á biðskýlum og skiptistöðvum í borginni. Upphituð biðskýli verði sett upp á fjölförnum biðstöðvum, t.d. við háskóla, framhaldsskóla og aðra fjölmenna vinnustaði og stofnanir.

Umbætur verði gerðar á skiptistöðvum. Meðal annars verði séð til þess að þær séu opnar kvölds og morgna á meðan strætisvagnar ganga og farþegum tryggð ákveðin þjónusta, s.s. aðgangur að þrifalegu salerni.

Greiðslukerfi

Miklir erfiðleikar hafa fylgt Klappinu, greiðslukerfi Strætó enda er það stirt og þunglamalegt í notkun. Umræddu kerfi þarf að skipta út fyrir hraðvirkt og notendavænt kerfi. Þá þarf að endurskoða gjaldskrá Strætós.

Endurnýjun vagnaflotans

Forstjóri Strætós hefur ítrekað vakið athygli á háum meðalaldri strætisvagnaflotans og sagt að ekki sé boðlegt að farþegar þurfi að sætta sig við gamla og ryðgaða vagna. Hraða þarf endurnýjun vagnaflotans.

Umbætur á leiðakerfi

Endurskoða þarf núverandi leiðakerfi Strætós bs. og gera á því ýmsar úrbætur. Meðal annars þarf að bæta þjónustu í eystri hverfum borgarinnar og styrkja ýmsar tengingar. Breyta þarf tímatöflum á ákveðnum leiðum til að auka áreiðanleika kerfisins og tryggja vagnstjórum umsaminn hvíldartíma.

Rétt er að efna til víðtæks samráðs um breytingar á leiðakerfinu. Samráð verði haft við núverandi farþega Strætó, vagnstjóra, íþróttafélög, foreldrafélög í grunnskólum og leikskólum, ungmennaráð, sem og félög stúdenta í framhaldsskólum og háskólum.

Ljóst er að þær aðgerðir, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til, myndu stórbæta þjónustu almenningssamgangna í Reykjavík. Þær yrðu margfalt ódýrari en borgarlínan og myndu ekki þrengja að annarri umferð, sem er eitt helsta markmið borgarlínusinna. Efling strætókerfisins má ekki standa og falla með ófjármögnuðum hugmyndum, sem enginn veit hvort verða að veruleika.

Vilji er allt sem þarf

Þrjár þessara aðgerða gæti Reykjavíkurborg ráðist í ein og sér, þ.e. að hefja lagningu forgangsakreina að nýju, tryggja strætisvögnum forgang á umferðarljósum sem og að bæta biðskýli og skiptistöðvar.

Hinar aðgerðirnar, sem varða nýtt greiðslukerfi, endurnýjun vagnaflotans og umbætur á leiðakerfi, þyrftu að vinnast í samstarfi við nágrannasveitarfélögin, sem eru meðeigendur Reykjavíkurborgar í Strætó bs. Það samstarf ætti að ganga vel enda ljóst að full þörf er á þessum aðgerðum í þágu bættra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október 2023.