Ræddi ráðstöfun ríkiseigna við fjármálaráðherra

„Grunninnviðir eru samgöngu-, orku- og fjarskiptainnviðir. Allt eru þetta innviðir sem tryggja aukið öryggi í daglegu lífi, auka frelsi til búsetu, auka hagkvæmni, bæði við heimilis- og atvinnurekstur, og eru síðast en ekki síst grunnurinn að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu sem eykur hagvöxt og lengi mætti telja áfram,“ sagði Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður í sérstakri umræðu á Alþingi um ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum í byrjun síðustu viku. Til svara var Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra.

Vilhjálmur sagði töluverða innviðaskuld hafa safnast upp jafnt og þétt á Íslandi. Fólksfjöldun hafi orðið, ferðaþjónusta hafi byggst upp sem heilsársatvinnugrein, samhliða orkuskiptum hafi eftirspurn eftir orku stóraukist og framleiðsla til útflutnings hafi aukist um allt land. Því velti hann upp spurningunni: „Hvernig byggjum við upp ofantalda innviði með skuldsettan ríkissjóð?“

Hann sagði í sínum huga og annarra sjálfstæðismanna mestu skipta að fara eins vel með opinberar eigur og opinbert fé og hægt sé. Opinbert fé séu skattpeningar allra sem í þessu landi búa. Því sé mikilvægt að velta við hverjum steini varðandi þær eignir sem ríkissjóður og þjóðin á og að skoða hvort verið sé að láta þær eignir vinna eins vel fyrir þjóðina og hægt sé.

„Ríkið er jú einn stærsti eigandi og rekstraraðili á flestu og um leið, að mínu mati, einn sá versti,“ sagði Vilhjálmur.

Þar vísar hann til ríkisins sem fasteignaeiganda, sem rekstraraðila í sölu á vöru og þjónustu, sem framkvæmdaaðila fasteigna og innviða og sem landeiganda.

„Ég hef oft sagt í þessum ræðustól áður: Ríkið er versti landeigandinn,“ sagði Vilhjálmur.

Nefndi hann sem dæmi að í nýliðinni kjördæmaviku hafi þingmenn Suðurkjördæmis hitt fjölda sveitarstjórnarfulltrúa sem hafi haft sömu sögu að segja, að þar væru áhugasamir aðilar um nýtingu opinbers lands til atvinnu og verðmætasköpunar sem sveitarfélögin væru áfram um að gangi eftir. En enginn þessara aðila sem hafi verið í viðræðum við sveitarfélögin vilji vera undir ríkisvaldinu komnir með sína uppbyggingu.

„Um leið gekk ekkert hjá einu sveitarfélaginu að semja við ríkið um afnot eða kaup á ríkislandinu. Á meðan er ríkislandið ónotaður mói sem skapar engin verðmæti fyrir íslenska þjóð. Sömu sögu hafa bændur og aðrir einstaklingar um land allt að segja vegna þeirra fjölda bújarða sem ríkið á, að ekki sé nú talað um þjóðlendurnar og friðlýst svæði. Ég trúi því ekki að ríkið vilji eiga allt þetta land til að drepa allt frumkvæði einstaklinganna í dróma. Viljum við ekki frekar koma þessu landi í opinberri eigu í vinnu til verðmætasköpunar og innviðauppbyggingar?“ sagði Vilhjálmur.

Sagði hann fasteignir vera annað dæmi. Það heyrist ítrekuð dæmi um að viðhaldskostnað og kostnaðarsamar endurbætur á opinberu húsnæði, hvort sem það eru hjúkrunarheimili,s kólar eða aðrar stofnanir ríkisins. Á það jafnt við um endurbætur og nýframkvæmdir að þær fari of langt fram úr kostnaðaráætlunum.

„Svo eru það að opinberu fyrirtækin; Isavia, fjármálafyrirtækin eins og Íslandsbanki, Íslandspóstur, Orkusalan, ÁTVR, Ríkisútvarpið og áfram mætti telja. Þarna eru töluverðar eignir bundnar inni sem skapa ríkissjóði aukna áhættu en skila ríkissjóði litlum sem engum arði,“ sagði Vilhjálmur.

Sagði hann Isavia vera metið á rúmlega 200 milljarða króna en borgi ekki arð til ríkissjóðs. Þar séu miklar framkvæmdir í gangi og að það auki fjárhagslega áhættu ríkissjóðs sem eina eiganda fyrirtækisins.

„Væri ekki ráð að losa um 100 milljarða út úr þessu fyrirtæki og greiða upp skuldir, þá annars vegar innviðaskuldir og hins vegar fjárhagslegar skuldir ríkissjóðs? Þá færi þessi eign að skila okkur arði í gegnum minni fjármagnskostnað og aukna verðmætasköpun í gegnum betri innviði,“ sagði Vilhjálmur.

Eignir í fjármálafyrirtækjum til uppbyggingar í heilbrigðismálum

Bjarni Benediktsson sagði í sinni ræðu að málið væri stórt, það hvernig sameiginlegar eigur landsmanna væru nýttar sem best í þágu samfélagsins. Hann sagði mörg dæmi frá undanförnum áratugum um að vel hafi verið gert í að losa ríkið úr rekstri og eignarhaldi fyrirtækja sem ríkið þurfi ekki að vera í og að í þeim tilvikum hafi skapast sóknarfæri fyrir fólkið í landinu.

„Við þekkjum þessi dæmi frá undanförnum árum. Við höfum losað úr Íslandsbanka um 108 milljarða sem hafa þá gagnast annars staðar í opinberum fjármálum. Þessi tala getur verið sett í samhengi við byggingu nýs Landspítala, sem á tímabili gildandi fjármálaáætlunar jafngildir 120–130 milljörðum — sem sagt að losa um fjármálaeign til að byggja innviði í heilbrigðismálum. Þetta tel ég að sé góð ráðstöfun,“ sagði Bjarni.

Hann sagði ríkið enn mjög stóran eiganda fyrirtækja á fjármálamarkaði. Það megi sjá fyrir sér að hægt væri að halda áfram á sömu leið, að losa t.d. um það sem eftir standi í Íslandsbanka. Síðan sé annað mál hvernig fari með framtíðareignarhald ríkisins í Landsbankanum.

„Ég get tekið undir það að ríkið hafi ekki verið nægilega góður eigandi í gegnum tíðina að ýmsum jörðum, löndum og jafnvel fasteignum. Við sáum það t.d. að þegar ákveðið var að ráðast í átak á heimsfaraldurstímanum, í miðju Covid, þá lögðum við talsverða vinnu í að kortleggja hvar væri helst viðhaldsþörf hjá hinu opinbera og við sáum að mjög mikið af eignum var í slæmu ásigkomulagi,“ sagði Bjarni.

Nefndi hann Íslandspóst og sagði að hann hafi verið þeirrar skoðunar lengi að þeim verkefnum sem Íslandspóstur er að sinna í almannaþágu væri best fyrir komið með útboðsfyrirkomulagi. Þannig myndi ríkið fela aðilum sem vilja starfa á þessum markaði, eftir framkvæmd útboðs, að sjá til þess að þjónustan sé til staðar, t.d. alþjónusta um allt land. En að fyrirtæki starfi að öðru leyti á samkeppnismarkaði og því ætti ríkið ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því að þörf sé fyrir framtíðarhlutdeild Íslandspósts á því sviði.

Þá ræddi Bjarni Isavia og sagði mörg dæmi um það, á Norðurlöndunum og víðar, að það séu meðeigendur að slíkum fyrirtækjum. Það hafi ekki verið sérstaklega á dagskrá hér, en að það séu fordæmi fyrir því. Sagðist hann taka undir það með Vilhjálmi með að það væri kostur fyrir ríkið að fá meðeigendur t.d. að rekstrinum á Keflavíkurflugvelli. Það væri þá helst til þess að draga úr áhættu fyrir ríkið. Hann sagðist sannfærður um að það væri áhugi hjá erlendum fjárfestum að koma að því þó svo að ríkið væri áfram meirihlutaeigandi að fyrirtækinu.

Í lokin sagði hann: „Það er mín sýn að við eigum áfram að leita leiða til að losa ríkið úr eignarhaldi og rekstri þar sem aðrir geta tekið við og nýta fjármunina betur til uppbyggingar innviða sem við ætlum sannarlega að eiga og reka vel til framtíðar,“ sagði Bjarni.

Ræðu Vilhjálms má finna hér.

Ræðu Bjarna má finna hér.