Við virðum stofnanir samfélagsins

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Niðurstaða umboðsmanns Alþing­is um að fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hafi „brostið hæfi“ sam­kvæmt stjórn­sýslu­lög­um, við ákvörðun um sölu á 22,5% hlut rík­is­ins í Íslands­banka á síðasta ári, kom mér, eins og mörg­um öðrum, full­kom­lega á óvart. Ég full­yrði að all­ir þeir sem tóku þátt í und­ir­bún­ingi útboðsins hafi gert það í góðri trú og í þeirri full­vissu að öll­um skil­yrðum laga væri full­nægt. Þar var m.a. byggt á reynslu af vel heppnuðu frumút­boði þegar hluta­bréf bank­ans voru skráð á hluta­bréfa­markað árið 2021.

Í grein­ar­gerð umboðsmanns seg­ir að ekk­ert hafi komið fram „sem gef­ur til­efni til þess að draga í efa staðhæf­ingu ráðherra um grand­leysi hans um­rætt kvöld um þátt­töku Hafsilf­urs ehf. í útboðinu. Í því sam­bandi tek ég einnig fram að ekk­ert í þeim gögn­um sem ráðherra bár­ust frá Banka­sýsl­unni, áður en hann tók ákvörðun sína, gaf hon­um eða starfs­mönn­um ráðuneyt­is­ins sér­stakt til­efni til að ætla að fyr­ir­tæki í eigu föður hans væri meðal bjóðenda.“

Niðurstaða umboðsmanns er í beinni and­stöðu við lög­fræðilega ráðgjöf sem lá fyr­ir þegar ákvörðun var tek­in. Ég er ósam­mála niður­stöðu umboðsmanns. En um leið og niðurstaðan veld­ur von­brigðum get ég ekki annað en virt hana.

Hitt er rétt að í grein­ar­gerð umboðsmanns koma fram marg­ar ábend­ing­ar um hvað megi bet­ur fara og hvernig skyn­sam­legt sé að breyta um­gjörð og lög­um um sölu rík­is­eigna. Þær ábend­ing­ar verður lög­gjaf­inn og fram­kvæmda­valdið að taka al­var­lega og bregðast við. Mark­miðið er að tryggja að traust ríki í sam­fé­lag­inu þegar og ef tekn­ar eru ákv­arðanir um að selja rík­is­eign­ir. Þetta á ekki síst við um hluti rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um. Að þessu leyti er feng­ur að áliti umboðsmanns.

Ávinn­ing­ur­inn óum­deild­ur

Ég hef áður bent á að ákvörðun um að selja eign­ar­hluti rík­is­ins í Íslands­banka sé í eðli sínu póli­tísk og í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að „halda áfram að draga úr eign­ar­haldi rík­is­ins í fjár­mála­kerf­inu og nýta fjár­muni sem liggja í slík­um rekstri í upp­bygg­ingu innviða“.

Ávinn­ing­ur­inn af sölu bréf­anna í Íslands­banka er óum­deild­ur. Ríkið hef­ur losað veru­lega fjár­muni sem voru bundn­ir í áhætt­u­r­ekstri, eða alls 108 millj­arðar króna. Áhættu­söm rík­is­eign hef­ur verið nýtt í að styrkja innviði sam­fé­lags­ins – henni er umbreytt meðal ann­ars í nýj­an Land­spít­ala, sam­göngu­innviði og hjúkr­un­ar­heim­ili. Sú umbreyt­ing er póli­tík sem skil­ar ár­angri fyr­ir al­menn­ing. Þeir eru til sem eru í hjarta sínu mót­falln­ir þess­ari stefnu. Þeir halda áfram til­raun­um sín­um til að þyrla upp moldviðri, sá fræj­um tor­tryggni og vinna gegn því að traust geti skap­ast um sölu rík­is­eigna í ná­inni framtíð.

Til lengri tíma litið er ekki síður mik­il­vægt að með sölu bréf­anna hafa verið tek­in mark­viss skref í að minnka áhættu rík­is­ins í banka­rekstri. Við fær­umst nær heil­brigðara fjár­má­laum­hverfi í takt við það sem þekk­ist í ná­granna­lönd­um okk­ar.

Stend­ur vörð um ákveðin gildi

Ég er stolt­ur af Bjarna Bene­dikts­syni sem ráðherra og for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins. Um­skipt­in í rík­is­fjár­mál­um frá 2013 eru al­gjör og hafa lagt grunn­inn að sögu­legri sókn til bættra lífs­kjara fyr­ir all­an al­menn­ing. Skuld­ir voru 55% af lands­fram­leiðslu þegar Bjarni tók við fjár­málaráðuneyt­inu. Hlut­fallið er komið niður í 33% og með því lægsta sem þekk­ist á Vest­ur­lönd­um, þrátt fyr­ir áföll í skugga heims­far­ald­urs. Skatt­ar hafa verið lækkaðir 75 sinn­um frá 2013 en hækkaðir í 25 skipti. Alls nem­ur upp­söfnuð nettó-skatta­lækk­un 315 millj­örðum króna á föstu verðlagi og 533 millj­örðum þegar gríðarleg hækk­un banka­skatts­ins í tíð rík­is­stjórn­ar Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks er dreg­in frá. Mik­il hækk­un skatts­ins var ekki síst til að fjár­magna um­fangs­mik­ill­ar leiðrétt­ing­ar verðtryggðra hús­næðislána. Lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga hef­ur aukið ráðstöf­un­ar­tekj­ur launa­fólks, ekki síst þeirra sem lægstu laun­in hafa.

Með því að stíga til hliðar sem fjár­málaráðherra axl­ar Bjarni Bene­dikts­son ábyrgð og legg­ur um leið grunn að því að friður geti skap­ast um mik­il­vægt verk­efni í ráðuneyt­inu – ekki síst þegar kem­ur að frek­ari sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um.

Með ákvörðun sinni send­ir Bjarni þau skýru skila­boð að völd­um fylgi ábyrgð og und­ir­strik­ar um leið þau gildi sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og hann sjálf­ur sem stjórn­mála­maður standa fyr­ir: Virðingu fyr­ir stofn­un­um sem eru mik­il­væg­ar í frjálsu og opnu sam­fé­lagi. Á blaðamanna­fundi sagði Bjarni að sem formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins vildi hann senda út þau „skýru skila­boð að við störf­um að al­manna­heill af full­um heil­ind­um og við ber­um virðingu fyr­ir þeim niður­stöðum sem stofn­an­ir sam­fé­lags­ins kom­ast að jafn­vel þó við séum ekki sam­mála niður­stöðunni“.

Bjarni Bene­dikts­son hef­ur enn og aft­ur sýnt að hann ber höfuð og herðar yfir aðra ís­lenska stjórn­mála­menn. Hrein­skipt­inn og heiðarleg­ur. Óhrædd­ur við að tak­ast á við erfiðar aðstæður. Með ákvörðun sinni hef­ur hann gefið öðrum stjórn­mála­mönn­um gott for­dæmi. Slíkt for­dæmi geta aðeins sterk­ir stjórn­mála­menn gefið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. október 2023.