Verndun villtra laxa og sjókvíaeldis

Teitur Björn Einarsson alþingismaður:

Sjókvía­eldi á Vest­fjörðum og Aust­fjörðum ann­ars veg­ar og laxveiði hins veg­ar eru ekki slík­ar and­stæður að eitt úti­loki annað. Villta laxa­stofn­in­um staf­ar ein­fald­lega ekki sú hætta af sjókvía­eldi eins og full­yrt er nú í op­in­berri umræðu.

Slysaslepp­ing í Pat­reks­firði í ág­úst er engu að síður al­var­legt mál í ljósi þeirr­ar um­gjörðar sem stjórn­völd hafa skapað at­vinnu­grein­inni. Veiga­mikl­ir þætt­ir í starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins sem um ræðir fóru aug­ljós­lega úr­skeiðis. Kraf­an um raun­hæf­ar úr­bæt­ur þar sem þeim verður við komið á reglu­verki, eft­ir­liti og verk­ferl­um fisk­eld­is­fyr­ir­tækja á því rétt á sér. Mik­il­vægt er að draga lær­dóm af til­viki sem þessu og bæta úr með rétt­um hætti.

Hætt­an á erfðablönd­un er hverf­andi

Vís­inda­lega niður­stöðu um hættu á erfðablönd­un eld­is­fiska við villta laxa­stofna má draga sam­an á þann hátt að sí­end­ur­tekn­ar stór­ar slepp­ing­ar eld­is­fiska yfir langt tíma­bil þurfi til þess að auka hætt­una á áhrif­um á villta stofna. Skýr­ing­in er sú að eld­islax hef­ur mun minni hæfni til að fjölga sér í villtri nátt­úru en villt­ur lax.

Talið er að eitt hrogn af þúsund frá villt­um laxi kom­ist í gegn­um nál­ar­auga nátt­úru­vals­ins og nái að verða að kynþroska laxi. Eld­is­fisk­ur hef­ur verið kyn­bætt­ur kyn­slóðum sam­an einkum til að ná fram aukn­um vaxt­ar­hraða. Gangi eld­is­hæng­ur í ár tekst hrygn­ing ein­ung­is í 1-3% til­fella miðað við villta hænga. Hlut­fallið er u.þ.b. 30% hjá eld­is­hrygn­um miðað við villt­ar hrygn­ur. Eld­is­fisk­ur hef­ur ekki þá eig­in­leika í gena­meng­inu til að kom­ast af og af­kvæmi slíkra fiska hafa því að sama skapi nær enga mögu­leika til að lifa af, ná kynþroska og snúa til baka upp í ár til að hrygna.

Tek­ist á við óvissu

Jafn­vel þótt besta vís­inda­lega þekk­ing leiði það fram að hætt­an á erfðablönd­un eld­is­fisks við villt­an lax sé hverf­andi er engu að síður varúðar gætt. Óvissu gæt­ir um vissa þætti í lífs­hlaupi villtra laxa og rann­sókn­um á því sviði.

Af þeirri ástæðu eru byggð inn í lög­gjöf um fisk­eldi nokk­ur stý­ritæki til að tak­ast á við nátt­úru­lega óvissu með vís­inda­leg­um hætti og hlut­læg­um viðmiðunum þannig að stuðlað sé að ábyrgu fisk­eldi og vernd­un villtra laxa­stofna tryggð.

Fyrst ber að nefna að eld­is­svæðum er haldið frá laxveiðiám en litið er til þess að fjar­lægð milli eld­is­svæða og laxveiðiáa hafi áhrif á það hvort strokulax­ar nái að leita upp í ár. Í öðru lagi er fram­leiðslu­magni á eld­is­svæðum stýrt af áhættumati erfðablönd­un­ar, sem er lík­an sem leiðir fram reiknaða áhættu erfðablönd­un­ar sem hlut­fall af um­fangi sjókvía­eld­is á til­tekn­um stað. Í þriðja lagi eru strang­ar kröf­ur gerðar til alls búnaðar og fram­leiðslu­ferla fisk­eld­is­fyr­ir­tækja og það sann­reynt með bæði innra og ytra eft­ir­liti í formi skýrslu­gjaf­ar og út­tekt­ar. Í fjórða lagi er kveðið á um vökt­un áa og mót­vægisaðgerðir ef slysaslepp­ing­ar úr kví verður vart.

Vernd villtra laxa­stofna

Tek­ist er á við óvissu og áhættu í nær öllu sem viðkem­ur sam­fé­lagi manna með ein­um eða öðrum hætti og fisk­eldi í sjókví­um er þar ekki und­an­skilið. Dregið er úr áhættu af óæski­leg­um um­hverf­isáhrif­um fisk­eld­is eins og hægt er sam­kvæmt bestu vís­inda­legri þekk­ingu. Þannig eru sköpuð skil­yrði fyr­ir frek­ari upp­bygg­ingu fisk­eld­is og efl­ingu at­vinnu­lífs og byggðar í land­inu sam­hliða vernd­un villtra laxa­stofna.

En ef horfa á fyrst og fremst til vernd­un­ar villtra laxa­stofna þá kem­ur líka margt fleira til skoðunar en sjókvía­eldi. Fjöl­marg­ir þætt­ir hafa áhrif á af­komu villtra laxa. Aðstæður í haf­inu eru tald­ar ráða einna mestu um end­ur­komu laxa í ár en á móti hef­ur sá þátt­ur ekki verið mikið rann­sakaður. Veiði hef­ur líka áhrif á af­komu villtra stofna. Veiðiálag í laxveiðiám hef­ur samt ekki verið of­ar­lega á baugi áhyggju­fullra stang­veiðimanna eða áhrif þess að þreyta lax, háfa og meðhöndla fyr­ir mynda­töku og sleppa svo aft­ur. Þá er held­ur ekki mikið vitað um áhrif og ár­ang­ur af fisk­rækt í mörg­um laxveiðiám með ár­leg­um seiðaslepp­ing­um.

Óskandi væri því að umræða um vernd­un villtra laxa­stofna færi fram á breiðari og mál­efna­legri grunni en hingað til og rann­sókn­ar­spjót­um beint að þátt­um þar sem óviss­an er hvað mest.

Það er allra hag­ur að vel tak­ist til við sjálf­bæra nýt­ingu nátt­úru­auðlinda lands­ins á grunni vís­inda­legr­ar þekk­ing­ar og mál­efna­legr­ar af­mörk­un­ar. Og það er allra hag­ur að vel tak­ist til við upp­bygg­ingu um land allt og gagn­kvæmni og virðing ríki milli ólíkra hags­muna.

En tals­menn þrýsti­hópa á veg­um stang­veiðifé­laga og nátt­úru­vernd­ar­sam­taka eru komn­ir langt út í skurð á op­in­ber­um vett­vangi með því að krefjast þess að fisk­eldi á Vest­fjörðum og Aust­fjörðum verði bannað. Við slík­an mál­flutn­ing verður ekki unað og er áróður þess­ara hópa í engu sam­ræmi við þann vís­inda­lega grund­völl sem fisk­eldi bygg­ir á og það reglu­verk sem sett hef­ur verið. Virðist meira vera bar­ist gegn sjókvía­eldi og lífsviður­væri fjölda fólks en fyr­ir vernd­un villtra laxa.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2023.